Ferill 558. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1341  —  558. mál.




Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur um skipulag og stofnanir ráðuneytisins.


     1.      Stendur yfir vinna í ráðuneytinu varðandi stofnanaskipulag þess með það að markmiði að ná fram aukinni hagræðingu og skilvirkni í starfsemi? Ef já, hvaða?
    Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið (HVIN) tók til starfa 1. febrúar 2022 með útgáfu forsetaúrskurðar um skiptingu málefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022. Til ráðuneytisins hafa fallið málaflokkar og verkefni sem fjögur ráðuneyti höfðu áður með höndum. Frá mennta- og menningarmálaráðuneyti fluttust fræðslumál á háskólastigi, málefni vísinda og rannsókna, námsaðstoð og Félagsstofnun stúdenta við Háskóla Íslands. Frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti fluttust málefni nýsköpunar, tækniþróunar og stuðningsumhverfis atvinnulífs, hugverkaréttindi á sviði iðnaðar og iðnaðarmálefni. Frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti fluttust málefni fjarskipta og netöryggis. Þá hefur verið ákveðið að málaflokkurinn gervigreind færist úr forsætisráðuneyti og stafræn málefni, þ.m.t. rafræn skilríki, flytjist úr fjármála- og efnahagsráðuneyti til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis.
    Flutningi málefnasviða frá fyrri ráðuneytum til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis fylgdu einnig stofnanir á málefnasviðunum. Frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti fluttust Hugverkastofa og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins. Frá mennta- og menningarmálaráðuneyti fluttust Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Hólum, Landbúnaðarháskóli Íslands, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, Rannsóknamiðstöð Íslands og Menntasjóður námsmanna. Frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti fluttist Fjarskiptastofa.
    Skipulag hins nýja ráðuneytis einkennist af samstarfi þvert á málaflokka í stað hefðbundinna sílóa, með lágmarksyfirbyggingu, skýrri ábyrgð á fjármálum og forgangsröðun fjármuna. Önnur meginskrifstofa ráðuneytisins annast stefnumörkun og alþjóðasamskipti en hin annast framkvæmd og eftirfylgni málefna, þ.m.t. starfsemi stofnana ráðuneytisins. Með þessu skipulagi ráðuneytisins er tryggð yfirsýn yfir starfsemi stofnana ráðuneytisins og veitt eftirfylgni með þeim markmiðum sem sett eru í starfsemi þeirra í samræmi við stefnur og ársáætlanir ríkisaðila samkvæmt lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015.
    Skipulag ráðuneytisins er haft til hliðsjónar í allri vinnu sem snertir stofnanaskipulag þess. Alltaf er leitast við að skoða hvort hægt sé að minnka yfirbyggingu og fara betur með fjármuni. Sem dæmi um þetta hefur Raunvísindastofnun til að mynda verið felld undir Háskóla Íslands. Raunvísindastofnun hefur um langt árabil verið rekin á grunni sjálfstæðs fjárlagaliðar sem nú er búið að fella undir háskólann til þess að einfalda ríkisrekstur og draga úr óhagræði.

     2.      Hefur ráðherra brugðist við tillögum til úrbóta í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar frá desember 2021? Ef já, hvernig?
    Ráðherra hefur brugðist við tillögum Ríkisendurskoðunar með því að stuðla að auknu samstarfi stofnana og stutt við hagræðingu í starfsemi þeirra.
    Raunvísindastofnun Háskóla Íslands var á dögunum felld undir Háskóla Íslands, eins og nefnt var í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar. Raunvísindastofnun var sett á laggirnar árið 1966 og undanfarin misseri hafa um 130–140 stöðugildi verið á vegum stofnunarinnar. Frá upphafi hefur hún sinnt afar mikilvægum rannsóknum á sviði raunvísinda innan Háskóla Íslands, þar á meðal á sviði stærðfræði, eðlisfræði, efnafræði, lífefnafræði, jarðfræði og jarðeðlisfræði. Ríkisendurskoðun hefur um langt árabil bent á að óhagræðið sem felst í því að stofnanir sem heyra undir háskólann séu reknar sem sjálfstæðar einingar á sérstökum fjárlagaliðum. Með því að fella Raunvísindastofnun undir Háskóla Íslands og þannig reka stofnanirnar á sama fjárlagalið er komið til móts við ábendingar Ríkisendurskoðunar. Um er að ræða hagræði í rekstri og einfaldari yfirbyggingu sem styrkir Raunvísindastofnun og háskólann í enn frekari sókn.
    Þá hefur ráðuneytið stuðlað að frekara samstarfi undirstofnana sinna. Samstarfsnet opinberra háskóla hefur verið nýtt til að auka samstarf í miðlægri stjórnsýslu opinberra háskóla og eru dæmi um samnýtingu starfsfólks í þágu tveggja eða fleiri háskóla. Í verkefninu Samstarf háskóla hefur verið ákveðið að ráðstafa af safnlið háskólastigsins í fjárlögum yfir milljarði króna til aukins samstarfs háskóla með það að markmiði að auka gæði námsins og samkeppnishæfni skólanna en með þessum hætti verður fjármögnun átaksverkefna á háskólastigi enn gagnsærri en áður. Hugmyndin var kynnt í sl. haust og brugðust allir sjö háskólarnir við ásamt 37 öðrum samstarfsaðilum. 48 umsóknir bárust til ráðuneytisins og var sótt um styrki fyrir samtals 2,8 milljarða króna. Vonir eru bundnar við að með hvötum til aukins samstarfs háskólanna skapist grundvöllur fyrir aukinni sérhæfingu og betri nýtingu fjármuna í háskólakerfinu.

     3.      Hversu margar eru stofnanir ráðuneytisins?
    Stofnanir ráðuneytisins eru 10 talsins.

     4.      Hversu margar stofnanir ráðuneytisins hafa færri en 50 starfsmenn?
    Eftirtaldar stofnanir ráðuneytisins hafa færri en 50 starfsmenn:
    Fjarskiptastofa (41)
    Háskólinn á Hólum (46)
    Hugverkastofa (32)
    Menntasjóður námsmanna (34)
    Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins (3)

     5.      Er til skoðunar að sameina stofnanir ráðuneytisins?
    Ráðuneytið hugar sífellt að aukinni skilvirkni og hagkvæmni í starfsemi stofnana þess. Leiðir til árangurs í því efni geta verið aukið samstarf stofnana, sameining þeirra eða tilfærsla verkefna milli stofnana, og milli ráðuneytis og stofnana. Eins og fyrr greinir hefur mikill árangur náðst með auknu samstarfi háskóla og verður áfram hugað að því að styðja frumkvæði þeirra í þeim efnum. Á þingmálaskrá yfirstandandi vorþings er boðuð framlagning frumvarps um endurskoðun á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins með hagræðingu í starfsemi sjóðsins í huga. Að svo stöddu liggja ekki fyrir frekari áætlanir um sameiningu tiltekinna stofnana.