Ferill 1002. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1756  —  1002. mál.




Svar


menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um könnun á sannleiksgildi.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig ætla stjórnvöld að lækka hlutfall þeirra sem kanna ekki sannleiksgildi upplýsinga í ljósi markmiðs um að „efla miðlalæsi fyrir lýðræðislega umræðu og þátttöku“ er fram kemur á bls. 299 í tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028?

    Í fjármálaáætlun 2024–2028 er að finna markmið undir málefnasviði 19, Fjölmiðlun, sem mælir fyrir um að efla eigi miðlalæsi fyrir lýðræðislega umræðu og þátttöku. Sá mælikvarði sem gefinn er upp fyrir markmiðið og er ætlað að veita innsýn í það á næstu árum hvort markmið stjórnvalda er þetta varðar náist eru rannsóknir fjölmiðlanefndar um falsfréttir og upplýsingaóreiðu. Fjölmiðlanefnd hefur það lögbundna hlutverk að efla fjölmiðlalæsi almennings, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla, og tekur m.a. þátt í tengslaneti um upplýsinga- og miðlalæsi á Íslandi (TUMI) en stofnun tengslanetsins má rekja til hins lögbundna hlutverks fjölmiðlanefndar. Með innleiðingu á breytingartilskipun hljóð- og myndmiðlunartilskipunar Evrópusambandsins nr. 2018/1808/ESB er enn frekar vikið að hlutverki fjölmiðlanefndar í þessum efnum en fjölmiðlanefnd mun fá það hlutverk að gera áætlun og ráðstafanir til að efla og þroska fjölmiðlalæsi almennings og senda þriðja hvert ár skýrslu um það til Eftirlitsstofnunar EFTA, sbr. 9. gr. fyrirliggjandi frumvarps til breytingar á fjölmiðlalögum (þskj. 1527, 979. mál). Rannsóknir fjölmiðlanefndar um falsfréttir og upplýsingaóreiðu er að finna á vef fjölmiðlanefndar, fjolmidlanefnd.is, á undirsíðunni miðlalæsi. Fjölmiðlanefnd kannaði fjölmiðla- og netnotkun og færni almennings í febrúar og mars 2021 og birti niðurstöður þeirrar könnunar í fjórum hlutum. Annar hluti birti niðurstöður er varða falsfréttir og upplýsingaóreiðu. Þar kemur fram að 23,8% svarenda aðhöfðust ekkert (könnuðu ekki sannleiksgildi frétta sem þeir höfðu séð á vefnum) þegar þeir rákust á frétt á netinu sem þeir efuðust um að væri rétt.
    Markmið stjórnvalda er að efla og þroska miðlalæsi almennings í von um að framangreind tala lækki ört, þ.e. að þeim einstaklingum fækki sem aðhafast ekkert þegar þeir sjá frétt á netinu sem ef til vill er röng eða falsfrétt, þ.e. kanna ekki sannleiksgildi hennar með því t.d. að slá efni fréttarinnar inn í leitarvél eða kanna aðrar heimildir sem þeir treysta (sjá bls. 9 í skýrslu fjölmiðlanefndar varðandi svör svarenda um viðbrögð við rangri frétt eða falsfrétt).