Ferill 271. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 425  —  271. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Höllu Signýju Kristjánsdóttur um skemmtiferðaskip.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hyggst ráðherra taka til skoðunar lagasetningu um móttöku skemmtiferðaskipa hér á landi?
     2.      Hyggst ráðherra leggja til bann við landtöku skemmtiferðaskipa utan hafna á Íslandi? Ef ekki, hver eru rökin fyrir því?


    Samkvæmt 7. gr. laga um vaktstöð siglinga, nr. 41/2003, skulu skip sem eru á leið til hafnar á Íslandi, 300 brúttótonn að stærð og stærri, tilkynna komu sína til vaktstöðvar siglinga með tilteknum fyrirvara, nema um sé að ræða varðskip og fiskiskip styttri en 45 metrar.
    Landhelgisgæsla Íslands hefur bent á að farþegaskip sem sigla milli hafna hér á landi fari ekki ávallt beina leið að næstu höfn. Þau sigli um firði í útsýnisferðum og hafi jafnvel viðkomu og hleypi farþegum í land án þess að leggja að höfn. Slíkar siglingar og viðkomur séu ekki tilkynningarskyldar. Fyrir vikið viti vaktstöðin ekki alltaf um siglingaleiðir þessara skipa sem geti valdið hættu. Eðlilegt sé að þessi skip veiti vaktstöðinni upplýsingar um þá leið sem þau hyggjast fara.
    Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vaktstöð siglinga, nr. 41/2003, sem mælt var fyrir á 152. löggjafarþingi (þskj. 813, 574. mál á 152. löggjafarþingi) var lagt til að farþegaskip, 300 brúttótonn að stærð og stærri, sem sigla milli hafna hér á landi, skuli tilkynna vaktstöðinni um áætlaða leið að næstu höfn með tilteknum fyrirvara. Frumvarp þetta varð ekki að lögum en ráðherra hyggst mæla fyrir nýju frumvarpi á vorþingi sem hafi að geyma slíkt ákvæði.
    Að öðru leyti fellur landtaka skipa utan hafnarsvæða ekki undir innviðaráðuneytið. Ráðuneytið vill hins vegar benda á að skv. 11. gr. forsetaúrskurðar frá 31. janúar 2022, nr. 6/2022, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, fer umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti með náttúruvernd og sjálfbæra þróun, þar á meðal: Verndun lífríkis og líffræðilegrar fjölbreytni, svo sem vernd vistkerfa, búsvæða, tegunda og erfðaefnis. Því væri rétt að beina fyrirspurn um náttúruvernd til þess ráðuneytis.