Ferill 688. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1158  —  688. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997 (sjóðir um sameiginlega fjárfestingu).

Flm.: Jón Steindór Valdimarsson, Hanna Katrín Friðriksson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


1. gr.

    Við 36. gr. c laganna bætist ný málsgrein svohljóðandi:
    Þrátt fyrir 7. mgr. er lífeyrissjóði heimilt að eiga allt að 35% af hlutdeildarskírteinum eða hlutum í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu eða einstakri deild þeirra. Heimildin nær til sjóða um sameiginlega fjárfestingu sem eingöngu fjárfesta í litlum eða meðalstórum fyrirtækjum skv. 1. og 2. tölul. 3. gr. laga nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Lífeyrissjóði er skylt að hafa ákvæði í fjárfestingarstefnu sinni, sbr. 1. mgr. 36. gr., um hve hátt hlutfall af heildareignum hans megi vera í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu.

2. gr.


    Ákvæði til bráðabirgða XXI í lögunum fellur brott.

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Með 4. gr. laga nr. 37/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, var bætt nýju ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Í því var kveðið á um tímabundna heimild lífeyrissjóða til að eiga allt að 35%, í stað 20%, af hlutdeildarskírteinum eða hlutum í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu eða einstakri deild þeirra, þó aldrei umfram 1% heildareigna sinna í hverjum sjóði um sameiginlega fjárfestingu samkvæmt málsgreininni. Heimildin nær til sjóða um sameiginlega fjárfestingu sem eingöngu fjárfesta í litlum eða meðalstórum fyrirtækjum skv. 1. og 2. tölul. 3. gr. laga nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Innlausnir í sjóðunum skulu fyrst fara fram að fimm árum liðnum frá því að þeir hófu fjárfestingar. Heimildin gildir til 1. janúar 2025.
    Bráðabirgðaákvæðið var einn liður í því að bæta fjárfestingarumhverfi nýsköpunar hér á landi, t.d. með því að auðvelda stofnun nýsköpunarsjóða. Með breytingunni geta þrír lífeyrissjóðir haft aðkomu að sjóði, í stað fimm áður. Breytingin auðveldar því fjármögnun slíkra sjóða og styður við önnur markmið um að bæta fjárfestingaumhverfi nýsköpunar hér á landi. Má í því sambandi nefna Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóð sem var settur á fót með lögum nr. 65 frá 20. júní 2020 og er nýtekinn til starfa. Kríu er ætlað að fjárfesta í vísisjóðum á borð við þá sem lífeyrissjóðunum er samkvæmt frumvarpinu veitt rýmri heimild til að fjárfesta í.
    Með frumvarpinu er lagt til að heimildin sem kveðið er á um í bráðabirgðaákvæðinu verði gerð varanleg, þó með breytingum. Þannig verði lífeyrissjóði heimilt að eiga allt að 35% í stað 20% af hlutdeildarskírteinum eða hlutum í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu eða einstakri deild þeirra. Heimildin nær til sjóða um sameiginlega fjárfestingu sem eingöngu fjárfesta í litlum eða meðalstórum fyrirtækjum skv. 1. og 2. tölul. 3. gr. laga nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Þær breytingar verði frá bráðabirgðaákvæðinu að bann við því að fjárfesting fari umfram 1% af heildareignum lífeyrissjóðs falli niður en við bætist að lífeyrissjóðir taki upp ákvæði um það í fjárfestingarstefnu hve hátt hlutfall af eignum þeirra megi vera í slíkum sjóðum. Þá falli einnig niður ákvæði um að innlausn megi fyrst fara fram að liðnum fimm árum.
    Sprota- og nýsköpunarfyrirtæki fást við verkefni sem eru þess eðlis að þau taka oftar en ekki langan tíma og þau skila sjaldnast tekjum sem rísa undir kostnaði við reksturinn lengi framan af. Af þessum sökum hafa verið sett upp margvísleg stuðnings- og styrkjakerfi. Það gildir hér á landi jafnt og í helstu samkeppnislöndum okkar. Má þar einkum nefna Tækniþróunarsjóð og Rannsóknasjóð. Svokallaðir vísisjóðir (e. venture capital funds) eru eitt form fjárfestingarsjóða sem fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Þeir sérhæfa sig gjarnan á mismunandi stigum í þróun fyrirtækja en einnig eftir einstökum geirum. Vísisjóðir eru frábrugðnir öðrum hefðbundum fjárfestingarsjóðum að því leyti að stjórnendur sjóðanna hafa sprotafjárfestingar að meginstarfi, eru sjálfir hluthafar í sjóðunum og hafa mun meiri aðkomu að rekstri og stefnumótun þeirra sprotafyrirtækja sem þeir fjárfesta í en almennt gengur og gerist.
    Mikilvægt er að skapa þannig umgjörð um sprota- og nýsköpunarfyrirtæki, sem byggjast jafnan á vísindum, tækni og hugviti, að möguleikum þeirra til vaxtar séu ekki settar skorður vegna skorts á fjármagni. Verði það raunin er hætt við að beinum stuðningi á fyrri stigum sé kastað á glæ. Af þessum sökum er mikilvægt að sem flestir vísisjóðir nái að spretta upp á næstu árum og áratugum. Það blasir við að hér geta lífeyrissjóðir landsmanna haft veigamiklu hlutverki að gegna og hafa þegar gert.
    Umrætt bráðabirgðaákvæði gildir til 1. janúar 2025. Eftir það fellur heimild lífeyrissjóðanna í fyrra horf og ekki dugar lengur að þrír lífeyrissjóðir komi að sjóði. Þeir þurfa þá að nýju að vera að minnsta kosti fimm. Þar með hverfa þeir kostir sem bráðabirgðaákvæðið hefur, þ.e. að styðja við bætt fjárfestingaumhverfi nýsköpunar hér á landi. Þess vegna er mikilvægt að gera heimilt til frambúðar að lífeyrissjóður eigi allt að 35% af hlutdeildarskírteinum eða hlutum í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu eða einstakri deild þeirra í stað 20%.
    Það tekur markað fyrir sérhæfða sjóði nokkurn tíma að laga sig að breyttu regluverki og undirbúningur að stofnun slíkra sjóða tekur nokkurn tíma. Varanleg heimild eykur jákvæð áhrif og stuðlar að fjölbreyttri flóru nýrra sjóða. Rekstraraðilar sem hyggjast stofna slíka sjóði þurfa að sjá fram á að geta nýtt tækifæri til lengri tíma. Oft er horft til þess að stofna fleiri samkynja sjóði af sama rekstraraðila þegar verkefni sem fyrsti sjóðurinn hefur fjárfest í eru komin á það stig að það fari að styttast í sölu á eignum og útgreiðslu til fjárfesta. Slíkt fyrirkomulag er mikilvægt til að unnt sé að stuðla að hagkvæmari rekstri.
    Starfandi lífeyrissjóðir er nú 21 talsins, ólíkir að uppbyggingu og stærð. Þá er fjárfestingarstefna þeirra sömuleiðis ólík. Þegar haft er í huga að sjóðir um sameiginlega fjárfestingu þurfa að ná tiltekinni lágmarsstærð til að teljast hagkvæm rekstrareining er ljóst að 1% þak getur verið mjög hamlandi. Æskileg stærð slíkra sjóða er í það minnsta 5−8 milljarðar kr. Af þessum sökum er rétt að fella þakið niður en mæla þess í stað fyrir um að lífeyrissjóðir skuli kveða á um það í fjárfestingarstefnu hve hátt hlutfall af eignum lífeyrissjóðs megi vera í slíkum sjóðum.
    Takmarkanir á innlausn eru að mati flutningsmanna óþarfar og hafa ekki sýnilegan efnislegan tilgang. Vísisjóðir hafa oftar en ekki mjög takmarkaða getu til að bjóða fjárfestum upp á innlausn enda tekur það að jafnaði um 10 ár að byggja upp fyrirtæki á grunni nýsköpunar. Þeir hafa skilgreindan líftíma sem ætlaður er til að veita fjárfestum ákveðna vissu fyrir því að leitast verði við að selja eignir og skila fjármagninu til baka innan tiltekinna tímamarka. Hlutdeild í slíkum sjóðum er almennt framseljanleg og eftirmarkaðir eru til staðar. Sérstakar hömlur á innlausn eru til þess fallnar að takmarka þann árangur sem stefnt er að. Slíkar takmarkanir styðja ekki við skilvirka eignastýringu lífeyrissjóða, sem eru langtímafjárfestar.
    Landssamtök lífeyrissjóða gerðu í umsögn sinni, frá 29. apríl 2020, um frumvarpið sem varð að lögum nr. 37/2020, veigamiklar athugasemdir við bráðabirgðaákvæðið sem bætt var við lög nr. 129/1997, um skyldutrygginu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Frumvarp þetta tekur að hluta til mið af þeim athugasemdum.