Ferill 704. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1503  —  704. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Ásthildi Lóu Þórsdóttur um greiðsluaðlögun einstaklinga.


     1.      Hvers vegna hefur ráðherra ekki enn sett reglugerð um greiðsluaðlögun einstaklinga eins og mælt er fyrir um í 34. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010?
    Í 34. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, er kveðið á um að ráðherra setji reglugerð að fenginni umsögn umboðsmanns skuldara þar sem m.a. skuli kveða á um starfsemi umsjónarmanna og samræmda framkvæmd greiðsluaðlögunar. Reglugerðarheimildin var sett inn í lögin þegar umsjónarmenn voru lögmenn víðs vegar um landið. Þróunin hefur hins vegar orðið sú að nú eru umsjónarmenn lögfræðingar sem starfa hjá embætti umboðsmanns skuldara. Staða umsjónarmanna er því ólík því sem áður var og þörfin fyrir reglugerð um starfsemi umsjónarmanna og samræmda framkvæmd greiðsluaðlögunar ekki lengur fyrir hendi með sama hætti og var þegar reglugerðarheimildin kom til.
    Ráðuneytið leitaði afstöðu umboðsmanns skuldara til fyrirspurnarinnar og með tilliti til upplýsinga sem fram komu hjá embættinu er talið farsælla að áhersla verði lögð á það við fyrirhugaðar breytingar á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga að ákvæði um umsjónarmenn verði gerð ítarlegri og skýrari. Jafnframt er mikilvægt að ákvæði laganna um framkvæmd greiðsluaðlögunar verði gerð skýrari við endurskoðunina.

     2.      Hver er staða endurskoðunar laga um greiðsluaðlögun einstaklinga sem kom fram í svari þáverandi ráðherra á þskj. 781 á 148. löggjafarþingi að hefði verið ákveðið að taka þráðinn upp við á ný eftir tafir vegna tíðra stjórnarskipta þar áður?
    Undirbúningur að endurskoðun laga um greiðsluaðlögun einstaklinga er hafinn í ráðuneytinu og verður endurskoðunin gerð í samstarfi og samráði við embætti umboðsmanns skuldara. Stefnt er að því að frumvarp til breytinga á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga verði lagt fram á 154. löggjafarþingi.

     3.      Hyggst ráðherra hafa samráð við hagsmunaaðila við endurskoðun laga um greiðsluaðlögun einstaklinga og ef svo er, hverja?
    Eins og fram kemur í svari við 2. tölul. fyrirspurnarinnar fer endurskoðun laganna fram í samráði við embætti umboðsmanns skuldara. Við frumvarpsgerð er almennt víða leitað fanga og m.a. óformlegt samráð haft við aðrar opinberar stofnanir sem tengjast því málefni sem til skoðunar er hverju sinni. Ráðuneytið hefur því samráð við ýmsa aðila, opinbera og aðra, eftir því sem nauðsyn og tilefni er til hverju sinni.
    Frumvarp til breytinga á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga verður lagt fram í opið samráð í samráðsgátt stjórnvalda þannig að hver sem vill hafi tækifæri til að gera athugasemdir við frumvarpið eða koma með ábendingar um efni þess.

     4.      Hversu margir hafa sótt um greiðsluaðlögun einstaklinga frá og með árinu 2019 og hverjar hafa verið lyktir mála þeirra, sundurliðað eftir því hvort umsókn var samþykkt eða synjað, hvort greiðsluaðlögun komst á eða ekki og af hvaða ástæðum samkvæmt tilteknum lagaákvæðum eða öðrum flokkunarlyklum?
    Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað frá umboðsmanni skuldara eru umbeðnar upplýsingar eftirfarandi:

Heildarfjöldi umsókna
Fjöldi umsókna um greiðsluaðlögun einstaklinga 2019 2020 2021 2022 Samtals
349 294 180 175 998

Niðurstaða mála eftir árum
Niðurstaða 2019 2020 2021 2022 Samtals
Afturkallað 105 34 28 23
Samþykkt 105 82 79 79
Synjað 209 167 112 75
419 283 219 179 1.100
Samningar 2019 2020 2021 2022 Samtals
77 88 57 65 287

    Í 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga er fjallað um aðstæður sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 1. mgr. er að finna ákvæði sem kveða á um skyldu umboðsmanns skuldara til að synja en í 2. mgr. er að finna ákvæði sem heimila synjun ef óhæfilegt þykir að veita heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Synjunarákvæði 2019 2020 2021 2022
a-liður 1. mgr. 6. gr. lge. 10 4 3 2
b-liður 1. mgr. 6. gr. lge. 167 126 84 30
c-liður 1. mgr. 6. gr. lge. 1
d-liður 1. mgr. 6. gr. lge. 1 1
e-liður 1. mgr. 6. gr. lge. 2 1 2
a-liður 2. mgr. 6. gr. lge. 2
b-liður 2. mgr. 6. gr. lge. 47 47 30 33
c-liður 2. mgr. 6. gr. lge. 46 41 25 22
d-liður 2. mgr. 6. gr. lge. 3 2 2
e-liður 2. mgr. 6. gr. lge. 7 3 2 1
f-liður 2. mgr. 6. gr. lge. 43 44 26 17
g-liður 2. mgr. 6. gr. lge. 2 4 8 5
b-liður 12. gr. lge., sbr. 15. gr. 1
Heildarfjöldi 209 167 112 75