Ferill 785. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1754  —  785. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Katrínu Sigríði J. Steingrímsdóttur um vistun barna í lokuðu búsetuúrræði.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver er skoðun ráðherra á því að lögfest verði heimild til að vista börn í lokuðu búsetuúrræði, líkt og kveðið er á um í fyrirhuguðu frumvarpi til laga um lokað búsetuúrræði sem kynnt hefur verið í samráðsgátt stjórnvalda?
     2.      Hefur ráðherra kynnt sér áhrifin sem það kann að hafa á börn að sæta frelsisskerðingu?
     3.      Í hvaða tilvikum telur ráðherra vistun barns í lokuðu búsetuúrræði geta samræmst skilyrði frumvarpsins, barnalaga og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins um að það sem er barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang?
     4.      Hver er skoðun ráðherra á því að í frumvarpinu sé lagt til að óheimilt verði að vista fylgdarlaus börn í lokuðu búsetuúrræði en ríkisstjórnin hyggist þó láta önnur börn sæta þeirri meðferð?


    Á undanförnum árum hefur farið fram umræða um lokuð búsetuúrræði fyrir útlendinga hér á landi og um mögulegar lagabreytingar í því efni. Sambærileg umræða hefur farið fram í ýmsum nágrannaríkjum okkar. Meðal annars vegna þess er til mikið af upplýsingum um réttindi barna í lokuðum úrræðum fyrir útlendinga, þar á meðal efni sem hefur verið unnið á vettvangi Evrópuráðsins, UNHCR og UNICEF auk þess sem Mannréttindadómstóll Evrópu hefur tekið mál barna í lokuðum úrræðum til umfjöllunar, bæði barna sem eru í fylgd með fjölskyldu og fylgdarlausra barna. Góð þekking á þessum málum er í mennta- og barnamálaráðuneytinu.
    Í janúar á þessu ári kynnti dómsmálaráðherra drög að frumvarpi til laga um lokað búsetuúrræði í samráðsgátt stjórnvalda, sbr. mál nr. S-10/2024. Markmið með kynningu mála í samráðsgátt er að auka gagnsæi og möguleika almennings og hagsmunaaðila á þátttöku í stefnumótun, reglusetningu og ákvarðanatöku opinberra aðila og voru margir aðilar sem létu sig málið varða og sendu umsögn í gegnum samráðsgáttina. Þann 20. febrúar sl. kynnti ríkisstjórnin heildarsýn í útlendingamálum ásamt aðgerðum í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd, flóttafólks og innflytjenda. Meðal þessara aðgerða er að koma á fót búsetuúrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd þar sem umsækjendur fá stuðning og upplýsingar sem miða að því að tryggja öryggi þeirra á öllum stigum málsmeðferðarinnar.
    Þar sem frumvarpið er í vinnslu er ekki tímabært að hafa skoðun á einstaka útfærslum í áðurnefndum frumvarpsdrögum en í áframhaldandi vinnu munu fulltrúar mennta- og barnamálaráðuneytis halda sjónarmiðum barna á lofti og ganga á eftir því að réttindi barna séu tryggð í hvívetna.