Ferill 430. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1039  —  430. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um rekstrarkostnað og framlög til sjálfstætt rekinna grunnskóla.


     1.      Hverjar eru skyldur sveitarfélaga að því er snertir rekstrarkostnað sjálfstætt rekinna grunnskóla lögum samkvæmt?
    Samkvæmt lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, með síðari breytingum, er gert ráð fyrir að starfsemi sjálfstætt rekinna grunnskóla byggi almennt á grundvelli þjónustusamninga við það sveitarfélag sem samþykkir stofnun viðkomandi grunnskóla. Samningur sveitarfélags og rekstraraðila skóla felur í sér samþykki fyrir stofnun og rekstri skólans, staðfestingu á rétti til fjárframlaga skv. 43. gr. b og skuldbindingu sveitarfélags um að hafa eftirlit með starfsemi hans. Sveitarfélag getur hafnað því að gera þjónustusamning eða takmarkað hann við tiltekinn nemendafjölda, t.d. ef fjárframlög til skólans kunna að hafa neikvæð áhrif á skólastarf sveitarfélagsins sjálfs og fjárveitingar til þess. Í þjónustusamningi skal fjalla um fjárhagsleg viðfangsefni eins og fjárhagsleg samskipti aðila, svo sem dreifingu fjárframlaga og þau fjármál sem tengjast nemendum með sérþarfir. Þjónustusamningur skal einnig fjalla um hámarksfjölda nemenda við skólann, en hann skal m.a. ákvarðaður að teknu tilliti til húsnæðis, starfsaðstæðna nemenda og starfsmanna, möguleika á að skipuleggja eftirlit með skólanum og fjárhagslegs rekstraröryggis og hámarksfjölda nemenda við skólann sem sveitarfélagi ber að greiða kostnað af, sbr. 43. gr. b, en hann skal m.a. ákvarðaður með hliðsjón af fjárveitingum sem sveitarfélag ákveður. Sveitarfélag getur sett skilyrði um hámark gjaldtöku með hliðsjón af fjárframlögum þess til skólans.
    Í 43. gr. b grunnskólalaga segir nánar um fjárframlag til þeirra skóla sem gerðir hafa verið þjónustusamningur um við sveitarfélög:
    „Sjálfstætt rekinn grunnskóli sem gert hefur þjónustusamning skv. 43. gr. a á rétt á framlagi úr sveitarsjóði til starfsemi sinnar vegna nemenda sem hafa lögheimili í því sveitarfélagi sem skólinn starfar í. Skal framlagið nema að lágmarki 75% af vegnu meðaltali heildarrekstrarkostnaðar allra grunnskóla sem reknir eru af sveitarfélögum í landinu á hvern nemanda samkvæmt útreikningi Hagstofu Íslands. Gildir þetta hlutfall fyrir skóla með allt að 200 nemendur, en framlagið skal vera að lágmarki 70% fyrir hvern nemanda umfram þann fjölda.
    Útreikningur Hagstofu Íslands skal liggja fyrir fimmta dag hvers mánaðar og byggjast á næsta mánuði á undan og taka mið af verðlagsbreytingum.
    Sveitarfélög greiða framlög reglulega eftir því sem segir í þjónustusamningi. Greiðslurnar taka breytingum til hækkunar eða lækkunar eftir útreikningum Hagstofunnar. Sveitarfélögum er heimilt að greiða sérstakt stofnframlag til sjálfstætt rekinna grunnskóla. Slík framlög verða eingöngu nýtt í þágu skólastarfsins.“
    Í 43. gr. e er fjallað um sjálfstætt rekna grunnskóla sem ekki eru valfrjálsir vegna skipulags á grunnskólahaldi í sveitarfélagi og skyldur sveitarfélags til að tryggja að nemendur sem sækja þessa tegund skóla njóti að öllu leyti sömu réttinda, sömu þjónustu og sambærilegrar stöðu og þegar sveitarfélag rekur skólann. Í þessu felst m.a. skylda sveitarfélags að sjá til þess að þjónustusamningur tryggi rétt sveitarfélags til að taka yfir nauðsynlega þætti í starfsemi rekstraraðilans. Um getur verið að ræða samninga við starfsfólk eða samninga um húsnæði eða gögn, málaskrár og annað sem tengist kennslu og telst hluti skólahaldsins, enda þurfi rekstraraðili að leggja niður eða hætta rekstri eða sveitarfélaginu hafi gefist réttmæt ástæða til að slíta samningi við hann, og skylda til að tryggja rétt sveitarfélags þegar rekstraraðili gerir aðra samninga, svo sem við kröfuhafa, leigusala og starfsmenn. Sveitarstjórn skal kynna íbúum sveitarfélagsins áætlun um samninga eða skipulag skólahalds skv. 1. mgr. 43. gr. e í samræmi við 1. mgr. 5. gr. og fyrirmæli sveitarstjórnarlaga um samráð við íbúa.
    Um nánari fyrirmæli laganna er fjallað í reglugerð um sjálfstætt rekna grunnskóla, nr. 1150/2018. Þar er m.a. kveðið á um frekari skyldur sveitarfélaga gagnvart sjálfstætt reknum grunnskólum um að áður en sveitarfélag geri samning við rekstraraðila sjálfstætt rekins grunnskóla skuli liggja fyrir að um sé að ræða lögaðila sem starfar í formi sjálfseignarstofnunar, hlutafélags eða samkvæmt öðru viðurkenndu rekstrarformi. Liggja þarf fyrir að tilgangur starfsemi lögaðilans sé að reka grunnskóla í samræmi við grunnskólalög, auk þess sem að liggja þarf fyrir í hverju starfsemi á að felast ef um er að ræða að starfsemin geti falið í sér rekstur annarra viðkenndra menntastofnana.

     2.      Hver er réttur sjálfstætt rekinna grunnskóla, sem gert hafa þjónustusamning skv. 43. gr. a laga um grunnskóla, nr. 91/2008, til framlaga vegna nemenda sem eiga lögheimili í öðrum sveitarfélögum en skólinn starfar í?
    Í þeim tilvikum þegar barn sækir sjálfstætt rekinn grunnskóla utan lögheimilissveitarfélags, skulu lögheimilissveitarfélag og viðtökusveitarfélag gera með sér samning á grundvelli 5. gr. grunnskólalaga áður en barn er innritað í viðkomandi skóla, sbr. 2. mgr. 7. gr. reglugerðar um sjálfstætt rekna grunnskóla nr. 1150/2018. Viðtökusveitarfélag hefur þá sömu skyldur gagnvart skólavist barnsins og ætti það lögheimili þar. Um framlag úr sveitarsjóði í slíkum tilvikum fer með sama hætti og vegna annarra barna sem sækja skóla sem reknir eru af sveitarfélögum utan lögheimilissveitarfélags.

     3.      Hvernig hagar Hagstofa Íslands útreikningi á vegnu meðaltali heildarrekstrarkostnaðar allra grunnskóla í landinu sem reknir eru af sveitarfélögum á hvern nemanda skv. 43. gr. b laga um grunnskóla og 3. gr. reglugerðar um ákvörðun framlaga úr sveitarsjóði til sjálfstætt rekinna grunnskóla?
    Rétt er að draga fram að árið 2016 var gerð breyting á lögum um grunnskóla með það að markmiði að tryggja réttindi nemenda og foreldra og bæta stöðu þeirra sem ábyrgð bera á rekstri sjálfstætt rekinna skóla. Meðal annars var gerð sú breyting að Hagstofunni var gert að uppreikna þennan kostnað hvern mánuð. Einnig hefur verið gerð breyting á samsvarandi reglugerð sem sett hafði verið til bráðabirgða árið 2016. Í gildandi reglugerð um sjálfstætt rekna grunnskóla nr. 1150/2018 er fjallað um framlag úr sveitarsjóði til sjálfstætt rekinna grunnskóla í 7. og 8. gr.
    Í 43. gr. b grunnskólalaga kemur fram eins og að framan greinir að sjálfstætt rekinn grunnskóli sem gert hefur þjónustusamning á grundvelli laganna á rétt á framlagi úr sveitarsjóði til starfsemi sinnar vegna nemenda sem hafa lögheimili í því sveitarfélagi sem skólinn starfar í. Skal framlagið nema að lágmarki 75% af vegnu meðaltali heildarrekstrarkostnaðar allra grunnskóla sem reknir eru af sveitarfélögum í landinu á hvern nemanda samkvæmt útreikningi Hagstofu Íslands. Gildir þetta hlutfall fyrir skóla með allt að 200 nemendur, en framlagið skal vera að lágmarki 70% fyrir hvern nemanda umfram þann fjölda. Útreikningur Hagstofu Íslands skal liggja fyrir fimmta dag hvers mánaðar og byggjast á næsta mánuði á undan og taka mið af verðlagsbreytingum. Sveitarfélög greiða framlög reglulega eftir því sem segir í þjónustusamningi. Greiðslurnar taka breytingum til hækkunar eða lækkunar eftir útreikningum Hagstofunnar.
    Nánari útfærslu má finna í 7. og 8. gr. reglugerðar nr. 1150/2018 þar sem segir m.a. að útreikningur Hagstofu Íslands vegna komandi skólaárs skuli liggja fyrir í september ár hvert. Skal útreikningurinn byggður á ársreikningum sveitarfélaga fyrir liðið ár, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga til þess dags sem útreikningur er gerður. Verðlagsbreytingar skulu taka mið af almennum launahækkunum starfsmanna grunnskóla og breytingum á vísitölu neysluverðs að teknu tilliti til vægis hvors þáttar fyrir sig í rekstrarkostnaði grunnskólanna.
    Þá segir enn fremur að Hagstofa Íslands tekur saman 90 dögum eftir að viðmiðunarmánuði lýkur og birtir fimmta dag hvers mánaðar, á tímabilinu frá október og fram til ágúst, framreiknað framlag skv. 1. mgr. Við framreikning þess skal tekið tillit til verðlagsbreytinga sem orðið hafa frá ákvörðun framlags skv. 1. mgr., þ.e. almennra launahækkana starfsmanna grunnskóla og breytinga á vísitölu neysluverðs, miðað við vægi hvors þáttar í rekstrarkostnaði grunnskóla. Sveitarfélögum ber að greiða framlög reglulega eftir því sem segir í þjónustusamningi. Greiðslurnar taka breytingum til hækkunar eða lækkunar eftir útreikningum Hagstofu Íslands. Í þjónustusamningi sem sveitarfélag gerir við rekstraraðila sjálfstætt rekins grunnskóla er heimilt að semja sérstaklega um verðlagsbætur umfram útreikning Hagstofunnar skv. 3. mgr., svo sem um að sveitarfélag reikni breytingar á framlagi úr sveitarsjóði mánaðarlega á grundvelli launataflna í kjarasamningi grunnskólakennara.

     4.      Leggur Hagstofa Íslands ársreikninga sveitarfélaga til grundvallar við útreikning eða byggist útreikningurinn á öðrum gögnum? Ef svo er, hvaða gögnum og hvernig eru þau lögð til grundvallar við útreikninginn?
    Til upplýsinga, þá hefur ráðuneytið verið með til skoðunar útreikninga Hagstofunnar að beiðni Samtaka sjálfstætt rekinna skóla og hafði af því tilefni aflað upplýsinga frá Hagstofu Íslands. Samkvæmt Hagstofunni byggir útreikningur stofnunarinnar á ársreikningum sveitarfélaga fyrir liðið ár, að teknu tilliti til verðlagsbreytinga til þess dags sem útreikningur er gerður. Neðangreint er óformleg lýsing á útreikningnum, sjá nánar í fylgiskjali með svari þessu:
          Grunngögn sem notuð eru sem árstala fyrir hvert ár og til að vega útgjöld sem eru uppfærð í september á hverju ári og er þá samtala fyrir laun og rekstrarkostnað. ársins þar á undan. Fjárhæðin er framreiknuð með verðvísitölum næstu 12 mánuði.
          Grunngögn (árstölur) eru fengin úr Upplýsingaveitu sveitarfélaga. Fjárhæðir eru samtölur í bókhaldi sveitarfélaga sem er að finna í upplýsingaveitunni. Bókhaldið er flokkað eftir lyklum og deildum.
                  a.      Heildarlaun eru skráð eftir lykli: 1 Laun og launatengd gjöld, og deild: 04 Fræðslu og uppeldismál/2 Grunnskólar/21 Grunnskólar.
                  b.      Annar rekstrarkostnaður er skráður eftir lyklum: 3 Annar rekstur og 4 Styrkir og annað, og eftir deildum: 04 Fræðslu og uppeldismál/2 Grunnskólar/21 Grunnskólar. Framlög til einka- og sérskóla, upplýsingar um þá skóla einnig sóttar í þessar sömu deildir, eru dregin frá heildartölu um rekstrarkostnað.
                  c.      Upplýsingar um fjölda nemenda í grunnskólum landsins eru fengnar á vef Hagstofunnar.
          Rekstrarform grunnskóla og fjöldi nemenda, sjá upplýsingar á vef Hagstofunnar:
px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Samfelag/Samfelag__skolamal__2_grunnskolastig__2_gsSkolahald/S KO02202.px/?rxid=dbc59f00-08a4-457c-a8a9-52fb28a6e249
          Fjöldi nemenda í einka- og sérskólum, einnig samkvæmt ofangreindri vefslóð, er dreginn frá.
          Meðalrekstrarkostnaður á hvern grunnskólanema fyrir hvert ár er reiknaður út með því að leggja saman a) heildarlaun og b) annan rekstrarkostnað og deila þeirri fjárhæð niður á c) fjölda nemenda
          Meðalrekstrarkostnaður er síðan framreiknaður með tveimur verðvísitölum, annars vegar e) fyrir laun og f) fyrir rekstrarkostnað.
                  a.      Vísitalan fyrir e) laun er fengin hjá launa, tekju og menntadeild Hagstofu Íslands. Framreiknuð stærð á a) heildarlaunum er margfölduð með nýjustu vísitölu hvers mánaðar og deilt með meðalvísitölu þess árs sem a) heildarlaun miðast við. Vísitalan byggir á gögnum frá Reykjavíkurborg og öðrum sveitarfélögum í úrtaki launarannsóknar Hagstofunnar. Þýðið eru öll sveitarfélag í landinu með 10 starfsmenn eða fleiri. Vegna þess að um úrtaksrannsókn er að ræða eru vogir notaðar við alla útreikninga. Ný vísitala er reiknuð út í hverjum mánuði. Vinnsla fyrir hvern mánuð er þremur mánuðum eftir á þ.e. vísitalan sem t.d. er gefin út í febrúar er í raun vinnsla fyrir október árið á undan (samkvæmt reglugerð).
                  b.      Vísitala fyrir f) rekstrarkostnað er reiknuð á sama hátt og e) en þá er notuð vísitala neysluverðs sem gefin er út og birt mánaðarlega á vef Hagstofunnar.

     5.      Hvaða vægi höfðu almennar launahækkanir starfsmanna grunnskóla og breytingar á vísitölu neysluverðs við mánaðarlega birtingu framreiknaðs framlags skv. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1270/2016 frá því í október 2019 fram í ágúst 2020? Svarið óskast sundurliðað eftir mánuðum.
    Áréttað er að um útreikninginn fer samkvæmt reglugerð um sjálfstætt rekna grunnskóla, nr. 1150/2018. Reglugerð sem vísað er til í þessum tölulið er fallin úr gildi.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     6.      Hvernig háttaði Hagstofa Íslands útreikningi sem liggja skyldi fyrir í september 2020, sbr. 2. mgr. 3. gr. reglugerðar um ákvörðun framlaga úr sveitarsjóði til sjálfstætt rekinna grunnskóla, nr. 1270/2016?
    Áréttað er að um útreikninginn fer samkvæmt reglugerð nr. 1150/2018. Reglugerð sem vísað er til í þessum tölulið er fallin úr gildi.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Fylgiskjal.

    
    Dæmi um útreikning á meðalrekstrarkostnaði á hvern grunnskólanema fyrir febrúar 2020:
    
    Í september 2019 eru sóttar upplýsingar í Upplýsingaveitu sveitarfélaga um útgjöld vegna launa og rekstrarkostnað sveitarfélaga fyrir árið 2018. Allar tölur í þús.
    Samtala fyrir laun:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Ofangreind útgjöld er samtala 59 sveitarfélaga sem vega 98,42% af íbúafjölda allra sveitarfélaga, heildartalan þar með:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Samtala rekstrarkostnaðar samkvæmt ársreikningum er sótt í UV:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Ofangreind útgjöld eru samtala 60 sveitarfélaga sem vega 98,52% af heild. Samkvæmt UV hafa framlög sveitarfélaga til einkaskóla numið rúmum 1,1 milljarði sem dregin er frá heildartölu:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Árstalan árið 2018 er þar með samtals:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Fjöldi nemenda í grunnskólum sveitarfélaga sem notuð er sem deilistærð, er 44.774, samkvæmt:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Við útreikning á meðalrekstrarkostnaði fyrir hvern grunnskólanema í febrúar árið 2020 eru árstölur framreiknaðar samkvæmt:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.