Ferill 296. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 769  —  296. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur um skilamat á þjónustu talsmanna umsækjenda um alþjóðlega vernd.


     1.      Á hvaða lagagrundvelli byggist hið faglega skilamat á frammistöðu talsmanna umsækjenda um alþjóðlega vernd sem Útlendingastofnun framkvæmir samkvæmt vefsíðu stofnunarinnar?
    Í auglýsingu sem birtist 3. mars 2022 á vefsíðunni utbodsvefur.is var talsmannaþjónusta fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd boðin út. Var lögfræðingum/lögmönnum boðið að sækja um að sinna hlutverki talsmanns í gegnum heimasíðu Útlendingastofnunar þar sem nánari samningsskilmála er að finna. Í auglýsingunni kom fram að gæðaeftirlit yrði með störfum talsmanna og var það hluti af útboðsferlinu. Hið faglega skilamat er sett til að tryggja megi gæði þjónustunnar sem stofnunin kaupir, bæði til handa stofnuninni sem greiðanda þjónustunnar og fyrir umsækjendur sem njóta þjónustunnar á grundvelli laga um útlendinga, nr. 80/2016, og reglugerðar um útlendinga, nr. 540/2017.

     2.      Á hvaða viðmiðum, kröfum og sjónarmiðum er slíkt mat byggt?
    Í 1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, kemur fram að talsmaður umsækjanda um alþjóðlega vernd skuli vera lögfræðingur með þekkingu á málum er lúta að alþjóðlegri vernd og flóttafólki. Í 2. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga, nr. 540/2017, segir nánar að talsmaður skuli hafa lokið embættisprófi eða grunn- og framhaldsprófi í lögfræði eða hafa öðlast málflutningsréttindi. Í lögum eða reglugerð er ekki að finna frekari hæfniskilyrði sem talsmenn þurfa að fullnægja en að mati ráðuneytisins verður ekki af þeim sökum litið svo á að stofnuninni sé óheimilt að gera frekari kröfur til talsmanna. Slíkar kröfur verða þó að vera málefnalegar og í skýrum tengslum við það starf sem um ræðir. Við mat á frammistöðu talsmanna lítur Útlendingastofnun m.a. til þess hvort starfshættir talsmanns hafi stuðlað að skilvirkri málsmeðferð og sanngjarnri afgreiðslu, hvort viðtöl og gagnaafhending hafi einkennst af fagmennsku og samviskusemi og hvort talsmaður hafi brugðist vel við ef fram komu ábendingar um annmarka sem bæta þyrfti úr.

     3.      Hversu oft hefur slíkt mat farið fram frá birtingu leiðbeininga á vefsíðu stofnunarinnar vorið 2022?
    Matið er viðvarandi og bregst Útlendingastofnun við þeim ábendingum sem berast hverju sinni.

     4.      Hversu oft hefur slíkt mat leitt til þess að ábendingum hafi verið beint til talsmanns eða hann verið fjarlægður af lista stofnunarinnar yfir talsmenn umsækjenda um alþjóðlega vernd?
    Þegar Útlendingastofnun hefur talið nægilega ríka ástæðu til að haft sé samband við talsmann vegna athugasemda sem borist hafa um störf hans er viðkomandi aðila sendur tölvupóstur og honum veitt færi á að tjá sig. Þegar ábendingar gefa ekki tilefni til að haft sé samstundis samband við talsmann eru þær vistaðar hjá stofnuninni og ef það berast fleiri ábendingar þá er haft samband við talsmanninn og honum gefið tækifæri á að svara ábendingum og koma með skýringar. Útlendingastofnun heldur ekki tölfræði yfir það hversu oft ábendingum hefur verið komið á framfæri við talsmenn. Í tvö skipti hafa ábendingar um talsmenn þó leitt til þess að þeir hafa verið fjarlægðir alfarið af talsmannalista stofnunarinnar. Í báðum tilfellum hafði stofnunin haft samband við umrædda aðila oftar en einu sinni og þeim verið veitt færi á að tjá sig vegna athugasemda sem borist höfðu um störf þeirra. Þá hafa ábendingar leitt til þess að talsmenn hafa sjálfir óskað eftir því að vera fjarlægðir af lista stofnunarinnar.

     5.      Í þeim tilvikum sem ábendingum hefur verið beint til talsmanns, hvers efnis hafa slíkar ábendingar verið?
    Yfirstjórn Útlendingastofnunar berast af og til ábendingar frá starfsmönnum og umsækjendum varðandi störf talsmanna. Ábendingar af þessu tagi geta verið af mismunandi toga, t.d. athugasemdir á þá leið að tiltekinn talsmaður hafi sýnt af sér ókurteisi í samskiptum við starfsmann og að honum hafi láðst að skila inn greinargerð eða kæra ákvörðun innan veitts frests með tilheyrandi réttarspjöllum fyrir umsækjanda. Eins hefur komið fyrir að athugasemdir hafi borist frá aðilum utan stofnunarinnar, svo sem umsækjendum sjálfum, sem hafa t.d. kvartað undan sinnuleysi skipaðra talsmanna.

     6.      Er það afstaða Útlendingastofnunar að þjónusta talsmanna, sem skipaðir eru af stofnuninni, sé fyrst og fremst við stofnunina sjálfa?
    Þegar lögfræðingur/lögmaður er skipaður til að vera talsmaður umsækjanda um alþjóðlega vernd þá undirrita bæði starfsmaður Útlendingastofnunar og umsækjandi skipunarbréfið. Útlendingastofnun er þjónustukaupandi, enda greiðir stofnunin reikninga talsmanna, en það er fyrst og fremst umsækjandi sjálfur sem nýtur þjónustu talsmannsins og er því gríðarlega mikilvægt að sú þjónusta sé bæði áreiðanleg og traust.