Ferill 407. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 943  —  407. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Dagbjörtu Hákonardóttur um virði kvennastarfa.

     1.      Hver er staðan á vinnu aðgerðahóps um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði sem forsætisráðherra skipaði 13. desember 2021?
    Aðgerðahópur um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði er skipaður fulltrúum frá ASÍ, BSRB, BHM, KÍ, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti. Formaður aðgerðahóps var skipaður af forsætisráðherra án tilnefningar.
    Skýrslu aðgerðahóps var skilað til forsætisráðherra í janúar 2024.

     2.      Hefur verið ráðist í þróunarverkefni í þeim tilgangi að stuðla að framþróun og aukinni þekkingu á vinnumarkaði við framkvæmd virðismats á störfum samkvæmt tillögum starfshóps um endurmat á virði kvennastarfa frá árinu 2021?
    Ein af tillögum skýrslu starfshóps um endurmat á virði kvennastarfa var að koma á fót þróunarverkefni um mat á virði starfa í því skyni að útrýma launamun sem skýrist af kynjaskiptum vinnumarkaði og kerfisbundnu vanmati á hefðbundnum kvennastörfum.
    Aðgerðahópur um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði sem skipaður var í árslok 2021 hélt sinn fyrsta fund 14. janúar 2022. Fljótlega eftir að hópurinn tók til starfa var ákveðið að fara í vinnu með fjórum ríkisstofnunum með það að markmiði að vinna þróunarverkefni um mat á virði starfa til að skapa verkfæri sem fangaði jafnvirðisnálgun jafnréttislaga. Horft var til þess að þróunarverkefnið stuðlaði að framþróun og þekkingu á vinnumarkaði við framkvæmd virðismats á störfum í samræmi við jafnlaunaákvæði jafnréttislaga. Til að afmarka og vinna með markmið verkefnisins með skipulegum hætti kom Kjara- og mannauðssýsla ríkisins (KMR), sem annast kjarasamningsgerð fyrir hönd ríkisins í umboði fjármála- og efnahagsráðherra, inn í verkefnið og lagði til sérfræðiþekkingu og tíma sérfræðinga í vinnu með stofnununum fjórum.
    Farið var í samstarf við Jafnlaunastofu en Jafnlaunastofa er rekin af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg sem hafa átt í samstarfi á sviði jafnlaunamála og starfsmats um langt skeið. Jafnlaunastofa var með fræðslu sem laut almennt að virðismati, íslensku jafnréttislögunum og dómaframkvæmd, auk áherslna Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO).
    Við val á samstarfsstofnunum var horft til fjölbreytileika starfa, m.a. út frá kynjuðu starfsvali. Grunnskilyrði voru:
          *      Vinnustaður er með jafnlaunavottun í samræmi við kröfur jafnlaunastaðals (ÍST 85: 2012).
          *      Á vinnustaðnum starfa stéttir þar sem hlutfall kvenna er a.m.k. 65%.
          *      Á vinnustaðnum starfa stéttir þar sem hlutfall karla er a.m.k. 65%.
          *      Vinnustaður telur a.m.k. 35 stöðugildi starfsfólks.
          *      Á vinnustaðnum starfar starfsfólk sem hefur ólíka starfaflokkun og ólíka dreifingu ábyrgðar. Er þar átt við fleiri en eitt lag af stjórnendum.
          *      Stjórnendur vinnustaðar eru opnir fyrir endurskoðun á mati á störfum og þróun á nýju virðismatskerfi sem fangar jafnvirðisnálgun laga og tryggir launajafnrétti á vinnumarkaði.
          *      Vinnustaðir, starfsfólk og stéttarfélög eru jákvæð fyrir endurskoðun á mati á störfum og þróun á nýju virðismatskerfi sem fangar jafnvirðisnálgun laga og tryggir launajafnrétti á vinnumarkaði.
          *      Vinnustaður hefur eða er reiðubúinn til að endurskoða ferla í víðu samhengi og greina gögn með gagnsæjum hætti í þágu verkefnisins.
    Stofnanirnar sem þáðu boð um þátttöku voru:
          *      Hafrannsóknastofnun
          *      Heilbrigðisstofnun Vestfjarða
          *      Ríkislögreglustjóri
          *      Tryggingastofnun

     3.      Hefur verið þróuð samningaleið um jafnlaunakröfur einstaklinga í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins að nýsjálenskri fyrirmynd eða önnur leið sem er til þess fallin að tryggja sífellda leiðréttingu kjara kvennastétta, svo sem með samkomulagi um launaþróunartryggingu?
    Aðgerðahópur um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði ákvað á fyrstu fundum sínum sumarið 2022 að beina sjónum fyrst og fremst að þróunarverkefni um mat á virði starfa. Hópurinn taldi það afar mikilvægt verkefni auk þess sem á grunni þess og niðurstaðna verði unnið að fræðslu, ráðgjöf og auknu samtali til að auka vitund um jafnvirðisnálgun jafnréttislaga.
    Þróun samningaleiðar hefur því ekki verið verkefni aðgerðahóps sérstaklega. Að öðru leyti er vísað í skýrslu aðgerðahóps um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði sem birt var á vefsíðu forsætisráðuneytis hinn 26. janúar sl. þar sem ein af tillögum aðgerðahóps lýtur m.a. að þróun samningaleiðar.

     4.      Hefur verið mótaður sérstakur farvegur aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda til að afhjúpa kerfisbundið vanmat kvennastétta í launum og leiðréttingar þar á?

    Með skipan forsætisráðherra á aðgerðahópi um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði varð til farvegur til að skoða aðgerðir sem hefðu það að markmiði að meta virði starfa með vísan í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninga við aðildarfélög BSRB í mars 2020. Í yfirlýsingunni segir m.a. að með vísan til áherslna sem komu fram við kjarasamningsgerðina verði sett af stað vinna við endurmat á störfum kvenna. Ein af tillögum aðgerðahóps um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði er m.a. að til verði samningaleið að nýsjálenskri fyrirmynd undir verkstjórn ríkissáttasemjara. Í því felst að komið verði á aðgengilegri samningaleið til að fjalla um jafnlaunakröfur einstaklinga. Þá lagði hópurinn til að stofnað yrði til samstarfsverkefnis um heildstætt virðismatskerfi sem er langtímaverkefni sem byggja þarf á þekkingu og reynslu af slíkum kerfum hér á landi og erlendis.

     5.      Hefur verið lagt mat á þann kostnað sem viðbúið er að muni fylgja leiðréttingu á vanmati á virði kvennastarfa?
    Ekki liggur fyrir kostnaðarmat á þeirri leiðréttingu sem um er spurt. Rétt er að taka fram að í skýrslu aðgerðahóps um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði er lagt til að unnið verði áfram með þátttökustofnununum fjórum í áframhaldandi mati allra starfa og farið í launagreiningu þar sem markmið verði m.a. að meta kostnað við leiðréttingu hópa, ef til þess kemur.