Ferill 575. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 814  —  575. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030.


Frá heilbrigðisráðherra.



    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að fylgja stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 sem byggist á eftirfarandi áhersluþáttum:
     1.      Geðrækt, forvarnir og snemmbær úrræði verði grundvöllur geðheilbrigðis einstaklinga.
              Áherslur til ársins 2030 verði eftirfarandi:
                  a.      Innleiðingu verði lokið á þeim grundvallarþáttum aðgerðaáætlunar um geðræktarstarf, forvarnir og stuðning við börn og ungmenni í leik-, grunn- og framhaldsskólum sem flokkast undir heilbrigðisþjónustu.
                  b.      Innleiðingu þeirra grundvallarþátta í aðgerðaráætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi frá 2018 sem lúta að heilbrigðisþjónustu verði lokið.
                  c.      Allir landsmenn hafi aðgang að hagnýtum, gagnreyndum og auðskildum upplýsingum um geðrækt, forvarnir og geðheilbrigðisþjónustu.
     2.      Heildræn geðheilbrigðisþjónusta verði samþætt og byggist á bestu mögulegu gagnreyndu meðferð, hæfingu og endurhæfingu. Þjónustan verði veitt af hæfu starfsfólki á viðeigandi þjónustustigum í árangursríku samstarfi við þjónustuveitendur í velferðarþjónustu.
              Áherslur til ársins 2030 verði eftirfarandi:
                  a.      Þverfagleg mönnun í geðheilbrigðisþjónustu verði í samræmi við þjónustuþörf á hverju þjónustustigi með tilliti til viðfangsefna, hæfniviðmiða, handleiðslu og símenntunar.
                  b.      Stöðum í sérnámi og framhaldsnámi í geðheilbrigðisþjónustu fjölgi í samræmi við þjónustuþörf. Námið mæti kröfum um samþættingu, samvinnu og hæfni.
                  c.      Samhæfing og samvinna einkenni samskipti heilbrigðis-, félags- og barnaþjónustu. Samhæfing og samvinna einkenni samskipti mismunandi þjónustustiga heilbrigðisþjónustu og á milli heilbrigðisstofnana.
                  d.      Þverfagleg teymisvinna einkenni vinnubrögð heilbrigðisstarfsfólks til að tryggja betra aðgengi, gæði, skilvirkni og samfellu í geðheilbrigðisþjónustu fyrir alla án aðgreiningar.
     3.      Notendasamráð og notendamiðuð þjónusta verði á öllum stigum geðheilbrigðisþjónustu.
              Áherslur til ársins 2030 verði eftirfarandi:
                  a.      Stöðugri þróun og umbótum í málaflokknum verði mætt með Geðráði, breiðum samráðsvettvangi um geðheilbrigðismál, sem hafi bæði ráðgefandi og stefnumótandi hlutverk.
                  b.      Batamiðuð nálgun og valdefling verði lykilþættir í allir nálgun í geðheilbrigðisþjónustu.
                  c.      Geðheilbrigðisþjónustan verði í auknum mæli veitt í nærumhverfi notanda eða á viðeigandi heilbrigðisstofnun sem starfrækt verði í bataeflandi húsnæði sem standist nútímakröfur sem gerðar eru til geðheilbrigðisþjónustu.
     4.      Nýsköpun, vísindi og þróun leiði til betri geðheilbrigðisþjónustu og bætts aðgengis.
              Áherslur til ársins 2030 verði eftirfarandi:
                  a.      Almenningur hafi greitt aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu óháð búsetu, geti valið um þjónustuleið og nýtt fjarheilbrigðisþjónustu eða aðrar tæknilausnir eftir þörfum.
                  b.      Rannsóknir og nýsköpun í þverfaglegri geðheilbrigðisþjónustu verði í ríkum mæli hluti af starfi heilbrigðisstofnana og í virku samstarfi við háskólasamfélagið.

Aðgerðir í framkvæmd.
    Til að hrinda stefnu um geðheilbrigðismál til ársins 2030 í framkvæmd verði gerðar áætlanir um aðgerðir til fimm ára í senn í samráði við helstu hagsmunaaðila. Slíkar áætlanir verði uppfærðar árlega.
    Mat á fjárhagslegum áhrifum þingsályktunarinnar fari fram þegar aðgerðaáætlanir fara í mótun og málsmeðferð.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Stefnur og aðgerðaáætlanir í heilbrigðismálum hafa frá árinu 2019 tekið mið af þingsályktun Alþingis um heilbrigðisstefnu til 2030 (þskj. 835, 509. mál á 149. löggjafarþingi) og lýðheilsustefnu til ársins 2030 (þskj. 1108, 645. mál á 151. löggjafarþingi). Við mótun stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 var engin undantekning gerð á því og leggur stefnan þar af leiðandi bæði áherslu á grunngildi sem hvetja til einstaklingsmiðaðrar heilbrigðisþjónustu á félagslegum grunni og stuðning við heilsueflingu á öllum æviskeiðum.
    Með samþykkt heilbrigðisstefnu til 2030 er nú kominn leiðarvísir að uppbyggingu á heildstæðu, öflugu og enn betra heilbrigðiskerfi á Íslandi til framtíðar fyrir alla. Lögð er áhersla á að íslensk heilbrigðisþjónusta verði á heimsmælikvarða og lýðheilsustarf með áherslu á heilsueflingu og forvarnir verði hluti af allri þjónustu með áherslu á heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað fólks í heilbrigðisþjónustu. Öll heilbrigðisþjónusta skuli vera örugg, árangursrík og aðgengileg.
    Helstu straumar og stefnur í geðheilbrigðismálum á heimsvísu sýna að það eru sameiginlegir hagsmunir þjóða að auka áherslu á lýðheilsu, forvarnir og geðheilbrigðisþjónustu. Þetta er í takt við áhersluatriði í fyrrgreindum stjórnarsáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Þrátt fyrir töluverðar framfarir í geðheilbrigðismálum á undanförnum árum eru vísbendingar um að Íslendingar standi frammi fyrir frekari áskorunum og hindrunum sem ryðja þurfi úr vegi til að ná árangursríkum framförum til framtíðar. Samantekt niðurstaðna Geðheilbrigðisþings 2020 ásamt fyrri þverfaglegum greiningum og skýrslum um málaflokkinn sýna að það skortir heildstæða og samhæfða nálgun í geðheilbrigðismálum allt frá geðrækt, forvörnum og snemmbærum úrræðum til geðheilbrigðisþjónustu á öllum stigum og á milli velferðarþjónustukerfa og við dómskerfi. Þjónusta milli heilbrigðisþjónustustiga er að einhverju leyti brotakennd og ósamhæfð, samþætting við félagsþjónustu, skólaþjónustu eða aðra opinbera þjónustu er takmörkuð og skortur er á þverfaglegum mannauði í geðheilbrigðisþjónustu á öllum stigum sem áríðandi er að ráða bót á. Brýnt er að finna lausnir á ofangreindum áskorunum til umbóta fyrir fólkið í landinu. Framsetning tillögu til þingsályktunar um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 tekur þannig mið af því og er sett fram með hliðsjón af fjórum kjarnaþáttum og áherslum sem munu endurspeglast í þeim aðgerðum sem heilbrigðisráðuneytið mun móta.
     Áherslur til framtíðar í geðheilbrigðismálum þurfa að vera á jafnt og greitt aðgengi að einfaldri, skilvirkri og notendamiðaðri geðheilbrigðisþjónustu sem byggist á bestu mögulegu gagnreyndu meðferð og endurhæfingu hverju sinni, gæðaviðmiðum og nýsköpun og er veitt af hæfu starfsfólki.

2. Samráð.
    Þingsályktunartillaga þessi er samin í heilbrigðisráðuneytinu. Drögin voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is 8. mars 2022 (mál nr. S-58/2022) og var samráðsfrestur veittur til 22. mars 2022. Alls bárust 27 umsagnir frá hagsmunaaðilum og þakkar ráðuneytið þær ábendingar sem fram komu:
    Í öllum umsögnunum var því fagnað að verið væri að kynna nýja stefnu í geðheilbrigðismálum til 2030 og efnislega voru flestir sammála grundvallaráherslum stefnunnar. Heilbrigðisráðuneytið fagnar því að í öllum umsögnum kom fram skýr vilji til að halda áfram í uppbyggingu geðheilbrigðisþjónustu á landinu og vilji til að leggja sitt af mörkum til að ná því markmiði, m.a. í vinnu við aðgerðaráætlanir tengdar stefnunni.
    Í mörgum umsagnanna var tekið undir mikilvægi þverfaglegrar nálgunar þar sem allar stéttir sem starfa í geðheilbrigðisþjónustu og notendur með persónulega reynslu af geðheilbrigðisþjónustu komi saman til þess að leggja sitt af mörkum til að gera þjónustuna sem árangursríkasta. Í stefnunni er skýr áhersla á virðingu fyrir mannréttindum notenda og sjálfsákvörðunarrétti þeirra í allri þjónustu. Þess tónn endurspeglast vel í flestum umsagnanna.
    Eins og kemur fram í stefnunni er ein helsta áskorunin í geðheilbrigðisþjónustu mönnun, menntun og nýliðun í þeim fagstéttum sem að þeirri þjónustu koma. Umsagnaraðilar taka undir mikilvægi þess að leysa þann vanda og styðja við þverfaglega menntun og mönnun í geðheilbrigðisþjónustu. Nokkrar ábendingar komu fram um að nefna ætti sérstakar stéttir innan stefnunnar en í stefnunni er lögð áhersla á að þær fagstéttir sem koma að geðheilbrigðisþjónustu eru allar mikilvægir hlekkir í þjónustukeðjunni.
    Fram kom að verulega mætti bæta aðgengi að geðþjónustu með tæknilausnum og sömuleiðis eftirfylgd sem eru hagkvæm og árangursrík. Ráðuneytið telur að það sé í samræmi við þau stefnumið sem lagt er upp með í 4. tölulið.
    Í nokkrum umsagnanna komu fram ábendingar um orðfæri. Ráðuneytið tók tillit til þess að nokkru leyti en m.a. komu fram athugasemdir um að vísað væri til „ungs fólks“ fremur en ungmenna. Rétt er að nefna að verið er að vísa til þess hóps stundar nám í leik-, grunn- og framhaldsskólum og að mati ráðuneytisins nær vísun í „ungmenni“ betur utan um þann hóp þar sem almennt séð er um að ræða einstaklinga undir tvítugu þó á því séu vissulega undantekningar.
    Í nokkrum umsagnanna var bent á ákveðna hópa sem veita þurfi sérstaka athygli, svo sem fólk með fötlun, aldrað fólk, langveikt fólk, viðkvæmar fjölskyldur með ung börn og ungt fólk sem hætt hefur námi og/eða er með einhvers konar taugaþroskaraskanir. Heilbrigðisráðuneytið tekur undir áhyggjur af þessum hópum en stærsta áskorunin í geðheilbrigðismálum á Íslandi er skortur á heildstæðri nálgun allt frá geðrækt, forvörnum og snemmbærum úrræðum til geð-heilbrigðisþjónustu á öllum þjónustustigum og milli þjónustukerfa. Kjarnaþáttum nýrrar stefnu er ætlað að vísa veginn að framtíð þar sem þessum hindrunum hefur verið rutt úr vegi fyrir alla án aðgreiningar. Í því ljósi var við vinnslu stefnunnar lögð áhersla á að vísa ekki til sérstakra hópa heldur öllum gert jafn hátt undir höfði.
    Bent var á mikilvægi þess að byggja í auknum mæli á einkaframtaki, nýsköpun, rannsóknum og útsjónarsemi einstaklinga til að mæta sívaxandi eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu. Í þingsályktuninni er áhersla á að upplýsingar um geðheilbrigðisþjónustu verði aðgengilegar öllum til að auðvelda einstaklingum að taka upplýstar ákvarðanir og hlúa að geðheilsu sinni. Þannig er rík áhersla lögð á valdeflingu notenda og aukið aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu. Í því samhengi verður að taka mið af þörfum ólíkra hópa, svo sem. barna, aldraðs fólk og fólks af erlendum uppruna.
    Fram kom að greiðslur ríkisins til þeirra sem sinna heilbrigðisþjónustu eigi að vera samkvæmt samningum Sjúkratrygginga Íslands um magn, gæði og verð þar sem þjónustan og réttur sjúklingsins séu vel skilgreind. Heilbrigðisráðuneytið tekur undir það en leggur áherslu á að í stefnunni er fjallað heildrænt um geðheilbrigðisþjónustu óháð því hver sé þjónustuveitandinn, þ.e. hvort það er hið opinbera eða einkarekið framtak.
    Bent var á að íslenska ríkið hafi fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbundið sig þar með til að virða öll ákvæði hans og framfylgja þeim. Meginmarkmið samningsins er að verja fatlað fólk fyrir mismunun á grundvelli fötlunar á öllum sviðum samfélagsins. Aðgangur að heilbrigðisþjónustu, til jafns við aðra, sé algjör grundvallarþáttur í því. Geðheilbrigðisþjónusta í dag sé algjörlega óviðunandi og standist alls ekki þær kröfur sem leiðir af ákvæðum samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks né heldur meginmarkmið heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um „Að skilja engan eftir“. Staðreyndin og staðan sé sú að fólki sé mismunað alvarlega um aðgang að viðeigandi geðheilbrigðisþjónustu á grundvelli fötlunar. Stefnan í geðheilbrigðismálum samkvæmt þingsályktunartillögunni sé mjög almenns eðlis. Í ljósi stöðunnar og reynslunnar sé nauðsynlegt að í stefnunni verði skýrt tekið fram að öll geðheilbrigðisþjónusta þurfi að vera aðgengileg öllum og að tryggt skuli að fólki verði ekki mismunað um aðgang að henni á grundvelli fötlunar. Í stefnunni þurfi að koma skýrt fram að sé þekking á fötlun ekki til staðar þurfi þjónustuveitandi að hafa aðgang að ráðgjafarteymi sem geti komið inn í mál þegar þörf er á í stað þess að vísa fólki frá eins og mörg dæmi séu um. Þjónustan í heild sinni eigi að henta öllu fötluðu fólki og því skuli ekki vísað í sérúrræði vegna fötlunar sinnar heldur verði öll þjónusta aðlöguð í nærumhverfi þess. Að lokum var það nefnt að mikilvægt væri að taka inn í a-lið 2. tölul. stefnunnar greiningar barna því að greining sé lykill að viðeigandi þjónustu. Heilbrigðisráðuneytið tekur undir ábendingar um mikilvægi þess að vinna samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum sem Ísland er aðili að og var það gert við vinnslu stefnunnar. Við vinnslu stefnunnar voru lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, jafnframt höfð til hliðsjónar auk þess sem hugað var að því hvernig best færi á því að haga samþættingu geðheilbrigðisþjónustu við fullorðna. Í stefnunni er áhersla lögð á að þétta netið svo það grípi alla þá sem þurfa á þjónustu að halda án nokkurrar aðgreiningar. Biðlistar eftir geðheilbrigðisþjónustu hafa lengi verið langir og með tillögum í stefnunni um samhæfingu og samþættingu þjónustunnar er markmiðið að bæta aðgengi allra að skilvirkri og tímanlegri þjónustu þegar hennar er þörf.
    Umsagnaraðilar tóku undir áherslumál þingsályktunartillögunnar að nauðsynlegt sé að tryggja að skjólstæðingar fái árangursríka geðheilbrigðisþjónustu, byggða á gagnreyndri þekkingu og klínískum leiðbeiningum. Sérhver fagstétt í geðheilbrigðisþjónustu gegni mikilvægu hlutverki og hafa skuli í huga að um mismunandi sérhæfingu sé að ræða á milli fagstétta. Því sé áríðandi að hver fagstétt sem sinnir geðheilbrigðisþjónustu sé faglega leiðandi í þeirri þjónustu sem sú fagstétt veitir. Það geti hvorki talist eðlilegt né æskilegt að ein fagstétt leiði faglega þróun annarrar fagstéttar því til þess hafi hún ekki þar til bæra sérþekkingu. Áríðandi sé að gæta að jöfnuði þannig að notendur fái sambærilega þjónustu óháð búsetu, efnahag, fötlun eða öðrum þáttum. Þannig þarf framboð úrræða að vera sambærilegt og samhæft á landsvísu. Því er mikilvægt að fagstéttir fái samræmda þjálfun og handleiðslu. Heilbrigðisráðuneytið tekur undir þessi sjónarmið.
    Bent var á mikilvægi þess að samþætta geðheilbrigðisþjónustu við aðra velferðarþjónustu og sérfræðiþjónustu skóla sem er í samræmi við áherslur í stefnunni.
    Fram kom ábending um að setja þurfi upp geðráð með þeim hætti að raddir notenda með persónulega reynslu af geðheilbrigðisþjónustu og aðstandenda þeirra fái að heyrast og geti raunverulega haft áhrif. Heilbrigðisráðuneytið tekur undir mikilvægi þess að setja upp breiðan samráðsvettvang þar sem raddir notenda hafi raunveruleg áhrif.
    Gerðar voru athugasemdir við að erfitt gæti verið að leita þjónustu á eigin forsendum og að eigin frumkvæði. Krafa um sjúkdómsgreiningar væri sterk og varast ætti að sjúkdómsvæða andlegar áskoranir og tilfinningalegt álag. Í stefnunni er lögð áhersla á snemmbær úrræði og lágþröskuldaþjónustu og ráðuneytið tekur undir mikilvægi þess að valdefla fólks til þess að leita þjónustu á eigin forsendum og frumkvæði. Þá er einnig lögð áhersla á mikilvægi þess að aðgengi að upplýsingum sé gott til að auðvelda fólki að nálgast þá þjónustu sem það þarf.
    Ábendingar komu víða fram um nauðsyn þess að aðgerðir séu fjármagnaðar svo stefnuviðmið raungerist. Bent var á að málaflokkurinn sé verulega undirfjármagnaður og því þurfi nauðsynlega bregðast við. Miðað við nágrannaríki okkar sé ekki enn búið að fjármagna grundvallarmönnun í geðheilbrigðisþjónustu hér á landi og úr því þurfi að bæta. Jafnframt komu fram ábendingar um að stjórnvöld þyrftu að ljúka samningum sálfræðinga við Sjúkratryggingar Íslands. Ráðuneytið tekur undir mikilvægi þess að aðgerðir í aðgerðaráætlunum í framhaldi af þingsályktun þessari verði fjármagnaðar. Varðandi samninga Sjúkratrygginga Íslands við sálfræðinga vill ráðuneytið taka fram að Sjúkratryggingar Íslands hafi það hlutverk lögum samkvæmt að semja við þjónustuveitendur um heilbrigðisþjónustu fyrir hönd ríkisins.
    Eins og fram hefur komið er í þingsályktuninni lögð rík áhersla á gagnreynd úrræði samkvæmt klínískum leiðbeiningum. Ábendingar komu fram í umsögnum um áhyggjur af mikilli notkun geðlyfja á Íslandi. Ráðuneytið tekur undir að mikilvægt er að skoða nánar notkun vissra geðlyfja. Misnotkun vissra flokka geðlyfja, sérstaklega slævandi lyfja og svefnlyfja, er sérstakt áhyggjuefni sem huga þarf að í stefnumótun í heilbrigðismálum.

3. Meginefni tillögunnar.
3.1. Geðrækt, forvarnir og snemmbær úrræði verði grundvöllur geðheilbrigðis einstaklinga.
    Fyrsti áhersluþáttur stefnu í geðheilbrigðismálum lýtur að geðrækt, forvörnum og mikilvægi heildrænnar heilsueflingar sem beinist að grundvallarþáttum vellíðunar og áhrifaþáttum geðheilbrigðis. Mikilvægt er að hlúa að geðheilsu alla ævi. Þegar fólk hefur góða geðheilsu líður því vel og finnst það í stakk búið að takast á við lífið á uppbyggilegan hátt, njóta sín í leik og starfi, nýta hæfileika sína og taka virkan þátt í samfélaginu. Geðrækt snýr að því að styðja fólk til þess að efla og hlúa að geðheilsu sinni. Geðrækt þarf að stunda alla ævi en mikilvægt er að fólk fái það veganesti strax í æsku því jákvæð tengsl við aðra og góðar uppeldisaðstæður eru meðal mikilvægustu atriða sem hafa áhrif á geðheilbrigði. Þá hafa ýmsir líffræðilegir, sálfræðilegir og félagslegir umhverfisþættir áhrif á geðheilsu. Þetta eru þættir í daglegu lífi fólks eins og heimilisaðstæður, uppvaxtarskilyrði barna, skólaumhverfi, menntun, atvinna og félagsleg og efnahagsleg staða. Þessir áhrifaþættir eru að stórum hluta utan heilbrigðiskerfisins en mikilvægt er að geðheilbrigðisþjónustan taki mið af einstaklingnum í umhverfi hans og á hans forsendum. Tækifæri gefast til þess að kenna börnum að hlúa að geðheilsu sinni á kerfisbundinn hátt í gegnum skólann sem vettvang geðræktar, forvarna og snemmbærra úrræða. Markviss kennsla í félagsfærni, hegðunarfærni og tilfinningafærni er mikilvæg undirstaða fyrir farsæld fólks. Slík þekking og reynsla er mikilvæg til að geta skilið eigin tilfinningar og hegðun, sett sig í spor annarra og myndað farsæl tengsl við aðra, fundið eigin leiðir til að ná markmiðum sínum og taka ábyrgar ákvarðanir í lífinu. Þessa færni er hægt að kenna. Enn fremur er áríðandi að bjóða úrræði þegar vanda verður vart og koma þannig í veg fyrir að vandinn verði verri.
    R íkisstjórn in samþykkti árið 2020 aðgerðaáætlun um innleiðingu geðræktarstarfs, forvarna og stuðnings við börn og ungmenni í skólum á Íslandi. Aðgerðirnar ná þvert á skóla- og barnamálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og sveitarfélög. Stýrihópur um innleiðinguna er að störfum og hefur forgangsraðað þeim aðgerðum sem brýnastar eru á næstu árum. Innleiða þarf grundvallarþætti aðgerðaáætlunarinnar í leik-, grunn- og framhaldsskólum, svo sem geðrækt sem námsgrein í aðalnámskrá, þrepaskiptan stuðning í grunnskólum landsins og samvinnu þar að lútandi við fyrsta stig heilbrigðisþjónustu, sbr. a-lið 1. tölul.
    Unnin var aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi árið 2018 og hefur verkefnastjóri hjá embætti landlæknis haft umsjón og eftirfylgd með aðgerðum sem byggjast á henni. Verkefnið er komið vel á veg en mörgum aðgerðum er þó enn ólokið og lögð er áhersla á að ljúka innleiðingu á þeim aðgerðum sem lúta að heilbrigðisþjónustu fyrir árið 2030, sbr. b-lið 1. tölul.
    Í c-lið 1. tölul. er sérstök áhersla lögð á að allir landsmenn hafi greiðan aðgang að hagnýtum, gagnreyndum og auðlesnum upplýsingum um geðrækt, forvarnir og geðheilbrigðisþjónustu, sem auðveldar þeim að stunda heilbrigðan lífsstíl, bæta og viðhalda geðheilsu og bata. Þannig munu allir landsmenn hafi tækifæri til að styrkja og viðhalda eigin geðheilbrigði með aðgengi að upplýsingum í öruggu og samtengdu stafrænu umhverfi svo sem á Heilsuveru. Leitast verður við að auka heilsulæsi fólks og gera því betur kleift að taka upplýstar ákvarðanir um eigin geðheilsu og hvernig best megi hlúa að henni.

3.2. Heildræn geðheilbrigðisþjónusta verði samþætt og byggist á bestu mögulegu gagnreyndu meðferð og endurhæfingu. Geðheilbrigðisþjónustan verði veitt af hæfu starfsfólki á viðeigandi þjónustustigum í árangursríku samstarfi við þjónustuveitendur annars staðar í velferðarþjónustu.
    Skortur á samþættri og heildrænni geðheilbrigðisþjónustu og skortur á starfsfólki á öllum stigum heilbrigðisþjónustu eru megináskoranir í geðheilbrigðisþjónustu.
    Talið er að fimmti hver Íslendingur geti átt von á því að glíma við geðheilbrigðisvanda einhvern tímann á lífsleiðinni og þurfi að leita aðstoðar hjá fagaðila í því samhengi. Mikilvægt er að landsmenn hafi aðgengi að árangursríkri meðferð og endurhæfingu á öllum stigum geðheilbrigðisþjónustu. Til að mæta kröfum um gæði, öryggi og framþróun í þjónustunni þarf að huga vel að þeim mannauði sem knýr kerfið áfram. Sem dæmi þarf mönnun að vera í samræmi við umfang og eðli þjónustu þannig að tryggja megi geðheilbrigðisþjónustu innan ásættanlegs biðtíma. Því þarf fullnægjandi þverfaglega mönnun í geðheilbrigðisþjónustu sem er í samræmi við þjónustuþörf á hverju þjónustustigi með tilliti til viðfangsefna, hæfniviðmiða, handleiðslu og símenntunar, sbr. a-lið 2. tölul. Sérstaka áherslu þarf að leggja á fjölgun fagstétta þar sem nýliðun er takmörkuð, sbr. b-lið 2. tölul. Þá skal lögð áhersla á að einstaklingar með persónulega reynslu sem notendur geðheilbrigðisþjónustu starfi og veiti ráðgjöf varðandi þjónustuna og miðli þannig þekkingu sinni með það að markmiði að bæta gæði þjónustunnar líkt og er komið inn á í 3. tölul.
    Í c-lið 2. tölul er lögð áhersla á samhæfingu og samvinnu í samskiptum heilbrigðis-, félags- og barnaþjónustu. Til langs tíma hefur samhæfingu á milli þjónustukerfa verið ábótavant og skort á að þörfum notenda sé mætt með árangursríkum lausnum á réttu þjónustustigi sem veittar eru tímanlega. Sem dæmi má nefna að ekkert landfræðilegt samhengi er á milli heilbrigðisumdæma, sveitarfélaga og lögregluumdæma. Einnig er þjónustuframboð mismunandi á landinu. Þetta veldur því að samhæfing þjónustu getur orðið flókin og erfitt getur verið fyrir notendur velferðarþjónustu að nálgast þá þjónustu sem þeir þurfa.
    Mörg skref hafa verið tekin í þá átt að færa þessi mál til betri vegar. Í fyrri stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára sem samþykkt var á Alþingi árið 2016 var lögð áhersla á mótun heildstæðrar geðheilbrigðisþjónustu. Fjargeðheilbrigðisþjónusta hefur verið efld, sömuleiðis hefur þverfagleg geðheilbrigðisþjónusta í heilsugæslu og nærumhverfi verið styrkt og þverfagleg geðheilsuteymi stofnuð. Árið 2017 var haldin vinnustofa um stöðugreiningu og framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum barna. Í júní 2021 var haldin þjónustuferlavinnustofa um rétta geðheilbrigðisþjónustu á réttum stað. Unnið er að endurskipulagningu 2. stigs geðheilbrigðisþjónustu barna og geðheilsuteymi barna hefur verið fjármagnað. Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna voru samþykkt á Alþingi 2021 og tóku gildi í janúar 2022.
    Þrátt fyrir að mörg skref hafi verið stigin í átt að betri samþættingu og samhæfingu geðheilbrigðisþjónustu þá er enn langt í land. Skýra þarf skipulag geðheilbrigðisþjónustu þannig að það stuðli að samstarfi milli þjónustustiga og þverfaglegri teymisvinnu, sbr. d-lið 2. tölul. Tryggja þarf að notendur geðheilbrigðisþjónustu fái þá þjónustu sem þeir þurfa þ.e. á viðeigandi þjónustustigi, allt frá snemmbærum úrræðum til endurhæfingar, stuðnings við bata og samfelldrar eftirfylgni vegna langvinns geðheilsuvanda. Áríðandi er að allir landsmenn hafi jafnan og greiðan aðgang að notendamiðaðri geðheilbrigðisþjónustu sem byggist á bestu þekkingu á hverjum tíma, er einstaklingsmiðuð, samfelld, samþætt, valdeflandi og batamiðuð. Geðheilbrigðisþjónustan þarf að vera veitt í nærumhverfi notanda eða á viðeigandi heilbrigðisstofnun sem starfrækt er í bataeflandi húsnæði. Tryggja þarf að samfella, samstarf og samhæfing sé á milli geðheilbrigðisþjónustu og annarra sem veita velferðarþjónustu, svo sem félagsþjónustu, sérfræðiþjónustu skóla og annarrar skólaþjónustu sem og virkniþjálfunar eða endurhæfingar til atvinnuþátttöku. Mikilvægt er að skilgreindir gæðavísar verði til staðar fyrir öll stig geðheilbrigðisþjónustu og byggt sé á áætlun embættis landlæknis um gæðaþróun í heilbrigðisþjónustu 2019–2030.

3.3. Notendasamráð og notendamiðuð þjónusta á öllum stigum geðheilbrigðisþjónustu.
    Til að tryggja að geðheilbrigðisþjónusta sé í samræmi við þarfir og væntingar notenda er nauðsynlegt að virkt samtal eigi sér stað milli notenda, þjónustuveitenda og stjórnvalda. Slíkt samtal þarf að leiða til þess að geðheilbrigðisþjónusta á Íslandi verði í vaxandi mæli notendamiðuð og áhersla sé þar með lögð á valdeflingu notenda, sbr. b-lið 3. tölul.
    Mikilvægt er að hugmyndafræði geðheilbrigðisþjónustu taki mið af þörfum þeirra sem hana nýta og helstu stefnum í geðheilbrigðismálum með ríkri áherslu á valdeflingu notenda og batamiðaða nálgun þar sem rík virðing er borin fyrir mannréttindum notenda. Áríðandi er að þetta samtal og samvinna um þróun geðheilbrigðisþjónustu í landinu sé lifandi, opið, gagnsætt og á jafningjagrundvelli.
    Í notendamiðaðri geðheilbrigðisþjónustu er lögð áhersla á heildræna og einstaklingsmiðaða nálgun og virðing borin fyrir óskum, gildum og þörfum einstaklingsins. Þjónustan er samfelld, samþætt og samræmd frá greiningu í gegnum veikinda-, meðferðar- og bataferlið og byggist á þverfaglegum gagnreyndum inngripum og meðferð. Notendamiðuð þjónusta byggist á þátttöku notenda og aðstandenda þeirra, virkri upplýsingagjöf og samtali sem auðveldar upplýsta ákvarðanatöku um eigin meðferð og heilbrigðisþjónustu.
    Frá 2018 hefur heilbrigðisráðuneytið haft samráð við notendur geðheilbrigðisþjónustu í gegnum reglulega samráðsfundi þar sem fulltrúum þjónustuveitenda hefur verið boðið til samtals auk þess sem fulltrúi félagsmálaráðuneytis hefur tekið þátt í samráðinu. Mikilvægt er að þróa þann vettvang áfram. Til þess að ná fram notendamiðaðri geðheilbrigðiþjónustu sem byggist á ofangreindum forsendum gæti núverandi samráðsvettvangur þróast í það að verða starfandi breiður samráðsvettvangur um geðheilbrigðismál, Geðráð, þar sem stjórnvöld, fagfólk, notendur og aðstandendur fjalla um málaflokkinn og komi þannig að mótun stefnu í honum og stöðugum umbótum, sbr. a-lið 3. tölul. Vettvangur þessi hefði einnig það hlutverk að stuðla að samvinnu og samþættingu í geðheilbrigðisþjónustu, sem og að þróa leiðir til að auka þátttöku notenda í þróun og stýringu geðheilbrigðisþjónustu til framtíðar.
    Með framangreint í huga þá er jafnframt lögð áhersla á það í c-lið 3. tölul. að geðheilbrigðisþjónusta verði í auknum mæli veitt í nærumhverfi notanda eða á viðeigandi heilbrigðisstofnun sem starfrækt verði í bataeflandi húsnæði sem standist nútímakröfur sem gerðar eru til geðheilbrigðisþjónustu.

3.4. Nýsköpun, vísindi og þróun leiði til betri geðheilbrigðisþjónustu og bætts aðgengis.
    Með auknu aðgengi allra landsmanna að geðheilbrigðisþjónustu óháð aldri, búsetu, kyni, uppruna og öðrum lýðfræðilegum breytum er betur hægt að stuðla að geðheilbrigði þjóðarinnar og koma í veg fyrir versnun geðheilsuvanda þegar svo ber undir, sbr. a-lið 4. tölul. Mikilvægt er að nýta nýsköpun, fjarheilbrigðisþjónustu og aðrar tækniframfarir til að jafna aðgengi landsmanna að geðheilbrigðisþjónustu. Æskilegt er að fjargeðheilbrigðisþjónusta eða önnur þjónusta sem nýtir tækniframfarir byggist á gagnreyndri þekkingu, öryggi, gæðum og standi notendum og aðstandendum til boða. Einnig er mikilvægt að notandi hafi val um hvert hann sækir þjónustu og sé virkur og vel upplýstur þátttakandi í vali á eigin geðheilbrigðisþjónustu.
    Rannsóknir og nýsköpun í þverfaglegri geðheilbrigðisþjónustu verði í ríkum mæli hluti af starfi heilbrigðisstofnana og í virku samstarfi við háskólasamfélagið, sbr. b-lið 4. tölul. Mikilvægt er að rannsóknir taki mið af reynslu notenda geðheilbrigðisþjónustu og aðstandenda þeirra.