Ferill 185. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 497  —  185. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Bryndísi Haraldsdóttur um dánaraðstoð.


     1.      Hver er afstaða ráðherra til þess að heimila dánaraðstoð?
    Skýrsla heilbrigðisráðuneytis um dánaraðstoð var lögð fyrir Alþingi í september 2020. Með skýrslunni var leitast við að draga saman upplýsingar um málefnið og setja þær fram á hlutlausan hátt. Í skýrslunni er ekki tekin afstaða til þess hvort dánaraðstoð eigi að leyfa og þá hvaða heldur er henni ætlað að vera grundvöllur frekari umræðu um slíka aðstoð.
    Mikilvægt er að nefna að dánaraðstoð skiptist gróflega í fjóra flokka. Á Íslandi eru fyrstu tveir flokkarnir leyfðir og sú meðferð sem þar er tilgreind notuð, eins og vel er farið yfir í skýrslunni.
    Þessir fjórir flokkar eru eftirfarandi samkvæmt skýrslunni:
     *      Líknarmeðferð (e. palliative care).
          *      Unnt er að beita henni einni og sér eða samhliða sjúkdómsmeðferð sem er lífslengjandi.
          *      Hefur það markmið að lina þjáningar og bæta lífsgæði sjúklings sem greinst hefur með alvarlegan lífsógnandi eða langvinnan sjúkdóm.
     *      Óbein dánaraðstoð (e. passive euthanasia).
          *      Felst í meðvituðu athafnaleysi læknis sem veitir sjúklingi ekki þá meðferð sem gæti lengt líf hans.
          *      Undir óbeina dánaraðstoð fellur sá verknaður þegar lífsnauðsynlegri meðferð sjúklings er hætt eða sleppt án þess að láta sjúkling þjást.
          *      Réttur lögráða einstaklings til að hafna eða hætta læknismeðferð er almennt viðurkenndur sem einn grundvallarþáttur sjálfsákvörðunarréttar hans. Markmið óbeinnar dánaraðstoðar er því ekki að valda dauða sjúklings heldur að fara að vilja hans og leyfa dauðanum að hafa sinn gang. Ef vilji sjúklings liggur ekki fyrir er farið eftir ákveðnum ferlum.
     *      Læknisaðstoð við sjálfsvíg (e. physician-assisted suicide).
          *      Felst í aðstoð læknis við að útvega sjúklingi efni og/eða tól sem sjúklingurinn notar sjálfur til að binda enda á líf sitt.
     *      Bein dánaraðstoð eða líknardráp (e. active euthanasia, euthanasia).
          *      Felst í því að læknir eða annar heilbrigðisstarfsmaður gefur sjúklingi efni í þeim tilgangi að binda enda á þjáningu hans og ævidaga.
    Óbein dánaraðstoð og líknarmeðferð er lögleg í flestum löndum og hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hvatt til þess að allar þjóðir bjóði upp á líknandi meðferð. Bein dánaraðstoð og læknisaðstoð við sjálfsvíg er aftur á móti ekki lögleg nema í nokkrum löndum. Í helstu samanburðarlöndum er m.a. bein dánaraðstoð og læknisaðstoð við sjálfsvíg lögleg í Belgíu, Hollandi, Lúxemborg og Kanada. Læknisaðstoð við sjálfsvíg er síðan leyfð í Finnlandi og Sviss. Í skýrslunni er vel farið yfir þróun lagaramma í löndum þar sem dánaraðstoð er leyfð. Einnig var fjallað um tíðni, ástæður og skilyrði dánaraðstoðar í þeim löndum og hver reynslan hefur verið.
    Að lokum var í skýrslunni undirstrikað mikilvægi þess að fá fram sjónarmið allra sem málefnið snertir og gæta að því að raddir þeirra sem vilja heimila frekari dánaraðstoð, sem og þeirra sem eru mótfallnir henni, fái að heyrast. Greint var frá því að umræða á Íslandi um dánaraðstoð væri almennt skammt á veg komin þó að hún hefði aukist undanfarin misseri. Haldnir hefðu verið fundir og málþing um efnið og kannanir gerðar á afstöðu heilbrigðisstarfsfólks. Aftur á móti þyrfti að gera mun viðameiri kannanir á afstöðu fleiri aðila eftir að fræðsla og umræða hefði átt sér stað og þekking aukist.
    Samtökin Lífsvirðing, sem stofnuð voru í byrjun árs 2017, eiga mikinn þátt í því að samtal og umræða hefur þróast og þroskast. Í október árið 2022 stóðu Lífsvirðing og Endurmenntun Háskóla Íslands fyrir sameiginlegu málþingi þar sem dánaraðstoð var rædd frá mismunandi hliðum.
    Ráðherra telur mikilvægt að umræða fái að þróast áfram á uppbyggilegan og opinn hátt. Síðan þarf að halda áfram með þá vinnu sem nauðsynleg er áður en hægt er að taka afstöðu til þessa viðkvæma og mikilvæga málefnis.

     2.      Hefur átt sér stað einhver vinna í ráðuneytinu í tengslum við að heimila dánaraðstoð eftir að ráðherra skilaði skýrslu um dánaraðstoð til þingsins á 150. löggjafarþingi (486. mál)?
    Í nefndri skýrslu, sem einnig er vísað til í svari við 1. tölul., er ekki tekin afstaða til þess hvort heimila eigi frekari dánaraðstoð en nú þegar er leyfð. Eins og segir í svari við 1. tölul. þarf umræða í samfélaginu að fá að þróast áfram. Áframhaldandi vinna innan ráðuneytisins í kjölfar skýrslunnar hefur ekki átt sér stað. Ráðherra telur aftur á móti gott að fyrirspurn þessari hafi verið beint til hans því að tímabært er að huga að næstu skrefum.