Ferill 442. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 754  —  442. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á sóttvarnalögum, nr. 19/1997 (aðgerðir á landamærum).

Flm.: Helga Vala Helgadóttir, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Rósa Björk Brynjólfsdóttir.


1. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Fram til 1. maí 2021 getur ráðherra með reglugerð, að fenginni tillögu sóttvarnalæknis, kveðið á um að gripið skuli til sóttvarnaráðstafana vegna hættu á að farsóttir berist til eða frá Íslandi samkvæmt ákvæði þessu.
    Í reglugerðinni er ráðherra heimilt að kveða á um að við komu eða brottför og af ástæðum er varða lýðheilsu megi krefjast þess að ferðamenn:
     1.      Upplýsi um áfangastaði og samskiptaupplýsingar svo að unnt sé að ná sambandi við þá og fylli út spurningalista um heilsu sína.
     2.      Upplýsi um ferðaslóð sína fyrir komu og framvísi heilbrigðisskjölum.
     3.      Tilkynni sig til íslenskra stjórnvalda, enda hafi þeir sætt vöktun vegna lýðheilsu í öðru ríki.
     4.      Undirgangist heilbrigðisskoðun sem er eins lítið ífarandi og unnt er til að ná settu lýðheilsumarkmiði. Ekki skal beitt inngripum nema gagnvart þeim sem grunur leikur á að hafi smitast.
    Með sama hætti er unnt að krefjast skoðunar farangurs, farms, gáma, farartækja, vara, póstböggla og líkamsleifa og til sótthreinsunar, einangrunar eða sóttkvíar ef tilefni er til.
    Ef vísbendingar eru um að lýðheilsu sé hætta búin getur ráðherra enn fremur kveðið á um það í reglugerð að ferðamenn skuli undirgangast:
     a.      ónæmisaðgerð eða
     b.      aðrar ráðstafanir sem koma í veg fyrir sjúkdóma eða varna útbreiðslu þeirra, þ.m.t. einangrun, sóttkví eða vöktun vegna lýðheilsu.
    Þrátt fyrir 2.–4. mgr. er heimilt að kveða á um í reglugerð, til að bregðast við tiltekinni hættu eða bráðri ógn við lýðheilsu, að beita skuli fleiri en einni ráðstöfun samtímis, óháð því hvort grunur leikur á að einstaklingur hafi smitast. Í þeim tilvikum skal gætt að tilkynningarskyldu íslenskra stjórnvalda til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar skv. 43. gr. alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar.
    Ekki skal framkvæma heilbrigðisskoðun, ónæmisaðgerð eða grípa til annarrar heilbrigðisráðstöfunar án þess að fá fyrst skýlaust og upplýst samþykki viðkomandi ferðamanns fyrir því, eða foreldra hans eða forráðamanna, nema í þeim tilvikum sem kveðið er á um í 7. mgr.
    Ef ferðamaður, sem grunur leikur á að hafi smitast, hafnar ráðstöfun eða neitar að láta í té þær upplýsingar eða þau skjöl sem um getur í ákvæði þessu er unnt að fyrirskipa viðkomandi, eftir atvikum með aðstoð lögreglu, að hlýða þeim fyrirmælum sem kveðið er á um í 2.–5. mgr. Það skal þó einungis gert ef vísbendingar eru um að lýðheilsa sé í hættu og þvingun sé nauðsynleg til að verjast þeirri hættu.
    Lögreglustjóra er heimilt að vísa útlendingi, sem ekki er búsettur hér á landi, úr landi við komu til landsins eða allt að sjö sólarhringum eftir komu ef hann neitar að verða við fyrirmælum um ráðstafanir sem ráðherra hefur heimilað skv. 2.–5. mgr. eða ef í ljós kemur að hann hafi ekki fylgt þeim. Ákvörðun um frávísun er kæranleg til kærunefndar útlendingamála, en kæra frestar ekki framkvæmd ákvörðunar. Að öðru leyti fer um málsmeðferð samkvæmt lögum um útlendinga.
    Hafi ferðamaður undir höndum viðurkennt vottorð um ónæmisaðgerð er ekki hægt að synja honum um komu inn í landið eða beita öðrum ráðstöfunum á grundvelli þessa ákvæðis með skírskotun til sjúkdómsins sem vottorðið varðar, jafnvel þótt hann komi frá smitsvæði, nema sannanlegar ábendingar hafi borist eða vísbendingar séu um að ónæmisaðgerðin hafi ekki borið árangur eða að vottorðið sé falsað.
    Ferðamanni, sem kann að hafa smitast og er við komu látinn sæta vöktun vegna lýðheilsu eða öðrum ráðstöfunum samkvæmt þessu ákvæði, er heimilt að halda áfram ferð sinni milli landa ef hann ógnar ekki lýðheilsu. Stjórnvöld skulu tilkynna lögbæru yfirvaldi á landamærastöð ákvörðunarstaðar, ef hann er þekktur, um væntanlega komu ferðamannsins.
    Ferðamönnum sem koma til landsins ber að öðru leyti að fylgja þeim reglum sem settar hafa verið á grundvelli 12. og 14. gr.
    Ráðherra getur kveðið á um nánara fyrirkomulag ráðstafana samkvæmt þessu ákvæði í reglugerð og innleitt að öðru leyti alþjóðaheilbrigðisreglugerð Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Heimsfaraldur kórónuveiru hefur leitt til margvíslegra aðgerða til að hefta útbreiðslu veirunnar hér á landi. Gripið hefur verið til nauðsynlegra aðgerða á landamærum og hafa ferðamenn haft val um að fara annars vegar í tvöfalda skimun eða hins vegar í 14 daga sóttkví. Í minnisblaði sínu til heilbrigðisráðherra í nóvember 2020 lagði sóttvarnalæknir til þá breytingu að allir sem hingað kæmu yrðu skyldaðir í tvöfalda skimun. Var þetta lagt til vegna þess að brögð höfðu verið að því að í mörgum tilvikum væri erfitt að fá fólk til þess að fara í tvöfalda skimun en að fólk ætlaði sér þó ekki að virða 14 daga sóttkví. Heilbrigðisráðherra varð ekki við þessum tilmælum sóttvarnalæknis þetta sinn heldur felldi niður gjald fyrir skimun. Í minnisblaði sínu til heilbrigðisráðherra í janúar lagði sóttvarnalæknir öðru sinni til skyldu um tvöfalda skimun, nú með áherslu á nauðsyn þess að verja landið fyrir nýju afbrigði veirunnar. Hið nýja afbrigði hefur á undanförnum vikum haft veruleg áhrif á nágrannalönd okkar sem hafa neyðst til að færa sóttvarnaaðgerðir í mun strangara horf með útgöngubanni og hertari reglum með verulegum neikvæðum afleiðingum fyrir almenning og athafnalíf. Það er því til mikils að vinna að gera allt sem hægt er til að treysta sóttvarnir á landamærum enn frekar. Sóttvarnalæknir hefur sagt að skylda um tvöfalda skimun gæti ráðið úrslitum um hversu vel tekst til við varnir Íslands og hefur yfirlögregluþjónn flugstöðvardeildar lögreglustjórans á Suðurnesjum tekið undir það. Hefur hann sagt að frá því í október 2020 hafi tekist að telja um 210 manns af því að velja sóttkví fremur en skimun og að í þeim hópi hafi greinst fjölmörg smit. Fjölmörg tilvik séu þekkt um sýkta einstaklinga sem hafi ætlað sér að halda í 14 daga sóttkví en verið mættir til vinnu skömmu síðar. Hafa sóttvarnalæknir og yfirlögregluþjónn sagt smuguna á landamærum til að fara fram hjá sóttvarnareglum geta hleypt af stað nýrri bylgju kórónuveirufaraldurs með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
    Fyrir liggur að lagastoð skortir fyrir skyldu um tvöfalda skimun. Fyrir velferðarnefnd er nú til meðferðar stjórnarfrumvarp um margvíslegar breytingar á sóttvarnalögum, m.a. með ákvæðum er varða ýmsar sóttvarnir (329. mál). Þar sem nefnt stjórnarfrumvarp er ekki langt komið í vinnslu og þarfnast vandaðrar meðferðar nefndarinnar er ljóst að ef tryggja á ýtrustu hagsmuni íslensks samfélags þarf að leggja til skyldu um tvöfalda skimun til bráðabirgða. Í frumvarpi þessu er því bráðabirgðaákvæði sem tekur gildi strax ef að lögum verður og skal gilda þar til stjórnarfrumvarpið, sem áður var rætt, verður að lögum en að óbreyttu til 1. maí 2021. Að öðru leyti vísast til greinargerðar með frumvarpi til laga um breytingu á sóttvarnalögum (329. mál á yfirstandandi löggjafarþingi).