Ferill 683. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 1369  —  683. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um lagalega ráðgjöf.


     1.      Hvaða viðmið eru viðhöfð þegar ráðuneytið leitar eftir ráðgjöf til stofnana eða starfsmanna, þ.m.t. félaga í eigu starfsmanna, lagadeilda Háskólans á Akureyri (HA), Háskóla Íslands (HÍ), Háskólans í Reykjavík (HR) og Háskólans á Bifröst (Bifröst) sem gegna stöðu nýdoktora, háskólakennara, lektora, dósenta eða prófessora í fullu starfi og hlutastarfi, þ.m.t. starfsmenn í gesta- og rannsóknarstöðum?
    Leitað er eftir utanaðkomandi sérþekkingu þegar nauðsyn ber til. Ávallt ber að gæta jafnræðis, hlutlægni, hagkvæmni og samkeppnissjónarmiða þegar leitað er utanaðkomandi sérfræðiráðgjafar, í samræmi við meginreglur sem fram koma í lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015, og lögum um opinber innkaup, nr. 120/2016. Um samninga sem gerðir eru til lengri tíma en eins árs, skv. heimild í 40. gr. laga um opinber fjármál, gildir að auki reglugerð um undirbúning, gerð og eftirfylgni samninga um framkvæmdir, rekstur og afmörkuð verkefni, nr. 643/2018.
    Ríkisendurskoðun kom á framfæri ábendingum til forsætisráðuneytisins hinn 22. júní 2009 um endurskoðun vinnubragða Stjórnarráðsins við gerð samninga við utanaðkomandi sérfræðinga. Þar voru m.a. settar fram leiðbeiningar sem stuðst er við þegar þörf á utanaðkomandi ráðgjöf er metin. Með leiðbeiningunum var gátlisti sem byggist á eftirfarandi meginatriðum:
     a.      Ganga úr skugga um hvort nauðsynlega þekkingu sé að finna hjá ríkinu.
     b.      Útbúa stutta en greinargóða verk- og markmiðalýsingu.
     c.      Leggja mat á hugsanlegt umfang verkefnisins og kostnað við það.
     d.      Meta hvort kaupin eru útboðsskyld.
     e.      Rökstyðja val á ráðgjafa.
     f.      Gera skriflegan samning við ráðgjafann um þjónustuna og þóknun fyrir hana.
     g.      Fylgjast reglulega með vinnu ráðgjafans og hvort verkið er innan umsaminna tímamarka og fjárhagsáætlunar.
     h.      Meta hvernig vinna ráðgjafans nýtist og hvort hún hafi skilað þeim árangri sem vænst var.
    Þegar heilbrigðisráðuneytið leitar eftir ráðgjöf utanaðkomandi sérfræðinga um lagalega ráðgjöf er almennt litið til framangreindra viðmiða. Í þeim tilvikum getur ýmist verið um að ræða að tiltekin verkefni kalli tímabundið á meiri mannafla en ráðuneytið hefur yfir að ráða eða að verkefni kalli á sérfræðiþekkingu sem ekki er fyrir hendi innan ráðuneytisins.

     2.      Vegna hvers konar verkefna er leitað lagalegrar ráðgjafar hjá starfsmönnum og stofnunum lagadeilda háskólanna og hversu oft vegna hverrar tegundar verkefna?
    Til greina kæmi að leita utanaðkomandi ráðgjafar á sviði lögfræði vegna lagalegra úrlausnarefna á borð við undirbúning lagafrumvarpa og stjórnvaldsfyrirmæla. Verkefni sem kalla á utanaðkomandi lögfræðiráðgjöf geta verið af ýmsum toga og eru ekki flokkuð eftir undirtegundum í skjala- og bókhaldskerfum ráðuneytisins.

     3.      Hversu mörg ráðgjafarverkefni, sem 1. tölul. lýtur að, hafa verið innt af hendi frá árinu 2018 og hversu mikið hefur verið greitt samtals fyrir ráðgjöfina á umræddu tímabili?
    Greiðslur til prófessora sem hættir eru störfum og til rannsóknarprófessora sem ekki starfa við skólann falla ekki undir fyrirspurnina þar sem starfssambandi við háskóla er ekki fyrir að fara. Heilbrigðisráðuneytið hefur ekki gert neina samninga um ráðgjafaverkefni sem 1. tölul. lýtur að frá árinu 2018.

     4.      Hversu mikið hefur verið greitt fyrir verkefni sem vikið er að í 1. tölul. frá ársbyrjun 2018 og hversu mörg hafa verið innt af hendi af annars vegar starfsmönnum og hins vegar stofnunum:
                  a.      lagadeildar HA,
                  b.      lagadeildar HÍ,
                  c.      lagadeildar HR,
                  d.      lagadeildar Bifrastar?

    Eins og leiðir af svari við 3. tölul. hefur heilbrigðisráðuneytið ekki innt neinar greiðslur af hendi fyrir verkefni sem vikið er að í 1. tölul.

     5.      Hvaða bókaútgáfu á sviði lögfræði hefur ráðuneytið styrkt frá árinu 2018 og hversu hár hefur styrkurinn verið fyrir hverja og eina útgáfu? Hvaða viðmið eru lögð til grundvallar við slíkar styrkveitingar?
    Bókaútgáfa á sviði lögfræði hefur ekki fengið styrk frá heilbrigðisráðuneytinu á tímabilinu.