Ferill 592. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1746  —  592. mál.




Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Gunnari Braga Sveinssyni um eftirlit með samruna.


    Við vinnslu svarsins óskaði ráðuneytið upplýsinga frá Samkeppniseftirlitinu. Svarið byggist á upplýsingum stofnunarinnar.

     1.      Í hvaða tilvikum hefur Samkeppniseftirlitið sett utanaðkomandi umsjónar- eða eftirlitsaðila til að hafa eftirlit með samruna fyrirtækja og hve lengi hefur slíkt eftirlit staðið í hverju tilviki?
    Skipan eftirlitsaðila (sem oft er nefndur kunnáttumaður, söluaðili eða eftirlitsnefnd; e. trustee) er þekkt úrræði í alþjóðlegum samkeppnisrétti til þess að fylgja eftir skilyrðum sem sett eru í ákvörðunum samkeppnisyfirvalda.
    Hér á landi hefur þessu úrræði fyrst og fremst verið beitt þegar sátt næst milli hlutaðeigandi fyrirtækja og Samkeppniseftirlitsins um tilteknar aðgerðir sem fyrirtæki skuldbinda sig til að ráðast í, með það að markmiði að ryðja úr vegi samkeppnishindrunum. Slíkar sáttir eru algengar í samrunamálum, en eru líka þekktar í öðrum málum, svo sem rannsóknum á ólögmætu samráði eða misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Fyrirtækið sem á í hlut óskar eftir að gera sátt í málinu og leggur fram hugmyndir að skilyrðum sem liggja þá til grundvallar sáttaviðræðum. Það er því ávallt val viðkomandi fyrirtækja hvort þau kjósa að óska eftir sátt eða sæta hefðbundinni stjórnsýsluákvörðun sem síðan er hægt að láta reyna á fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála og dómstólum.
    Hlutverk eftirlitsaðila er að fylgja framkvæmd sáttar eða skilyrða eftir í samræmi við nánari verklýsingu í viðkomandi máli. Verkefni eftirlitsaðilans ráðast því af skuldbindingum fyrirtækis í hverju máli og geta verið misjafnlega umfangsmikil, bæði hvað varðar verkefnin sjálf og tímalengd þeirra.
    Eftirlitsaðilinn er tilnefndur af hlutaðeigandi fyrirtæki sem jafnframt greiðir fyrir vinnuna og ber ábyrgð á störfum hans, þar á meðal rekstrarlega ábyrgð. Eftirlitsaðilinn er því hluti af innra skipulagi viðkomandi fyrirtækis. Þetta var t.d. staðfest í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál, nr. 801/2019, þar sem eftirlitsnefnd sem starfar við Íslandspóst, samkvæmt ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, nr. 8/2017 (sátt), var talin hluti af fyrirtækinu.
    Í skipun eftirlitsaðila felst því ekki framsal á verkefnum eða úrræðum Samkeppniseftirlitsins. Eftirlitsaðilanum er hins vegar ætlað að auðvelda fyrirtækinu að standa við skuldbindingar sínar og fylgja þeim eftir, sem og að auðvelda úrlausn ýmissa álitaefna sem risið geta í samskiptum fyrirtækisins við viðskiptavini og keppinauta. Er hann oft í aðstöðu til að leysa úr málum með skjótvirkum hætti, sem getur falið í sér hagræði fyrir viðkomandi fyrirtæki. Síðast en ekki síst er hlutverk eftirlitsaðila að gera Samkeppniseftirlitinu viðvart ef skilyrðum eða markmiðum ákvörðunar (sáttar) er ekki fylgt. Kemur þá til kasta Samkeppniseftirlitsins í samræmi við heimildir laga.
    Hlutverk Samkeppniseftirlitsins við skipan eftirlitsaðila er jafnan að ganga úr skugga um hvort sá eða þeir aðilar sem hlutaðeigandi fyrirtæki tilnefnir búi yfir fullnægjandi óhæði gagnvart fyrirtækinu og fyrirliggjandi verkefnum og hafi reynslu og þekkingu sem nýtist til starfans. Á þessum grundvelli getur Samkeppniseftirlitið hafnað tilnefningu fyrirtækis, sem þá þarf að tilnefna annan. Til að hraða skipun eftirlitsaðila tilnefnir fyrirtækið því oft fleiri einstaklinga sem það treystir til starfans. Í slíkum tilvikum verður sá aðili fyrir valinu sem býr yfir fullnægjandi óhæði og þekkingu og er reiðubúinn að taka að sér starfið.
    Í tilefni af fyrirspurninni tók Samkeppniseftirlitið saman upplýsingar um öll mál þar sem eftirlitsaðili (kunnáttumenn eða eftirlitsnefndir) hefur verið skipaður. Um er að ræða 46 tilvik og af þeim eru 39 samrunamál, eða um 85% tilvika. Af þessum 39 málum eru allmörg tengd skilyrðum vegna yfirtöku banka á atvinnufyrirtækjum, einkum í kjölfar efnahagshrunsins 2008, eða 34 tilvik. Í aðeins 5 málum, eða 11% tilvika, hefur eftirlitsaðili verið skipaður í hefðbundnu samrunamáli, þ.e. vegna samruna sem ekki tengist yfirtöku banka eða fjármálafyrirtækis. Þá eru nú starfandi kunnáttumenn í fjórum málum sem varða samruna. Í öllum þessum tilvikum hefur einstaklingur verið skipaður (kunnáttumaður) og því ekki um eftirlitsnefndir að ræða.
    Misjafnt er eftir tilvikum hversu lengi eftirlitið stendur. Þannig er eftirlit með söluskilyrðum tímabundið en eftirlit með hegðunarskilyrðum eða öðrum flóknari skuldbindingum getur verið langvarandi. Af þeim málum þar sem eftirliti er lokið var meðaltímalengd eftirlits 698 dagar eða um 1,9 ár.
    Í töflu í fylgiskjali með svari þessu er að finna upplýsingar um það í hvaða samrunamálum eftirlitsaðili hefur verið skipaður, hvenær eftirlitið hófst og því lauk, hvort eftirlitinu er lokið eða ólokið og hver var skipaður eftirlitsaðili.
    Við gerð sátta sem hafa að geyma ákvæði um eftirlitsaðila og framkvæmd slíkra skuldbindinga hefur Samkeppniseftirlitið horft til reynslu af sambærilegri framkvæmd á Evrópska efnahagssvæðinu, en framkvæmdastjórn ESB hefur t.d. metið reynslu af þessu á fyrri tíð. Sömuleiðis hefur Samkeppniseftirlitið í hyggju að meta árangur af skipan eftirlitsaðila hér á landi, þar á meðal með tilliti til þeirra leiðbeininga sem eftirlitið hefur sett fram á heimasíðu sinni.

     2.      Hvaða aðilar, aðrir en Samkeppniseftirlitið, hafa haft með höndum slíkt eftirlit, þ.e. eftirlit sem heyrir undir Samkeppniseftirlitið?
    Í töflu í fylgiskjali með svari þessu er yfirlit yfir það hverjir hafa verið skipaðir eftirlitsaðilar og í hvaða málum. Vegna spurningarinnar er rétt að árétta að eftirlitsaðili er hluti af innra skipulagi viðkomandi fyrirtækis og í verkefnum hans felst ekki framsal á hlutverki eða skyldum Samkeppniseftirlitsins. Jafnframt eru aðilarnir tilnefndir af viðkomandi fyrirtækjum. Þeir heyra því ekki undir Samkeppniseftirlitið þótt eftirlitið gangi úr skugga um hæfi þeirra og hlutverk þeirra sé m.a. að tilkynna eftirlitinu um framkvæmd skilyrðanna.
    Af þeim 39 tilvikum þar sem skipaðir hafa verið eftirlitsaðilar vegna samruna hefur innri endurskoðun eða regluvörður banka verið skipaður í 24 tilvikum eða í tæplega 62% tilvika. Raunar má segja að verkefni eftirlitsaðila séu náskyld verkefnum innri endurskoðanda.

     3.      Hvað hefur verið greitt fyrir eftirlitið í hverju tilviki, hver bar kostnaðinn og hvaða aðili, þ.e. fyrirtæki eða einstaklingur, þáði greiðsluna?
    Eins og rakið er í svari við 1. og 2. tölul. fyrirspurnarinnar er litið svo á að eftirlitsaðili sé hluti af innra skipulagi viðkomandi fyrirtækis, sem í öllum umræddum samrunamálum kaus sátt í málinu gagnvart Samkeppniseftirlitinu og skuldbatt sig til að tilnefna einstakling í starfið og standa undir öllum kostnaði af störfum hans.
    Af þessum sökum býr Samkeppniseftirlitið ekki yfir upplýsingum úr bókhaldi fyrirtækjanna um kostnað af störfum þeirra. Sömuleiðis hefur Samkeppniseftirlitið ekki safnað upplýsingum um hvort greiðslur vegna starfans eru greiddar á reikning viðkomandi einstaklings eða fyrirtækis í hans eigu. Að þessu leyti getur Samkeppniseftirlitið ekki svarað þessum tölulið.
    Rétt er hins vegar að vekja athygli á því að Samkeppniseftirlitið hefur lagt áherslu á að fyrirtæki sem hafa skuldbundið sig til að lúta eftirliti af þessu tagi geri formlega verksamninga við viðkomandi eftirlitsaðila. Þá hefur Samkeppniseftirlitið beint því til fyrirtækja að eðlilegt sé að eftirlitsaðilar lúti sambærilegu kostnaðaraðhaldi fyrirtækisins og almennt gildir um aðra aðkeypta þjónustu. Þannig sé ekkert því til fyrirstöðu að fyrirtækið kalli eftir verkáætlun, tímaskýrslum og sinni öðru eftirliti með kostnaði sem lið í hefðbundnu innra eftirliti eða innri endurskoðun. Hefur Samkeppniseftirlitið beint nánari leiðbeiningum um þetta til hlutaðeigandi fyrirtækja. Eru þær aðgengilegar á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins. 1 Er þetta í samræmi við viðurkennt verklag á vettvangi framkvæmdastjórnar ESB.
    Loks er rétt að benda á að ef upp koma vafamál við túlkun sáttar, svo sem að því er varðar umfang eftirlitsverkefna, getur eftirlitsaðilinn eða viðkomandi fyrirtæki leitað til eftirlitsins. Eins getur eftirlitið gripið inn í ef það telur að ákvæði sáttar hafi verið brotin eða gengið gegn markmiðum þeirra. Ef viðkomandi fyrirtæki eru ósátt við niðurstöður eftirlitsins að þessu leyti er hægt að bera þær undir áfrýjunarnefnd samkeppnismála, sbr. t.d. nýlegan úrskurð í máli nr. 5/2019, Festi gegn Samkeppniseftirlitinu.


Fylgiskjal.


Tafla. Samrunamál þar sem óháður kunnáttumaður hefur verið skipaður.

Ákvörðun Heiti Aðilar Eftirlitstímabil frá Eftirlitstímabil til Eftirlitsaðili
Nr. 8/2008 Framkvæmd skilyrða (sáttar) vegna Forlagsins Forlagið 1.2.2008 21.12.2009 Gizur Bergsteinsson, lögmaður; Sverrir Kristinsson, löggiltur fasteignasali (söluaðilar)
Nr. 6/2010 Eftirfylgni vegna samruna Arion banka og Haga (1998) Arion banki hf. 25.3.2010 11.5.2011 Innri endurskoðandi Arion banka
Nr. 7/2010 Eftirfylgni vegna samruna Vestia og Teymis Landsbankinn hf., Vestia 30.3.2010 14.1.2011 Innri endurskoðandi Landsbankans
Nr. 8/2010 Yfirtaka Íslandsbanka hf. á bifreiðaumboðunum Bifreiðum og Landbúnaðarvélum ehf. og Ingvari Helgasyni ehf. Íslandsbanki hf. 29.3.2010 17.11.2011 Eggert B. Ólafsson, lögmaður
Nr. 10/2010 Eftirfylgni vegna yfirtöku Vestia á Húsasmiðjunni Landsbankinn hf., Vestia 13.4.2010 14.1.2011 Innri endurskoðandi Landsbankans
Nr. 15/2010 Eftirfylgni vegna yfirtöku bankanna á Reitum Viðskiptabankarnir, Haf Funding, Glitnir 30.4.2010 5.6.2015 Innri endurskoðandi Arion banka; Eggert B. Ólafsson, lögmaður (Íslandsbanki); innri endurskoðandi Landsbankans
Nr. 16/2010 Eftirfylgni vegna yfirtöku Íslandsbanka hf. á Bevís hf. Íslandsbanki hf. 6.5.2010 1.6.2010 Vegna snöggrar sölu kom ekki til skipunar óháðs eftirlitsaðila
Nr. 19/2010, 18/2011 Eftirfylgni vegna yfirtöku NBI hf. á Regin, Fasteignafélagi Íslands og Laugahúsi ehf. Landsbankinn hf. 4.6.2010 16.5.2012 Innri endurskoðandi Landsbankans
Nr. 20/2010 Eftirfylgni vegna yfirtöku Vestia á Plastprenti Landsbankinn hf., Vestia 8.6.2010 14.1.2011 Innri endurskoðandi Landsbankans
Nr. 21/2010 Eftirfylgni vegna samruna Arion banka og Þyrpingar Arion banki 23.6.2010 15.9.2015 Innri endurskoðandi Arion banka
Nr. 22/2010 Yfirtaka Íslandsbanka á Eik Properties ehf. Íslandsbanki hf. 5.7.2010 4.2.2011 Eggert B. Ólafsson, lögmaður
Nr. 31/2010 Eftirfylgni vegna yfirtöku Arion banka á BM Vallá Arion banki hf. 1.9.2010 6.3.2012 Innri endurskoðandi Arion banka
Nr. 32/2010 Eftirfylgni vegna yfirtöku NBI hf. á Límtré – Vírneti ehf. Landsbankinn hf. 20.10.2010 18.11.2010 Innri endurskoðandi Landsbankans
Nr. 1/2011 Eftirfylgni vegna kaupa Framtakssjóðs Íslands slhf. á Vestia Framtakssjóður Íslands, Landsbankinn 10.1.2010 27.1.2016 Stefán A. Svensson, lögmaður (áður Þórólfur Jónsson, lögmaður, Páll Ásgrímsson, lögmaður, og Herdís Dröfn Fjeldsted, starfsmaður FSÍ)
Nr. 5/2011 Eftirfylgni vegna samruna NBI hf. og Björgunar ehf. Landsbankinn hf. 26.1.2011 29.7.2011 Innri endurskoðandi Landsbankans
Nr. 7/2011 Yfirtaka Arion banka hf. á eignum þrotabús Sigurplasts ehf. Arion banki hf. 31.1.2011 12.4.2012 Innri endurskoðandi Arion banka
Nr. 8/2011 Eftirfylgni vegna yfirtöku SPW (ÍSB og Glitnis) á Bláfugli Íslandsbanki hf. 9.2.2011 26.3.2014 Eggert B. Ólafsson, lögmaður
Nr. 12/2011 Yfirtaka Arion banka hf. á G-7 ehf. (fasteignafélagi ÖES) Arion banki hf. 4.3.2011 29.6.2012 Innri endurskoðandi Arion banka
Nr. 16/2011 Eftirfylgni vegna yfirtöku Arion banka á Fram Foods hf. Arion banki 31.3.2011 11.3.2013 Innri endurskoðandi Arion banka
Nr. 17/2011 Eftirfylgni vegna samruna Landsbankans hf. og Pizza Pizza ehf. Landsbankinn hf. 9.5.2011 10.8.2011 Innri endurskoðandi Landsbankans
Nr. 20/2011 Sameiginleg yfirráð Arion banka og Búvalla yfir Högum hf. Arion banki, Búvellir 11.5.2011 6.6.2012 Innri endurskoðandi Arion banka
Nr. 26/2011 Eftirfylgni vegna samruna Horns – fjárfestingarfélags ehf. og Promens Landsbankinn hf., Horn 12.7.2011 30.3.2012 Innri endurskoðandi Landsbankans
Nr. 28/2011 Yfirtaka Landsbankans hf. á Sólningu, Kópavogi ehf. Landsbankinn hf. 12.8.2011 2.4.2012 Innri endurskoðandi Landsbankans
Nr. 41/2011 Eftirfylgni vegna viðskipta Landsbankans og Bifreiðainnflutnings með eignarhlut í Toyota á Íslandi Samkeppniseftirlitið 9.12.2011 25.6.2013 Innri endurskoðandi Landsbankans
Nr. 5/2012 Eftirfylgni vegna kaupa Framtakssjóðs Íslands slhf. á hlut í Promens Framtakssjóður Íslands, Landsbankinn 9.3.2011 25.11.2015 Innri endurskoðandi Landsbankans
Nr. 12/2012 Eftirfylgni með ákvörðun nr. 12/2012, kaupum FSÍ á N1 Framtakssjóður Íslands, Landsbankinn 15.5.2012 3.4.2014 Páll Ásgrímsson, lögmaður; innri endurskoðandi Landsbankans
Nr. 17/2012 Eftirfylgni vegna yfirtöku Landsbankans á Lífsvali Landsbankinn hf. 9.7.2012 10.7.2015 Innri endurskoðandi Landsbankans
Nr. 22/2012 Eftirfylgni vegna yfirtöku Íslandsbanka á Höfðatorgi Íslandsbanki 10.7.2012 19.6.2014 Eggert B. Ólafsson, lögmaður
Nr. 35/2013, 34/2014 Eftirfylgni vegna sáttar Landsbankans varðandi kaup Landsbankans á Ístaki Landsbankinn hf. 20.12.2013 4.6.2015 Innri endurskoðandi Landsbankans
Nr. 2/2014 Eftirfylgni vegna kaupa SF IV slhf. á Skeljungi hf. SF IV, Stefnir, Arion banki 4.12.2013 23.1.2017 Innri endurskoðandi Arion banka
Nr. 7/2014 Eftirfylgni við ákvörðun nr. 7/2014 vegna kaupa Bekei hf. (nú Festi hf.) á félögum í eigu Norvikur hf. SF V, Stefnir, Arion banki 16.1.2014 30.7.2018 Innri endurskoðandi Arion banka
Nr. 18/2014 Eftirfylgni með ákvörðun nr. 18/2014, kaupum Íslandsbanka hf. á hlutafé í Frumherja hf. Íslandsbanki 16.6.2014 13.5.2016 Eggert B. Ólafsson, lögmaður
Nr. 21/2014 Eftirfylgni með samruna FAST-1 og HTO, ákvörðun nr. 21/2014 Fast 1, Íslandssjóðir, Íslandsbanki 19.6.2014 31.8.2018 Eggert B. Ólafsson, lögmaður
Nr. 9/2015 Söluferli Afls – sparisjóðs Arion banki hf. 27.4.2015 4.6.2015 Guðmundur Þórður Guðmundsson, Óskar Jósefsson, Advance (söluaðilar)
Nr. 32/2017 Kaup Alvogen á markaðssettum lyfjum Teva á Íslandi Alvogen Iceland ehf. 29.8.2017 22.12.2017 Aðalheiður Pálmadóttir, lyfjafræðingur
Nr. 42/2017 Eftirfylgni með kaupum Fjarskipta hf. á 365 miðlum hf. Sýn hf. 9.10.2017 Enn í gangi Ólafur Aðalsteinsson, MBA (áður Fróði Steingrímsson, lögmaður)
Nr. 8/2019 Eftirfylgni með samruna N1 hf. og Festi ehf. Festi hf. 30.7.2018 Enn í gangi Lúðvík Bergvinsson, lögmaður
Nr. 9/2019 Eftirfylgni með skilyrðum vegna samruna Haga og Olís Hagar hf. 11.9.2018 Enn í gangi Einar Gautur Steingrímsson, lögmaður
Nr. 31/2019 Eftirfylgni vegna sáttar Arion banka og SE vegna yfirtöku bankans á hlutafé í TravelCo, Heimsferðum og Terra Nova Sól Arion banki hf. 23.9.2019 Enn í gangi Eggert Páll Ólason, lögmaður

1    samkeppni.is/media/bref/Bref-til-adila-ad-sattum-vid-SE-kunnattumenn.pdf