Ferill 675. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1559  —  675. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Birgi Þórarinssyni um skattlagningu lífeyristekna.


     1.      Hvernig er skattlagningu á lífeyri háttað hér á landi samanborið við skattlagningu lífeyristekna annars staðar á Norðurlöndum og í Bretlandi og Hollandi?
     2.      Hvað aðgreinir skattlagningu lífeyris í þessum löndum?
     3.      Að hvaða leyti er lífeyrir skattfrjáls í þessum löndum, svo sem vegna persónuafsláttar eins og á Íslandi?

    Lífeyriskerfi landa eru í eðli sínu mismunandi og ólík að uppbyggingu. Á það við um fyrirkomulag fjármögnunar, réttindaávinnslu, samspil almannatrygginga við almenna lífeyrissjóði og ótal fleiri þætti. Kerfin eiga það sameiginlegt að meginhlutverk þeirra er að tryggja afkomu og framfærslu eftir að atvinnuþátttöku og reglulegum launatekjum sleppir, allt til dánardægurs. Að sama skapi er skattlagning lífeyristekna mismunandi eftir löndum.
    Lífeyrisgreiðslur eru skattlagðar hér á landi sem tekjur við útgreiðslu og bera sömu skatthlutföll og aðrar tekjur. Það sama á við á öðrum Norðurlöndum, Bretlandi og Hollandi. Við samanburð á skattlagningu lífeyris milli landa er gjarnan horft til þriggja þátta:
          a.      skattlagningar á iðgjöldum í lífeyrissjóði,
          b.      skattlagningar á ávöxtun lífeyrissparnaðar og
          c.      skattlagningar lífeyrisgreiðslna.
    Hér má sjá töflu sem dregur þessar upplýsingar saman fyrir þau lönd sem spurt er um. Taflan er unnin upp úr samantekt frá OECD frá árinu 2021 og ber heitið Financial incentives for funded private pension plans, OECD country profiles 2021, en ítarlegar upplýsingar um skattlagningu lífeyrissparnaðarleiða í aðildarríkjum OECD er að finna í skýrslunni. Ráðuneytið býr ekki yfir upplýsingum um nýtingu persónuafsláttar vegna lífeyristekna í öðrum löndum.



Tegund lífeyrissparnaðar

Greiðendur iðgjalda

          Skattskylda

Iðgjöld Ávöxtun Lífeyrisgreiðslur
Bretland Allar tegundir Allir Ekki skattskylt Ekki skattskylt Skattskylt en undanþegið að hluta
Danmörk Ellisparnaður Allir Skattskylt Skattskylt 15,3% Ekki skattskylt
Annar sparnaður Allir Ekki skattskylt Skattskylt 15,3% Skattskylt
Finnland Valfrjáls einstaklingssparnaður Einstaklingur 30% skattafsláttur Ekki skattskylt 30%–34% skattlagning
Annar sparnaður Allir Ekki skattskylt Ekki skattskylt Skattskylt
Holland Allar tegundir Allir Ekki skattskylt Ekki skattskylt Skattskylt
Ísland Allar tegundir Allir Ekki skattskylt Ekki skattskylt Skattskylt
Noregur Starfstengdur lífeyrissparnaður Einstaklingur Skattskylt en undanþegið að hluta Ekki skattskylt Skattskylt
Starfstengdur lífeyrissparnaður Vinnuveitandi Ekki skattskylt Ekki skattskylt Skattskylt
Einstaklingslífeyrissparnaður Einstaklingur Skattskylt en undanþegið að hluta Ekki skattskylt Skattskylt en undanþegið að hluta
Starftengdur lífeyrissparnaður sjálfstæðra atvinnurekenda Einstaklingur Ekki skattskylt Ekki skattskylt Skattskylt
Svíþjóð Viðbótarsparnaður (premium pension) Einstaklingur Ekki skattskylt Ekki skattskylt Skattskylt
Annar lífeyrissparnaður Allir Ekki skattskylt Skattskylt 15% Skattskylt
     www.oecd.org/finance/private-pensions/Financial-Incentives-for-Funded-Pension-Plans-in-OECD-Countries-2021.pdf
     4.      Hefur ráðherra í hyggju að endurskoða skattlagningu lífeyris á Íslandi? Ef já, hvernig þá? Ef ekki, hvaða röksemdir eru fyrir því að gera það ekki?
    Ráðherra hefur nýverið skipað nefnd með fulltrúum frá öllum helstu bandalögum og samtökum á vinnumarkaði og nokkrum ráðuneytum um gerð grænbókar um heildarendurskoðun lífeyrissjóðakerfisins. Vonir standa til að grænbókin geti orðið grundvöllur að ítarlegri stefnumörkun og undirbúningi að breytingum á þeim lagaramma sem Alþingi setur um lífeyrismál og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Verkefni starfshópsins er að greina stöðu og framtíð lífeyrissjóðakerfisins með heildstæðum hætti og þar skiptir skattlagning bæði lífeyrisiðgjalda og greidds lífeyris vitanlega miklu máli. Í framhaldi af gerð grænbókar verður unnin stefnumörkun um breytingar á lífeyriskerfinu sem ætlað er að verða grundvöllur frumvarps sem lagt verði fyrir Alþingi.
    Að endingu má halda því til haga að það skattheimtufyrirkomulag sem viðhaft er á lífeyrissparnaði hér á landi fær hæstu einkunn í úttekt Mercer á lífeyriskerfum um allan heim.