Ferill 481. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 913  —  481. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Evu Sjöfn Helgadóttur um lyfjanotkun á hjúkrunarheimilum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu hátt hlutfall þeirra sem dvelja á hjúkrunarheimilum tekur eitt eða fleiri geðlyf? Óskað er eftir upplýsingum fimm ár aftur í tímann, sundurliðað eftir árum og eftir því hvort um er að ræða eitt, tvö eða fleiri geðlyf.
     2.      Hversu hátt hlutfall þeirra sem dvelja á hjúkrunarheimilum og hafa fengið geðlyf að staðaldri síðastliðin fimm ár er ekki með greiningu um geðsjúkdóm? Svar óskast sundurliðað eftir árum.
     3.      Hversu hátt hlutfall þeirra sem dvelja á hjúkrunarheimilum tekur eitthvert af eftirfarandi geðlyfjum að staðaldri:
                  a.      geðrofslyf,
                  b.      róandi eða kvíðastillandi lyf,
                  c.      sterk verkjalyf, þ.m.t. ópíóíða?
     4.      Telur ráðherra að lyfjanotkun á hjúkrunarheimilum sé meiri en nauðsyn krefur og ef svo er, áformar ráðherra að stuðla að endurskoðun í ávísun lyfja fyrir aldraða á hjúkrunarheimilum?


    Fyrirspurn þingmannsins krefst sérstakrar úttektar eða rannsóknar þar sem keyrðar væru saman upplýsingar úr nokkrum gagnagrunnum. Slíkar samkeyrslur kalla á leyfi vísindasiðanefndar og þurfa einnig að skoðast í ljósi persónuverndar.
    Ráðuneytið sendi á síðasta ári fyrirspurn til hjúkrunarheimila um notkun lyfja eftir lyfjaflokkum fyrir árin 2019 og 2020. Verkjalyf (ATC flokkur N02 - öll verkjalyf) voru mest notaði lyfjaflokkurinn og jafnframt sá kostnaðarsamasti eða um 10,5% af lyfjakostnaði þeirra hjúkrunarheimila sem svöruðu fyrir bæði árin. Af öðrum lyfjaflokkum sem falla undir fyrirspurn þessa voru geðrofslyf, svefnlyf og róandi lyf (ATC flokkur N05) næstmest notuð en samanlagður kostnaður vegna þeirra var 9,9% af heildarkostnaði fyrir árið 2019 og 10,6% fyrir árið 2020. Lyfjaflokkurinn (N06) þunglyndislyf, örvandi lyf og lyf við heilabilun stóðu undir um 8,0% lyfjakostnaðar 2019 og 6,9% árið 2020. Notkun geðlyfja á hjúkrunarheimilum er því umtalsverð.
    Rannsókn á algengi og þróun geðraskana og geðlyfjanotkunar meðal íbúa íslenskra hjúkrunarheimila frá 2003–2018 eftir Pál Biering geðhjúkrunarfræðing og Ingibjörgu Hjaltadóttur sérfræðing í öldrunarhjúkrun sem birtist í Læknablaðinu 2021 leiddi í ljós að um 42% höfðu fengið þunglyndisgreiningu. Um 70% íbúa voru á einhverjum geðlyfjum og voru þunglyndislyf mest notuð. Fjöldi íbúa sem ekki hafði fengið þunglyndisgreiningu en fékk engu að síður þunglyndis- og/eða róandi lyf og kvíðalyf jókst á því árabili sem rannsóknin tók til og var 21,7% árið 2018. Höfundar rannsóknarinnar benda á að þunglyndislyf séu stundum notuð vegna annarra heilsufarsvandamála, s.s. langvarandi verkja, vefjagigtar og svefnvanda.
    Ofangreindar rannsóknaniðurstöður sýna fram á mikilvægi þess að sérstaklega sé vandað til ávísana geðlyfja til aldraðra einstaklinga og að þær byggi á nákvæmri geðskoðun. Rétt er að ítreka að embætti landlæknis hefur eftirlitshlutverk með allri heilbrigðisþjónustu, þ.m.t. geðlyfjanotkun. Ekki er gert ráð fyrir sérstakri endurskoðun á ávísun lyfja fyrir aldraða á hjúkrunarheimilum eins og sakir standa.