Ferill 1049. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2268  —  1049. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Hönnu Katrínu Friðriksson um tollflokkun pitsuosts.


     1.      Hvernig hyggst ráðherra bregðast við mati Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO) um að rétt tollflokkun pitsuosts, sem blandaður hefur verið með jurtaolíu, sé í 21. kafla tollskrárinnar sem er tollfrjáls en ekki í 4. kafla sem ber 30% verðtoll og 836 kr./kg magntoll við innflutning?
    Niðurstaða tollflokkunarráðs WCO um að tollflokkun á umræddum pitsuosti ætti heima í 21. kafla tollskrár frekar en 4. kafla tollskrár lá fyrir síðari hluta marsmánaðar sl. Niðurstaðan var ekki afgerandi þar sem m.a. tvö af stærstu ríkjum heims, Bandaríkin og Kína, töldu að tollflokka ætti ostinn í 21. kafla tollskrár á meðan önnur ríki, m.a. Evrópuríkin, töldu að tollflokka ætti hann í 4. kafla tollskrár. Á Íslandi liggur fyrir endanleg niðurstaða dómstóla hvernig umræddri tollflokkun skuli háttað og fær niðurstaða tollflokkunarráðs WCO því ekki breytt. Þá eru mörg fordæmi fyrir því að einstök ríki kjósi að fara ekki eftir einstaka niðurstöðum tollflokkunarráðsins. Ef breyta ætti núverandi framkvæmd á umræddri tollflokkun þyrfti slíkt að gerast með lagasetningu sem krefst aðkomu annarra ráðuneyta svo sem matvælaráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins auk Skattsins.

     2.      Hver er afstaða ráðherra til þess ósamræmis sem varð til í hagtölum milli Íslands og Evrópusambandsins eftir að pitsuostur með jurtaolíu var færður úr 21. kafla í 4. kafla tollskrár? Hvernig samrýmist það markmiðum hins samræmda vöruflokkunarkerfis að mati ráðherra?
    Misræmi í inn- og útflutningsgögnum milli ríkja getur orðið af mörgum sökum og aldrei er það svo að þau stemmi alfarið. Fyrir því eru margar ástæður á borð við tímatöf sendinga, ólíka aðferðafræði er viðkemur tollvörugeymslum og frísvæðum, ónákvæma landaflokkun (Rotterdam-áhrifin) og mannleg mistök. Íslensk stjórnvöld eru sem fyrr segir bundin af niðurstöðu íslenskra dómstóla um tollflokkun vörunnar sem hér um ræðir. Það liggur í hlutarins eðli að þegar ólíkur skilningur er á milli þjóða um hvar skuli tollflokka einstaka vörur þá getur það valdið misræmi í hagtölum og stangast á við markmið hins samræmda vöruflokkunarkerfis. Sú skekkja er alþekkt og hvorki bundin við Ísland og viðskiptaríki þess né þessa tilteknu vöru.

     3.      Hver er afstaða ráðherra til þess að ráðuneytið hafi hvorki upplýst dómara né aðila í málum nr. E-2209/2021 fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og nr. 462/2021 fyrir Landsrétti um tilvist bréfa sem hefðu rennt frekari stoðum undir málflutning gagnaðila ríkisins?
    Fjármála- og efnahagsráðuneytið afhenti öll fyrirliggjandi gögn málsins bæði til málsaðila og ríkislögmanns þegar málið var til meðferðar hjá dómstólum. Í nóvembermánuði 2021, þ.e. eftir að málsmeðferð fyrir Landsrétti var hafin, barst ráðuneytinu ásamt ríkislögmanni, þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, utanríkisráðuneyti, Hagstofunni, Ríkisendurskoðun og ríkislögmanni tölvupóstur frá Skattinum. Í tölvupóstinum var að finna tvenns konar gögn sem Skatturinn hafði aflað, annars vegar bréf frá Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um þeirra afstöðu til tollflokkunar umrædds pitsuosts með hliðsjón af tollflokkun belgískra tollyfirvalda og hins vegar bréf skrifstofu WCO um þeirra sjónarmið á tollskrártúlkun. Íslensk stjórnvöld eru hvorki bundin af áliti Evrópusambandsins né tollflokkun belgískra tollyfirvalda, líkt og tekið er fram í dómsniðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2209/2021. Þá var í báðum gögnunum bent á heimild íslenskra stjórnvalda til að bera ágreining um tollflokkun umrædds pitsuosts undir tollflokkunarráð WCO og jafnframt var sérstaklega áréttað í bréfi WCO að tollflokkunarráð WCO þyrfti að eiga lokaorðið um slíka tollskrártúlkun. Augljóst var þar af leiðandi frá upphafi að hvorugt gagnanna hefði þýðingu fyrir úrlausn málsins sem til meðferðar var hjá Landsrétti auk þess sem ríkislögmaður hafði þegar fengið gögnin afhent eins og fyrr segir.