Ferill 482. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 797  —  482. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Daníel E. Arnarssyni um túlkaþjónustu umsækjenda um alþjóðlega vernd.


     1.      Hverjar eru starfsreglur og/eða ferlar Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála þegar kemur að túlkaþjónustu annars vegar vegna viðtala hjá stofnunum og beinum samskiptum þeirra við umsækjendur um alþjóðlega vernd og hins vegar vegna samskipta á milli umsækjenda og talsmanna?
    Samkvæmt verklagi Útlendingastofnunar fara samskipti við umsækjendur um alþjóðlega vernd fram með aðstoð túlks á móðurmáli umsækjanda. Þegar umsækjandi er boðaður til viðtals hjá Útlendingastofnun er þess ávallt gætt að túlkur sé einnig boðaður. Leitast er við að boða túlk í persónu en reynist það ekki unnt er notast við viðurkenndar túlkaveitur í gegnum síma. Í upphafi viðtals er gengið úr skugga um að umsækjandi og túlkur skilji hvor annan. Ef túlkun reynist óviðunandi eða viðeigandi túlkur fæst ekki í gegnum túlkaveitu er viðtali frestað og nauðsynlegar ráðstafanir gerðar svo að viðtal geti farið fram. Slíkar ráðstafanir geta m.a. falið í sér að bóka símatúlk fyrir fram.
    Löglærðir talsmenn umsækjenda fá sendar ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum skjólstæðinga sinna og er það í höndum talsmanna að kynna þeim niðurstöðu ákvarðana. Í samræmi við verklag Útlendingastofnunar um talsmannaþjónustu greiðir stofnunin kostnað við túlkaþjónustu fyrir allt að 90 mínútur þurfi talsmenn að nýta sér slíka þjónustu í samskiptum við umsækjendur. Kjósi umsækjandi að nýta sér ekki þjónustu talsmanns, sem er afar fátítt, er umsækjandi boðaður til Útlendingastofnunar í birtingu ákvörðunar og er ákvörðunarorð þá lesið á móðurmáli umsækjanda með aðstoð túlks.
    Samkvæmt verklagi kærunefndar útlendingamála fara viðtöl við kærendur fram með aðstoð túlkaveitu í gegnum síma. Þó kemur fyrir að túlkur frá innlendri túlkaþjónustu sé boðaður í viðtal, t.d. vegna einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, en það er metið hverju sinni. Samskipti kærunefndar útlendingamála við kærendur fara að mestu leyti fram í gegnum talsmenn þeirra. Sé kærandi af einhverjum ástæðum ekki með talsmann hefur verið notast við túlkaveitu í gegnum síma eða þá tungumálakunnáttu starfsfólks kærunefndar eftir atvikum.

     2.      Kemur til álita af hálfu ráðherra að umsækjendur um alþjóðlega vernd geti valið sér túlk sjálfir vegna málsmeðferðar stjórnvalda? Ef svo, hvaða skilyrði yrðu sett fyrir því?
    Í framkvæmd bæði Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála er stuðst við það verklag að fá óháða atvinnutúlka, bæði hérlendis og í gegnum símatúlkun, til að túlka í viðtölum og er það gert til þess að tryggja hlutlausa túlkun. Styðst sú framkvæmd við leiðbeiningar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um túlkun við meðferð umsókna um alþjóðlega vernd. Kemur þar m.a. fram að túlkar skuli vera óhlutdrægir og segja sig frá máli þar sem þeir séu kunnugir eða skyldir umsækjanda eða öðrum sem komi að málinu.

     3.      Hvaða úrræði eru fyrir hendi þegar vandkvæði verða á túlkaþjónustu við málsmeðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd, þ.e. ef aðili áttar sig á að túlkun er ekki fullnægjandi eða gerir athugasemd við störf túlks?
    Komi slík staða upp tekur Útlendingastofnun afstöðu til fram kominna athugasemda og metur þörf á því að kalla til nýjan túlk eða hvort grípa þurfi til annarra ráðstafana. Öll viðtöl hjá Útlendingastofnun eru hljóðrituð og endurrituð og ef upp koma athugasemdir eða vafi um ágæti túlkunar eftir að viðtali er lokið er hægt að kalla eftir endurtúlkun á fyrirliggjandi hljóðupptöku. Væri þá annar túlkur kallaður til. Ef til þess kæmi að viðtal þætti ranglega túlkað væri hægt að kalla umsækjanda til nýs viðtals hjá stofnuninni til að bæta úr hvers kyns annmörkum.
    Þá skoðar kærunefnd útlendingamála það sérstaklega á kærustigi ef nefndinni berst kvörtun eða athugasemd vegna túlkunar í viðtali hjá Útlendingastofnun, til að mynda með því að óska eftir upptöku af viðtali kæranda hjá Útlendingastofnun og hlusta á það með aðstoð annars túlks. Þá stendur kæranda til boða að koma leiðréttingum á framfæri í gegnum greinargerð eða á annan hátt.