Ferill 713. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1644  —  713. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Hönnu Katrínu Friðriksson um búfjárbeit á friðuðu eða vernduðu landi.


     1.      Hvernig mun ráðherra stuðla að vernd friðaðs lands fyrir ágangi búfjár í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis frá 11. október 2022, í máli nr. 11167/2021?
    Í fyrirspurninni er vísað í álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 11167/2021. Lög um búfjárhald, nr. 38/2013, eru til umfjöllunar í álitinu. Þau lög falla ekki undir málefnasvið umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og telur ráðuneytið því að beina eigi fyrirspurninni til matvælaráðherra.
    Hvað varðar friðlýst svæði má þó benda á að upplýsingar um landnotkun á svæðunum er að finna í friðlýsingarskilmálum. Á vef Umhverfisstofnunar er að finna upplýsingar um friðlýsingarskilmála friðlýstra svæða á Íslandi. Benda má á að almenna reglan þegar kemur að hefðbundnum nytjum er sú að þær eru áfram leyfðar eftir að svæði hafa verið friðlýst. Fer það þó eftir markmiði friðlýsingar og kemur alltaf til umfjöllunar þeirra starfshópa sem vinna að friðlýsingum. Starfshóparnir eru skipaðir fulltrúum frá Umhverfisstofnun, landeigendum og sveitarfélögum og eftir atvikum öðrum hagaðilum sem þörf er talin á að sitji í hópnum.

     2.      Hvað er ráðherra að gera til að tryggja að land sem nær ekki lágmarksviðmiðum um ástand vegna bágrar stöðu vistkerfa og jarðvegsrofs verði ekki fyrir eyðingu vegna sauðfjárbeitar, en talið er að 10–20% fjárstofnsins gangi á slíkum svæðum? Telur ráðherra nóg gert?
    Aðgerðir til að vinna að því að ná viðmiðum um ástand lands heyra undir matvælaráðherra, sbr. reglugerð nr. 511/2018, um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Því er eðlilegt að fyrirspurninni sé beint þangað. Hins vegar má benda á, í stærra samhengi náttúruverndar og landbúnaðar, að unnar hafa verið skýrslur af Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) að frumkvæði umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins sem fjalla um samþættingu landbúnaðar og náttúruverndar. Skýrslurnar voru afurð samstarfsverkefnis Bændasamtaka Íslands og ráðuneytisins, Landbúnaður og náttúruvernd (LOGN). Þar er velt upp möguleikum á náttúruverndarverkefnum sem hægt væri að vinna á landbúnaðarjörðum. Í framhaldi af því verkefni er nú að hefjast vinna hjá Umhverfisstofnun, í samvinnu við matvælaráðuneytið og Landgræðsluna, þar sem útfærð verða verkefni á sviði náttúruverndar í samvinnu við landeigendur.