Ferill 940. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1470  —  940. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980 (vinnutímaskráning starfsmanna).

Frá félags- og vinnumarkaðsráðherra.



1. gr.

    Á eftir 57. gr. laganna kemur ný grein, 57. gr. a, svohljóðandi:
    Atvinnurekendum er skylt að koma upp áreiðanlegu og aðgengilegu kerfi vegna skráningar á vinnutíma starfsmanna sinna þar sem meðal annars koma fram upplýsingar um daglegan og vikulegan vinnutíma sem og upplýsingar um á hvaða tíma sólarhrings unnið er, samfelldan hvíldartíma og vikulegan frídag. Einnig skulu koma fram upplýsingar um tilvik þar sem vikið hefur verið frá reglum um hvíldartíma og vikulegan frídag samkvæmt lögum þessum eða kjarasamningum sem og upplýsingar um hvort starfsmenn hafi í slíkum tilvikum fengið hvíld síðar. Starfsmaður skal eiga þess kost að nálgast framangreindar upplýsingar 12 mánuði aftur í tímann.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu til að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA. Með frumvarpinu er lagt til að nýju ákvæði verði bætt við lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, þar sem kveðið verði á um vinnutímaskráningu starfsfólks.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/88/EB frá 4. nóvember 2003, um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma, var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2004 frá 23. apríl 2004 um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn. Þeim breytingum sem frumvarpið felur í sér er ætlað að koma til móts við athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA þess efnis að hérlendis hafi ekki verið innleidd að fullu 3. og 5. gr. sem og b-liður 6. gr. tilskipunarinnar eins og ákvæðin hafi verið túlkuð í samræmi við niðurstöðu Evrópudómstólsins í máli C55/18 CCOO þar sem dómstóllinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að umrædd ákvæði framangreindrar tilskipunar fælu í sér að atvinnurekendur í aðildarríkjum þyrftu að koma upp áreiðanlegu og aðgengilegu kerfi vegna skráningar á vinnutíma starfsfólks þeirra.
    Í athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA kemur enn fremur fram að í samræmi við grunnmarkmið um einsleitni í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sem lögfestur var hér á landi með lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, og til þess að tryggja jafnræði innan Evrópska efnahagssvæðisins sé niðurstaða Evrópudómstólsins í máli C55/18 CCOO jafnframt skuldbindandi innan svæðisins. Í samræmi við 7. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sé það því einnig skuldbindandi fyrir aðildarríki samningsins að innleiða tilskipanir samningsins að fullu. Var það niðurstaða Eftirlitsstofnunar EFTA að svo hafi ekki verið gert hér á landi hvað varðar umrædd ákvæði fyrrnefndrar tilskipunar.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Lagt er til að við lögin bætist ný málsgrein, 57. gr. a, þar sem kveðið verði á um það nýmæli að atvinnurekendum sé skylt að koma upp áreiðanlegu og aðgengilegu kerfi vegna skráningar á vinnutíma starfsmanna sinna, sem innihaldi meðal annars upplýsingar um daglegan og vikulegan vinnutíma sem og upplýsingar um á hvaða tíma sólarhrings unnið er, samfelldan hvíldartíma og vikulegan frídag. Einnig er gert ráð fyrir að fram komi upplýsingar um tilvik þar sem vikið hefur verið frá reglum um hvíldartíma og vikulegan frídag samkvæmt lögunum eða kjarasamningum sem og upplýsingar um hvort starfsfólk hafi í slíkum tilvikum fengið hvíld síðar. Tilgangur slíkrar skráningar er að Vinnueftirlit ríkisins eða eftir atvikum dómstólar geti metið hvort skilyrði laganna um hámarksvinnutíma og lágmarkshvíld og vikulegan frídag séu virt sem og hvort starfsfólk hafi fengið hvíld síðar ef vikið er frá reglum um hvíldartíma og vikulegan frídag samkvæmt lögunum eða kjarasamningum. Er jafnframt gert ráð fyrir að kveðið verði á um að starfsmaður eigi þess kost að nálgast umræddar upplýsingar 12 mánuði aftur í tímann. Er talið mikilvægt að atvinnurekandi hafi umræddar upplýsingar tiltækar ef upp kemur grunur um brot á ákvæðum laganna, verði frumvarpið samþykkt. Skráning atvinnurekanda á vinnutíma starfsmanna sinna getur eðli máls samkvæmt verið mjög mismunandi. Í því sambandi má nefna að í sumum tilvikum er aldrei um breytingu á vinnutíma að ræða og ætla má að í slíkum tilvikum sé ekki um að ræða flókið kerfi vegna skráningar á vinnutíma starfsmanna.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpinu er ætlað að innleiða hér á landi með fullnægjandi hætti 3. og 5. gr. sem og b-lið 6. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/88/EB frá 4. nóvember 2003 um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma en tilskipunin hefur verið tekin upp í EES-samninginn. Eru breytingarnar sem frumvarpið gerir ráð fyrir að verði á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum í samræmi við athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA í því sambandi. Efni frumvarpsins lýtur því að alþjóðlegum skuldbindingum en þykir hins vegar ekki gefa tilefni til mats á samræmi við ákvæði stjórnarskrár.

5. Samráð.
    Efni frumvarps þessa er hluti af frumvarpi sem unnið var af nefnd sem var skipuð í september 2019 af þáverandi félags- og barnamálaráðherra með fulltrúum frá félagsmálaráðuneyti (nú félags- og vinnumarkaðsráðuneyti), Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Vinnueftirliti ríkisins og Vinnumálastofnun auk þess sem formaður nefndarinnar var skipaður án tilnefningar. Nefndinni var falið að koma til framkvæmda tilteknum aðgerðum er lúta að vinnumarkaði og var afurð nefndarinnar frumvarp sem lagt var fram á 152. löggjafarþingi, en náði þó ekki fram að ganga á Alþingi. Í ljósi efnis frumvarps þess sem hér um ræðir sem og í ljósi þess að það var samið í samstarfi við framangreinda aðila þótti ekki ástæða til að kynna sérstaklega drög að því frumvarpi sem hér um ræðir í samráðsgátt stjórnvalda að þessu sinni. Ráðuneytið hefur þó upplýst þá aðila sem áttu fulltrúa í fyrrnefndri nefnd um framlagningu frumvarps þessa. Þá var efni frumvarpsins kynnt öðrum ráðuneytunum á fyrri stigum eða þegar frumvarp fyrrnefndrar nefndar var kynnt ráðuneytunum.

6. Mat á áhrifum.
    Efni frumvarpsins snertir fyrst og fremst atvinnurekendur, starfsfólk á innlendum vinnumarkaði sem og Vinnueftirlit ríkisins sem fer með eftirlit með vinnutíma starfsmanna á grundvelli laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Í því sambandi má gera ráð fyrir að efni frumvarpsins muni hafa jákvæð áhrif fyrir starfsfólk á innlendum vinnumarkaði, óháð kyni, verði það að lögum, enda verið að tryggja að vinnutími starfsfólks sé skráður í áreiðanlegu og aðgengilegu kerfi auk þess sem verið er að tryggja að starfsfólk eigi þess kost að nálgast þær upplýsingar sem þar verða skráðar tólf mánuði aftur í tímann. Þá má gera ráð fyrir að verði frumvarpið að lögum auðveldi það eftirlitshlutverk stjórnvalda frá því sem nú er hvað varðar eftirlit með vinnutíma starfsfólks samkvæmt lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sbr. IX. kafla laganna, þar sem unnt verður að nálgast upplýsingar um vinnutíma starfsfólks á auðveldari hátt en áður.
    Engin fyrirséð útgjaldaáhrif eru á ríkissjóð verið frumvarpið óbreytt að lögum en gera má ráð fyrir að atvinnurekendur sem ekki hafa þegar komið upp áreiðanlegu og aðgengilegu kerfi vegna skráningar á vinnutíma starfsmanna sinna kunni að verða fyrir kostnaðaráhrifum verði frumvarpið óbreytt að lögum.