Ferill 961. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2036  —  961. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Evu Sjöfn Helgadóttur um meiðsli og eftirlit með íþróttastarfi barna.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Er gerð úttekt á því hvort þeir sem bjóða upp á íþróttastarfsemi fyrir börn séu með æfingar við hæfi miðað við líkamlega getu og þroska barna?
     2.      Er haldið utan um alvarleg meiðsli hjá börnum í íþróttastarfi hér á landi?
     3.      Er gerð krafa um að íþróttafélögin séu með skrá um álagsmeiðsli hjá iðkendum?
     4.      Er einhvers konar gæðaeftirlit með íþróttastarfi barna hér á landi? Ef svo er, hvernig er það framkvæmt?

    Stefna ráðuneytis íþrótta var gefin út árið 2019 og gildir til 2030. Stefna ríkisins í íþróttamálum byggist á því grundvallarsjónarmiði að almennt íþróttastarf utan skóla skuli skipulagt af frjálsum félagasamtökum.
    Íþróttahreyfingin setti sér stefnu um íþróttir barna og unglinga árið 2001. Uppfærð stefna var samþykkt á Íþróttaþingi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) árið 2015. Stefnunni er skipt upp út frá aldri iðkenda að 18 ára aldri. Stefnan fjallar um markmið starfsins, leiðir til að ná þeim, mælikvarða á árangur og hver markmið keppni barna ættu að vera á ólíkum aldursstigum. Leiðarstefið í stefnunni er að íþróttir ættu að vera fyrir alla, þær eigi að vera skemmtilegar og fjölbreyttar. Lagt er upp úr að þjálfun hæfi líkamlegum og andlegum þroska barna og ungmenna. Sérsambönd ÍSÍ og félög þeim tengd skipuleggja starfið út frá þeim ramma er stefnuyfirlýsingin markar auk þess sem sérsamböndin útfæra reglur sinnar greinar nánar. Fræðslukerfi ÍSÍ og sérsambanda sem og menntun íþróttakennara og íþróttafræðinga á háskólastigi tekur mið af þessu. Einnig er vert að nefna að fjöldi íþróttafélaga hefur hlotið viðurkenningu sem fyrirmyndarfélög ÍSÍ, en umrædd félög fylgja gæðaviðmiðum sem sambandið setur og ná þau m.a. til barnastarfs. Í gæðaviðmiðunum er lögð áhersla á að íþróttafélög bjóði upp á ábyrgt og gott starf fyrir öll börn með gleði og ánægju að leiðarljósi. Í því felst m.a. að þjálfarar hafi viðeigandi fagmenntun (t.d. íþróttafræðingar/-kennarar, þjálfaramenntun ÍSÍ og sérsambanda), börn geti tekið þátt á sínum forsendum og foreldrar taki virkan þátt í starfinu.
    Mennta- og barnamálaráðuneytið heldur ekki úti sérstökum úttektum á starfsemi íþróttafélaga og hvorki ráðuneytið né önnur stjórnvöld hafa það hlutverk að hafa gæðaeftirlit með íþróttastarfi. Ráðuneytið fylgist hins vegar m.a. með gæðum íþróttastarfs með framkvæmd Ánægjuvogarinnar, í samstarfi við UMFÍ. Niðurstöðurnar eru byggðar á könnunum Rannsókna og greiningar meðal barna í 8.–10. bekk um land allt. Nýjustu niðurstöður sem aðgengilegar eru voru kynntar 2022 og benda til þess að ánægja barna með íþróttafélög sé mikil, en 86% barna um allt land eru ánægð með íþróttafélagið sitt. Niðurstöðurnar sýna einnig að 87% barnanna finnst vanalega gaman á æfingu og 85% eru ánægð með þjálfarann sinn. Af börnunum sem könnunin var lögð fyrir voru 90% sem töldu þjálfara sinn leggja áherslu á heilbrigðan lífsstíl. Þegar kannaðar voru ástæður þess að börnin höfðu hætt að æfa íþróttir, meðal barna sem ekki voru lengur virk innan íþróttafélaga, sögðust 63% þeirra ekki hafa hætt vegna þess að æfingarnar hefðu verið of erfiðar.
    Hvað varðar meiðsli sem gerast í íþróttum er haldið utan um skráningu slysa hjá Embætti landlæknis. Hér er um að ræða skráningu slysa í almannatryggingakerfinu og má þar lesa út tölur um íþróttaslys greint niður á aldur og kyn. Ekki er hægt að greina á milli íþróttaslysa í skipulögðu starfi íþróttafélaga og slysa sem einstaklingar verða fyrir við íþróttaiðkun sem þeir sjálfir skipuleggja í sínum frítíma. Slys eru einnig flokkuð út frá því hvort um slys í skóla eða á heimili, vinnu eða í öðrum frítíma sé að ræða. Ekki er sérstaklega greint á milli alvarleika slysa. Samkvæmt upplýsingum frá embættinu er unnið að endurskoðun slysaskrár og verður ný slysaskrá sett á laggirnar þegar þeirri endurskoðun er lokið.