Ferill 937. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1384  —  937. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um listamannalaun, nr. 57/2009 (nýir sjóðir og fjölgun úthlutunarmánaða).

Frá menningar- og viðskiptaráðherra.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                 Starfslaun listamanna skulu veitt úr eftirtöldum sjóðum:
              a.      launasjóði hönnuða,
              b.      launasjóði myndlistarmanna,
              c.      launasjóði rithöfunda,
              d.      launasjóði sviðslistafólks,
              e.      launasjóði tónlistarflytjenda,
              f.      launasjóði tónskálda,
              g.      launasjóði kvikmyndahöfunda,
              h.      Vexti, sjóði fyrir listamenn undir 35 ára,
              i.      Vegsemd, sjóði fyrir listamenn 67 ára og eldri.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                 Stjórn listamannalauna hefur yfirumsjón með sjóðunum. Sérstakar nefndir annast úthlutun starfslauna úr sérgreindum launasjóðum skv. a–g-lið 1. mgr. og gera tillögur um úthlutanir úr þverfaglegum sjóðum skv. h- og i-lið 1. mgr.

2. gr.

    Í stað orðanna „1.600 mánaðarlaun eða 133,33 árslaun“ í 5. gr. laganna kemur: 2.670 mánaðarlaun.

3. gr.

    Í stað „50“ í 1. mgr. 6. gr. laganna kemur: 100.

4. gr.

    Í stað „435“ í 1. mgr. 7. gr. laganna kemur: 630.

5. gr.

    Í stað „555“ í 1. mgr. 8. gr. laganna kemur: 685.

6. gr.

    Í stað „190“ í 1. mgr. 9. gr. laganna kemur: 280.

7. gr.

    Í stað „180“ í 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: 255.

8. gr.

    Í stað „190“ í 1. mgr. 11. gr. laganna kemur: 260.

9. gr.

    Á eftir 11. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar, 11. gr. a – 11. gr. c, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:

    a. (11. gr. a.)

Launasjóður kvikmyndahöfunda.

    Launasjóður kvikmyndahöfunda veitir árlega starfslaun og styrki sem svara til 100 mánaðarlauna.
    Þriggja manna nefnd sem ráðherra skipar árlega úthlutar fé úr launasjóði kvikmyndahöfunda. Samtök kvikmyndaleikstjóra og Félag leikskálda og handritshöfunda skulu hvor um sig tilnefna þrjá nefndarmenn. Ráðherra skipar þrjá aðalmenn og þrjá varamenn út frá tilnefningunum. Úthlutunarnefndin skiptir með sér verkum.

    b. (11. gr. b.)

Vöxtur.

    Vöxtur er launasjóður sem veitir árlega starfslaun og styrki sem svara til 180 mánaðarlauna til listamanna undir 35 ára aldri sem starfa við þær listgreinar sem launasjóðir skv. a–g-lið 2. gr. taka til.
    Úthlutunarnefndir launasjóða skv. 6.–11. gr. og 11. gr. a tilnefna árlega listamenn sem koma til greina við úthlutun úr sjóðnum. Stjórn listamannalauna tekur afstöðu til tilnefninga og úthlutar fé úr Vexti.
    Þrátt fyrir 1. mgr. 12. gr. skulu starfslaun úr Vexti að hámarki veitt til 12 mánaða í senn.

    c. (11. gr. c.)

Vegsemd.

    Vegsemd er launasjóður sem veitir árlega starfslaun og styrki sem svara til 180 mánaðarlauna til listamanna 67 ára og eldri sem starfa við þær listgreinar sem launasjóðir skv. a–g-lið 2. gr. taka til.
    Úthlutunarnefndir launasjóða skv. 6.–11. gr. og 11. gr. a tilnefna árlega listamenn sem koma til greina við úthlutun úr sjóðnum. Stjórn listamannalauna tekur afstöðu til tilnefninga og úthlutar fé úr Vegsemd.
    Þrátt fyrir 1. og 4. mgr. 12. gr. er heimilt að veita starfslaun úr Vegsemd til allt að fimm ára í senn. Ákvæði 3. mgr. 4. gr. gildir ekki um starfslaunaþega í Vegsemd.

10. gr.

    Í stað tilvísunarinnar „6.–11. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laganna kemur: 6.–11. gr. og 11. gr. a – c.

11. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða:
    Þrátt fyrir ákvæði 5. gr. skulu samanlögð starfslaun miðast við 1.780 mánaðarlaun á árinu 2025, 2.070 mánaðarlaun á árinu 2026 og 2.370 mánaðarlaun á árinu 2027.
    Þrátt fyrir 6.–11. gr. og 11. gr. a – 11. gr. c skal á árunum 2025, 2026 og 2027, eftir því sem við á, veita starfslaun úr launasjóðum sem svara til fjölda mánaðarlauna eins og hér segir:
     a.      Launasjóður hönnuða skal veita starfslaun og styrki sem svara til 50 mánaðarlauna á árinu 2025 og 75 mánaðarlauna á árinu 2026.
     b.      Launasjóður myndlistarmanna skal veita starfslaun og styrki sem svara til 435 mánaðarlauna á árinu 2025, 490 mánaðarlauna á árinu 2026 og 540 mánaðarlauna á árinu 2027.
     c.      Launasjóður rithöfunda skal veita starfslaun og styrki sem svara til 555 mánaðarlauna á árinu 2025, 600 mánaðarlauna á árinu 2026 og 640 mánaðarlauna á árinu 2027.
     d.      Launasjóður sviðslistafólks skal veita starfslaun og styrki sem svara til 190 mánaðarlauna á árinu 2025, 205 mánaðarlauna á árinu 2026 og 240 mánaðarlauna á árinu 2027.
     e.      Launasjóður tónlistarflytjenda skal veita starfslaun og styrki sem svara til 180 mánaðarlauna á árinu 2025, 195 mánaðarlauna á árinu 2026 og 230 mánaðarlauna á árinu 2027.
     f.      Launasjóður tónskálda skal veita starfslaun og styrki sem svara til 190 mánaðarlauna á árinu 2025, 205 mánaðarlauna á árinu 2026 og 240 mánaðarlauna á árinu 2027.
     g.      Launasjóður kvikmyndahöfunda skal veita starfslaun og styrki sem svara til 60 mánaðarlauna á árinu 2025.
     h.      Vöxtur skal veita starfslaun og styrki sem svara til 60 mánaðarlauna á árinu 2025, 100 mánaðarlauna á árinu 2026 og 140 mánaðarlauna á árinu 2027.
     i.      Vegsemd skal veita starfslaun og styrki sem svara til 60 mánaðarlauna á árinu 2025, 100 mánaðarlauna á árinu 2026 og 140 mánaðarlauna á árinu 2027.

12. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. koma breytingar á úthlutun listamannalauna fyrst til framkvæmda á árinu 2025 og eftir því sem fram kemur í 11. gr.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið í menningar- og viðskiptaráðuneyti en undirbúningur að gerð þess hófst í mennta- og menningarmálaráðuneyti. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar, sem fram kemur í sáttmála stjórnarflokkanna um ríkisstjórnarsamstarf, að unnið skuli að því að styrkja faglega starfslauna- og verkefnasjóði listamanna með sérstakri áherslu á að starfslaunin tryggi betur afkomu þeirra sem starfa í listum eða við skapandi greinar. Breytingarnar fela í sér fjölgun launasjóða sem starfslaun eru veitt úr og fjölgun árlegra úthlutunarmánaða.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
2.1. Almennt um listamannalaun og þróun þeirra.
    Listamannalaun eða starfslaun listamanna eru þungamiðjan í kjörum listamannsins. Markmið listamannalauna er að efla listsköpun í landinu. Listamenn sem sækja um starfslaun starfa við frumsköpun.
    Saga starfslauna nær allt aftur til 1891 þegar Alþingi samþykkti að veita skáldalaun. Stuðningur við listamenn nær allt til síðustu áratuga 19. aldar með einstökum fjárveitingum til þeirra. Árin 1886 og 1887 var til að mynda Guðrúnu Waage veittur styrkur til að nema sönglist og árið 1891 var Matthíasi Jochumssyni veitt skáldalaun og Torfhildi Hólm var veittur styrkur til ritstarfa. Lög um listamannalaun voru hins vegar fyrst sett árið 1967 og um áratug síðar voru sett lög um launasjóð rithöfunda. Þessi tvenn lög voru leyst af hólmi með nýjum lögum um listamannalaun sem sett voru árið 1991 og síðan með gildandi lögum frá 2009. Frá setningu þeirra hafa lögin ekki sætt efnislegri endurskoðun fyrr en nú.
    Á fyrsta áratug þessarar aldar voru í tvígang lagðar fram tillögur um breytingar á fyrirkomulagi starfslauna listamanna. Árið 2001 var skipaður starfshópur sem lagði m.a. fram breytingar þess efnis að Listasjóður yrði lagður niður og stofnaðir þrír nýir sjóðir: Tónlistarsjóður, Sviðslistasjóður og Hönnunarsjóður. Enn fremur lagði hópurinn til umtalsverða fjölgun mánaðarlauna í öllum launasjóðunum á þriggja ára tímabili. Nokkrum árum síðar lagði stjórn listamannalauna fram greinargerð þar sem lagðar voru til breytingar á lögunum sem hnigu mjög í sömu átt. Stjórnin lagði eindregið til fjölgun þeirra mánaðarlauna sem yrðu til ráðstöfunar við úthlutun starfslauna.
    Nú eru starfslaun listamanna veitt úr alls sex sjóðum, launasjóði hönnuða, launasjóði myndlistarmanna, launasjóði rithöfunda, launasjóði sviðslistafólks, launasjóði tónlistarflytjenda og launasjóði tónskálda. Sérstakar úthlutunarnefndir fyrir hvern launasjóð eru skipaðar árlega þremur fulltrúum viðkomandi heildarsamtaka og annast þær árlega úthlutun starfslauna úr sjóðunum samkvæmt ákvæðum laganna.

2.2 Tilefni endurskoðunar.
    Með frumvarpinu sæta ákvæði laga um listamannalaun efnislegri endurskoðun í fyrsta skipti frá setningu þeirra árið 2009. Slík endurskoðun er nauðsynleg í ljósi þeirra breytinga sem orðið hafa síðan þá, m.a. í ljósi fólksfjölgunar, launaþróunar og áherslna í listsköpun.
    Listsköpun er afar mikilvæg hverri þjóð og nauðsynlegt að kjör listamanna haldist í horfi við kjör annarra í hagkerfinu. Frá setningu laganna hafa ekki orðið breytingar á þeim fagsjóðum sem listamannalaun eru veitt úr og frá árinu 2012 hefur umfang listamannalauna staðið í stað utan tímabundinnar aukningar á tímum heimsfaraldurs kórónuveiru. Mikilvægt er að umfang og fyrirkomulag listmannalauna sé endurmetið reglulega, m.a. með tilliti til fólksfjölgunar í landinu, áherslna í listsköpun og eftirspurnar eftir listamannalaunum og árangurshlutfalls umsækjenda í mismunandi sérgreinda sjóði.

2.3. Vinna við endurskoðun laganna.
    Frumvarpið byggist m.a. á vinnu og niðurstöðum starfshóps sem skipaður var af fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra þar sem sæti áttu fulltrúar ráðuneytisins og fulltrúar frá Bandalagi íslenskra listamanna. Tillögur starfshópsins byggjast m.a. á vinnu frá Listþingi BÍL um starfslaun og verkefnasjóði listamanna sem bandalagið stóð fyrir í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið 25. nóvember árið 2018.
    Samtal um kjör listamanna hélt svo áfram á árlegum fundi ráðherra og BÍL 8. nóvember 2019 og aftur árið 2020. Auk þess hefur BÍL haldið fundi og unnið að breytingatillögum sem hafa tekið mið af því sem hefur komið fram í samtölum þvert á allar listgreinar undanfarin ár og byggjast þær á skoðunum, reynslu og þekkingu þess stóra hóps listamanna sem starfar í þessu umhverfi og reiðir sig á starfslaun og sjóði til að koma hugmyndum sínum og verkefnum í framkvæmd.
    Starfslaunasjóðurinn er grunnstoð i. starfsumhverfi listamanna. Listamannalaun hækkuðu um 4,6% við úthlutun ársins 2022. Samhliða því var sett sérstök 100 millj. kr. hækkun samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2022 til að hækka listamannalaun. Með því hækkaði hver mánaðargreiðsla um 62.500 kr. og voru listamannalaun 490.920 kr. á mánuði það ár. Starfslaun voru 507.500 kr. árið 2023 og eru nú 538.000 kr. Um verktakagreiðslur er að ræða og þurfa listamenn því sjálfir að standa skil á opinberum gjöldum og lífeyrisgreiðslum vegna þeirra.
    Niðurstaðan af framangreindri vinnu var að ekki myndi aðeins duga að fjölga mánuðum heldur þyrfti einnig að gera kerfisbreytingu. Því er í þessu frumvarpi lagt til að settir verði á fót tveir nýir þverfaglegir sjóðir, ætlaðir ungum listamönnum annars vegar og eldri listamönnum hins vegar, auk eins nýs sérgreinds sjóðs fyrir kvikmyndahöfunda. Þá er lagt til að mánuðum til úthlutunar verði fjölgað úr 1.600 í 2.670 í áföngum.

3. Meginefni frumvarpsins.
3.1. Almennt.
    Meginefni frumvarpsins er tvíþætt:
     1.      Stofnaðir verði þrír nýir sjóðir sem listamannalaun eru veitt úr; sjóður kvikmyndahöfunda, Vöxtur, sjóður fyrir listamenn yngri en 35 ára, og Vegsemd, sjóður fyrir listamenn 67 ára og eldri.
     2.      Þeim mánaðarlegu starfslaunum sem koma til úthlutunar árlega verði fjölgað úr 1.600 í 2.670 í áföngum.

3.2. Nýir sjóðir.
    Samkvæmt gildandi lögum eru starfslaun listamanna veitt úr sex sjóðum, þ.e. launasjóðum hönnuða, myndlistarmanna, rithöfunda, sviðslistafólks, tónlistarflytjenda og tónskálda. Í kvikmyndastefnu stjórnvalda til ársins 2030 er lagt til að komið verði á fót nýjum launasjóði kvikmyndahöfunda, sbr. c-lið aðgerðar 9, sem leikstjórum og handritshöfundum verði gert kleift að sækja um starfslaun úr. Með frumvarpinu er lagt til að slíkum sjóði verði komið á fót. Þá er lagt til að komið verði á fót tveimur nýjum þverfaglegum sjóðum; Vexti, sjóði fyrir listamenn undir 35 ára aldri, og Vegsemd, sjóði fyrir listamenn yfir 67 ára aldri. Vexti er ætlað að styðja sérstaklega við unga listamenn sem hafa ekki enn skapað sér styrka stöðu innan sinnar listgreinar. Markmið sjóðsins er að auka nýliðun og efla unga listamenn sem kunna að vera nýlega komnir úr námi eða að hefja sinn starfsferil. Er þessum sjóði m.a. ætlað að koma til móts við þá gagnrýni sem heyrst hefur, að lítil nýliðun sé innan kerfisins. Vegsemd er sérstakur, þverfaglegur sjóður fyrir eldri listamenn sem hafa varið starfsævi sinni til listsköpunar og skarað fram úr á sínu sviði. Til lengri tíma litið getur slíkur sjóður tekið við hlutverki heiðurslauna listamanna, sbr. lög nr. 66/2012, en þó er slík breyting ekki lögð til í þessu frumvarpi að svo stöddu heldur verður hann nauðsynleg viðbót við heiðurslaunasjóðinn. Talið er að ávinningur af því að setja á fót þessa nýju sjóði sé m.a. að kerfinu utan um starfslaun listamanna verði komið í betra jafnvægi við starfsferil listamanna, kerfið muni stuðla að aukinni nýliðun og opna aðgengi fyrir unga listamenn og með nýjum sjóði fyrir eldri listamenn muni þeir sem hafa átt langan og farsælan feril geta öðlast öruggar tekjur til lengri tíma.

3.2. Fjölgun úthlutunarmánaða.
    Gildandi lög gera ráð fyrir að samanlögð starfslaun miðist við 1.600 mánaðarlaun sem dreifist á milli hinna sérgreindu sjóða. Með frumvarpinu er lagt til að árlegum mánaðarlaunum til úthlutunar fjölgi varanlega upp í 2.670. Fjölgunin komi til framkvæmda í skrefum á árunum 2025–2028 í samræmi við eftirfarandi töflu:

Launasjóður:

2024

2025

2026

2027

2028

Hönnuðir

50

50

75

100

100

Myndlistarmenn

435

435

490

540

630

Rithöfundar

555

555

600

640

685

Sviðslistafólk

190

190

205

240

280

Tónlistarflytjendur

180

180

195

230

255

Tónskáld

190

190

205

240

260

Kvikmyndahöfundar

0

60

100

100

100

Vöxtur

0

60

100

140

180

Vegsemd

0

60

100

140

180

Samtals:

1.600

1.780

2.070

2.370

2.670


    Við mat á því hvernig þeim mánuðum sem bætast við til úthlutunar skyldi dreift milli sjóða var litið til umfangs hvers sjóðs samkvæmt gildandi lögum og til talna Rannís frá síðustu tíu árum um fjölda umsókna í hvern sjóð og árangurshlutfall umsókna miðað við bolmagn hvers sjóðs til að veita starfslaun. Á undanförnum tíu árum hefur árangurshlutfallið að meðaltali verið hæst hjá launasjóði rithöfunda, eða 22%, en lægst hjá launasjóði hönnuða og launasjóði sviðslistafólks, eða 11%. Árangurshlutfall annarra sjóða er á bilinu 14–16%. Í frumvarpinu er lagt til að fjöldi úthlutunarmánuða launasjóðs hönnuða aukist mest, eða tvöfaldist, en að úthlutunarmánuðum launasjóðs rithöfunda fjölgi minnst, eða um um það bil um fjórðung.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á kerfi sem alllengi hefur verið til staðar um veitingu opinberra styrkja til listamanna samkvæmt ákveðnum forsendum og horfa einkum til aukningar í takt við vöxt samfélagsins og fjölgunar sjóða í samræmi við þarfir listageirans og áherslur í listsköpun. Frumvarpið er ekki talið fela í sér álitaefni sem kalli á sérstaka umfjöllun um samræmi þess við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.

5. Samráð.
    Vinna við frumvarpið byggist m.a. á samráði við Bandalag íslenskra listamanna og niðurstöðum Listþings sambandsins um starfslaun og verkefnasjóði listamanna frá 25. nóvember 2018, líkt og nánar er rakið er í kafla 2.3.
    Drög að frumvarpinu voru birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is á tímabilinu 15.–21. mars (mál nr. S-86-2024). Alls bárust á fjórða tug umsagna. Í flestum tilfellum lýstu umsagnaraðilar ánægju með frumvarpið og mæltu með framgangi þess. Í öðrum umsögnum kom fram að opinberu fé væri betur varið til annarra verka. Þá komu fram efnislegar ábendingar á borð við að jafnframt þyrfti að endurskoða fjárhæð mánaðarlegra starfslauna þar sem þau væru undir lágmarkslaunum og að tilefni væri til að stofna fleiri sérgreinda sjóði, til að mynda sjóð fyrir bókmyndahöfunda. Þá komu fram athugasemdir við dreifingu mánaða eftir sjóðum.
    Ábendingar í umsögnum í samráðsgátt urðu ekki til þess að frumvarpið tæki breytingum. Aftur á móti munu þær nýtast stjórnvöldum í áframhaldandi stefnumótun á sviðinu.

6. Mat á áhrifum.
6.1. Fjárhagsleg áhrif.
    Frumvarpið felur í sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð á málefnasviði 18 vegna þeirrar fjölgunar á mánaðarlegum starfslaunum sem koma árlega til úthlutunar. Þá hefur fjölgun sjóða í för með sér aukinn umsýslukostnað, sbr. 4. mgr. 3. gr. laga um listamannalaun, en fyrirkomulagi úthlutana úr nýjum þverfaglegum sjóðum með aðkomu stjórnar listamannalauna er m.a. ætlað að draga úr aukningu hans.
    Gert er ráð fyrir að mánaðarlegum starfslaunum sem koma til úthlutunar árlega fjölgi úr 1.600 í 2.670, eða samtals um 1.070 mánuði. Sú breyting ásamt auknum umsýslukostnaði starfslaunakerfisins er talin fela í sér um 600 millj. kr. árlegan kostnaðarauka á verðlagi fjárlaga fyrir árið 2024 þegar nýtt fyrirkomulag er að fullu komið til framkvæmda.
    Gert er ráð fyrir að breytingarnar taki gildi í skrefum á næstu fjórum árum. Fyrsta árið (2025) fjölgi mánuðum til úthlutunar samtals um 180 og hefur sú fjölgun í för með sér um 97 millj. kr. kostnaðarauka fyrir ríkissjóð. Árið 2026 er gert ráð fyrir að árlegum úthlutunarmánuðum fjölgi um 290 til viðbótar, sem hefur í för með sér um 156 millj. kr. árlegan kostnaðarauka fyrir ríkissjóð. Næstu tvö árin þar á eftir, 2027 og 2028, fjölgi úthlutunarmánuðum um 300 hvort ár, sem hefur í för með sér um 160 millj. kr. kostnaðarauka fyrir ríkissjóð hvort ár. Þá er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta kostnaði við það að koma nýjum sjóðum á fót og við rekstur kerfisins í breyttri mynd. Lagt er til að varanleg aukning framlaga í málaflokkinn komi til framkvæmda í skrefum á árunum 2025–2028:
    2025: 124 millj. kr.
    2026: 280 millj. kr.
    2027: 440 millj. kr.
    2028: 600 millj. kr.

6.2. Önnur áhrif.
    Frumvarpið hefur jákvæð áhrif á listsköpun í samræmi við markmið laga um listamannalaun. Því er ætlað að auka veg listsköpunar og bæta hag þeirra sem leggja við hana stund. Með tilkomu nýs sérgreinds sjóðs kvikmyndahöfunda eykst fjölbreytni þeirra listgreina sem njóta opinbers stuðnings fyrir tilstilli starfslaunakerfisins. Tilkoma nýrra þverfaglegra sjóða styrkir annars vegar grundvöll nýliðunar í viðkomandi listgreinum og veitir hins vegar viðurkenningu og tryggir afkomu þeirra sem reyndari eru og hafa helgað sig listinni. Aukin listsköpun, meiri fjölbreytni og bætt starfsöryggi þeirra sem listina stunda er talin leiða af sér jákvæð áhrif á lýðheilsu og samfélagið í heild.
    Hvað jafnrétti snertir verður þess gætt að úthlutunarnefnd hins nýja sérgreinda sjóðs verði skipuð með tilliti til jafnréttissjónarmiða, sbr. m.a. 28. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020. Að öðru leyti hafa breytingarnar sem kveðið er á um í frumvarpinu ekki í för með sér eðlisbreytingu á gildandi kerfi heldur einkum viðbætur við það. Listamannalaunum er úthlutað af faglegum úthlutunarnefndum og þeim viðbótum sem kveðið er á um með frumvarpinu verður úthlutað með tilliti til jafnréttissjónarmiða líkt og öðrum listamannalaunum. Vel er haldið utan um tölfræðiupplýsingar um úthlutun listamannalauna og eru þær m.a. greindar eftir kynjum. Upplýsingar þar um má finna tíu ár aftur í tímann á vef Rannís.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Með greininni er lagt til að þrír nýir sjóðir bætist við tilgreiningu á þeim sjóðum í 2. gr. laganna sem starfslaun listamanna skulu veitt úr. Í fyrsta lagi er um að ræða nýjan sérgreindan sjóð, launasjóð kvikmyndahöfunda, sem leikstjórar og handritshöfundar geta sótt um úthlutun úr. Stofnun sjóðsins er í samræmi við c-lið aðgerðar 9 í kvikmyndastefnu til ársins 2030. Í öðru lagi er um að ræða þverfaglegan sjóð, Vöxt, sem ætlaður er listamönnum undir 35 ára aldri. Í þriðja lagi er um að ræða þverfaglegan sjóð, Vegsemd, sem ætlaður er listamönnum sem náð hafa 67 ára aldri. Gert er ráð fyrir að sérstök nefnd annist úthlutun starfslauna úr launasjóði kvikmyndahöfunda líkt og við á um aðra sérgreinda sjóði samkvæmt lögunum. Stjórn listamannalauna úthluti úr þverfaglegu sjóðunum á grundvelli tilnefninga frá úthlutunarnefndum sérgreindu sjóðanna. Nánar er fjallað um nýju sjóðina í skýringum við 9. gr. frumvarpsins.

Um 2. gr.

    Greinin kveður á um heildarfjölda þeirra starfslaunamánaða sem koma til úthlutunar árlega. Lagt er til að fjöldinn hækki úr 1.600 skv. gildandi lögum í 2.670. Samsvarar það 222,5 árslaunum en ástæðulaust þykir að taka það fram í lögunum. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði sem lagt er til að bætist við lögin, sbr. 11. gr. frumvarpsins, kemur hækkunin til framkvæmda í skrefum fram til ársins 2028.

Um 3.–8. gr.

    Með greinunum er kveðið á um hvernig fjölgun þeirra mánaðarlegu starfslauna sem koma til úthlutunar árlega deilist á milli þeirra sérgreindu launasjóða sem starfandi eru eftir listgreinum samkvæmt gildandi lögum. Greinarnar skoðast þannig í samræmi við 9. gr. þar sem kveðið er á um einn nýjan sérgreindan sjóð og tvo nýja þverfaglega sjóði. Fjölgun mánaða kemur til framkvæmda í skrefum á árunum 2025–2028, í samræmi við það sem kveðið er á um í 11. gr. frumvarpsins, sbr. skýringu við þá grein.

Um 9. gr.

    Með a-lið er lagt til að komið verði á fót nýjum sérgreindum launasjóði sem veiti styrki til kvikmyndahöfunda, þ.e. leikstjóra og handritshöfunda. Stofnun sjóðsins er hluti af kvikmyndastefnu stjórnvalda til ársins 2030, sbr. c-lið aðgerðar 9. Sjóðurinn hafi 100 mánuði til úthlutunar árlega, sem komi til framkvæmda í skrefum á árunum 2025 og 2026 í samræmi við bráðabirgðaákvæði, sbr. 11. gr. frumvarpsins. Þriggja manna sértæk úthlutunarnefnd úthluti fé úr sjóðnum líkt og á við um aðra sérgreinda sjóði samkvæmt lögunum. Félag leikskálda og handritshöfunda annars vegar og Samtök kvikmyndaleikstjóra hins vegar tilnefna í úthlutunarnefndina. Gert er ráð fyrir að hvor aðili um sig tilnefni þrjá fulltrúa og að ráðherra skipi þrjá aðalmenn og þrjá varamenn út frá tilnefningunum, að teknu tilliti til óska tilnefningaraðilanna þar um eins og við verður komið. Úthlutunarnefndin skipti sjálf með sér verkum, líkt og við á um aðrar úthlutunarnefndir starfslauna. Skv. 1. mgr. 13. gr. laganna er ráðherra heimilt að kveða nánar á um tilhögun tilnefninga í reglugerð.
    Með b-lið er lagt til að komið verði á fót nýjum þverfaglegum sjóði fyrir unga listamenn, sem beri nafnið Vöxtur. Sjóðurinn hafi 180 mánuði til úthlutunar, sem komi til framkvæmda í skrefum í samræmi við bráðabirgðaákvæði, sbr. 11. gr. frumvarpsins. Ekki er gert ráð fyrir að listamenn sæki beint um framlög úr sjóðnum heldur að listamenn undir 35 ára aldri sæki um úthlutun úr hinum sérgreindu sjóðum í samræmi við þá listgrein sem þeir stunda. Úthlutunarnefndir sérgreindu sjóðanna tilnefni árlega unga listamenn sem þær telja að eigi erindi til úthlutunar úr Vexti. Stjórn listamannalauna taki afstöðu til þessara tilnefninga og ákvarði úthlutanir úr sjóðnum. Lagt er til að starfslaun úr Vexti verði að hámarki veitt til 12 mánaða í senn.
    Með c-lið er lagt til að komið verði á fót nýjum þverfaglegum sjóði fyrir eldri listamenn, sem beri heitið Vegsemd. Sjóðurinn hafi 180 mánuði til úthlutunar, sem komi til framkvæmda í skrefum í samræmi við bráðabirgðaákvæði, sbr. 11. gr. frumvarpsins. Ekki er gert ráð fyrir að listamenn sæki beint um framlög úr sjóðnum heldur að listamenn 67 ára og eldri sæki um úthlutun úr hinum sérgreindu sjóðum í samræmi við sína listgrein. Úthlutunarnefndir sérgreindu sjóðanna tilnefni árlega eldri listamenn sem þær telja að eigi erindi til úthlutunar úr Vegsemd. Stjórn listamannalauna taki afstöðu til þessara tilnefninga og ákvarði úthlutanir úr sjóðnum. Lagt er til að starfslaun úr Vegsemd megi veita til allt að 5 ára í senn. Þá er lagt til að ákvæði 3. mgr. 4. gr. laganna, um að starfslaunaþegum beri að skila skýrslu um störf sín á starfslaunatíma og að fella megi niður starfslaun ef talið er að viðkomandi listamaður sinni ekki list sinni, gildi ekki um þá sem þiggja starfslaun úr Vegsemd.

Um 10. gr.

    Greinin felur í sér tæknilega breytingu á tilvísun til greina sem fjalla um launasjóði listamanna í samræmi við fjölgun þeirra með þremur nýjum greinum, 11. gr. a, 11. gr. b og 11. gr. c.

Um 11. gr.

    Gert er ráð fyrir að þær breytingar sem kveðið er á um með frumvarpi þessu og varða fjölgun úthlutunarmánaða listamannalauna, komi til framkvæmda í skrefum á árunum 2025–2028. Breytingarnar á lagaákvæðum skv. 1.–9. gr. frumvarpsins lýsa því sem gilda skal frá og með árinu 2028 þegar breytingarnar koma að fullu til framkvæmda. Þó kemur endanlegur fjöldi úthlutunarmánaða til framkvæmda í launasjóði hönnuða frá og með árinu 2027 og í launasjóði kvikmyndahöfunda frá og með árinu 2026. Í bráðabirgðaákvæði við lögin er lagt til að lýst verði fyrirkomulaginu eins og því mun hátta árin 2025–2027, verði frumvarpið að lögum. Fjöldi mánaðarlegra starfslauna sem koma til úthlutunar, skipt eftir sjóðum, verður í samræmi við töflu í kafla 3.2 árin 2024–2028, verði frumvarpið samþykkt.

Um 12. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi en að fram verði tekið að sú aukning á úthlutun listamannalauna sem þau kveða á um komi fyrst til framkvæmda á árinu 2025 og síðan í skrefum næstu ár á eftir samkvæmt fyrirmælum 11. gr. og eins og nánar er lýst í frumvarpinu, m.a. í umfjöllun um 11. gr. Með þessu móti er tryggt að ráðherra geti hafið undirbúning þeirra breytinga sem felast í frumvarpinu þegar við samþykkt frumvarpsins, svo sem með því að kalla eftir tilnefningum fyrir úthlutunarnefnd nýs sérgreinds launasjóðs kvikmyndahöfunda og með því að semja við umsýsluaðila um umsýslu nýrra sjóða.