Ferill 638. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1356  —  638. mál.




Svar


félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Guðmundi Inga Kristinssyni um lífeyrisgreiðslur almannatrygginga.


     1.      Hver yrði kostnaður ríkissjóðs ef hætt yrði að skerða greiðslur vegna:
                  a.      eigin tekna lífeyrisþega í almannatryggingakerfinu,
                  b.      eigin atvinnutekna lífeyrisþega í almannatryggingakerfinu,
                  c.      eigin lífeyrissjóðstekna lífeyrisþega í almannatryggingakerfinu,
                  d.      eigin fjármagnstekna lífeyrisþega í almannatryggingakerfinu,
                  e.      annarra eigin tekna lífeyrisþega í almannatryggingakerfinu?

    Leitað var til Tryggingastofnunar ríkisins hvað varðar útreikninga á kostnaði ríkissjóðs við vinnslu svars við fyrirspurn þessari. Rétt er að taka fram að þar sem spurt er um lífeyrisþega í almannatryggingakerfinu miða upplýsingarnar og útreikningur kostnaðar eingöngu að þeim sem eru nú lífeyrisþegar í almannatryggingakerfinu. Félagsmálaráðuneytið hefur ekki aðgang að upplýsingum um tekjur annarra en þeirra sem eru lífeyrisþegar hjá Tryggingastofnun. Þannig gefa þessar niðurstöður alls ekki raunhæfa mynd af kostnaði ríkissjóðs sem myndi hljótast af því að hætt yrði að skerða greiðslur almannatrygginga vegna tekna. Þeir sem hafa háar tekjur sækja yfirleitt ekki um ellilífeyri almannatrygginga þar sem fyrir liggur að tekjur þeirra eru svo háar að ekki muni koma til greiðslna úr almannatryggingum. Í þessu sambandi er rétt að minna á að í skýrslu sem unnin var í lok árs 2019 í samvinnu við Capacent vegna þingsályktunar um áhrif þess að afnema tekjutengingar vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega var áætlað að heildarkostnaður vegna afnáms tekjutenginga almannatrygginga gæti numið um 4 milljörðum kr. en um 2 milljörðum kr. þegar tekið hefði verið tillit til hærri skatttekna ríkissjóðs.
    Í eftirfarandi töflu má finna upplýsingar um kostnað ríkissjóðs ef ekki væri tekið mið af þeim tekjum sem tilgreindar eru í a–e-lið. Upplýsingarnar eru settar fram með þeim fyrirvara að þær miðast eingöngu við þá sem eru nú lífeyrisþegar í almannatryggingakerfinu. Við útreikningana var lagður til grundvallar bótaréttur og tekjuáætlun viðkomandi hópa fyrir janúar 2021, margfaldað með 12, og jafnframt gert ráð fyrir desember- og orlofsuppbótum.

Flokkur a ) b ) c ) d ) e )
Ellilífeyrisþegar 49,5 1,0 45,5 4,2 0,1
Örorkulífeyrisþegar 16,6 4,5 10,4 0,5 0,2
Endurhæfingarlífeyrisþegar 1,3 0,4 0,8 0,0 0,0
Allir lífeyrisþegar 67,5 5,9 56,7 4,7 0,3
Tafla 1: Kostnaður ríkissjóðs ef ekki væri tekið mið af þeim tekjum sem tilgreindar eru í a–e-lið.

     2.      Hver yrði kostnaður ríkissjóðs ef frítekjumark væri annars vegar 2.000.000 kr. á ári og hins vegar 3.000.000 kr. á ári við útreikning á tekjutryggingu, ellilífeyri, heimilisuppbót og framfærsluuppbót?
    Eftirfarandi eru upplýsingar um áætlaðan kostnað af því að hækka frítekjumark hjá mismunandi hópum lífeyrisþega. Allar fjárhæðir eru í milljörðum króna og miðast við 12 mánuði og eru birtar með sama fyrirvara og fram kemur í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar.
    
Flokkur
a) b)
Ellilífeyrisþegar 24,4 33,0
Örorkulífeyrisþegar 9,7 12,0
Endurhæfingarlífeyrisþegar 0,8 1,0
Allir lífeyrisþegar 34,9 46,0
    Tafla 2: Áætlaður kostnaður af því að hækka frítekjumark hjá mismunandi hópum lífeyrisþega.

     3.      Hver yrði kostnaður ríkissjóðs ef framfærsluuppbót yrði færð inn í tekjutryggingu?
    Þar sem ekki var ljóst við hvað var átt í þessum lið var, að höfðu samráði við fyrirspyrjanda, ákveðið að tilgreina hver yrði væntanlegur árlegur kostnaður ríkissjóðs við að hækka annars vegar grunnlífeyri og hins vegar tekjutryggingu örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega um 60.000 kr. á mánuði. Allar fjárhæðir eru í milljörðum króna og miðast við 12 mánuði og eru birtar með sama fyrirvara og fram koma í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar.
    
Flokkur

Grunnlífeyrir Tekjutrygging
Örorkulífeyrisþegar 8,2 7,7
Endurhæfingarlífeyrisþegar 0,9 0,9
Samtals 9,1 8,6
    Tafla 3: Áætlaður árlegur kostnaður ríkissjóðs við að hækka annars vegar grunnlífeyri og hins vegar tekjutryggingu örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega um 60.000 kr. á mánuði.