Ferill 662. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1770  —  662. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 92/2019 (rekstraröryggi greiðslumiðlunar).

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.

    Fyrsti minni hluti fagnar því að loksins sé komið fram frumvarp sem felur í sér að veita Seðlabanka Íslands heimildir til reglusetningar á sviði greiðslumiðlunar og að rekstraröryggi fjármálainnviða verði styrkt. Bankinn fær heimildir, verði frumvarpið að lögum, til að setja reglur sem auka viðnámsþrótt, öryggi og virkni greiðslumiðlunar hér á landi. Heimildir Seðlabankans í þessum efnum eru mikilvægar til að fyrirbyggja og bregðast við hvers konar ófyrirséðum aðstæðum í greiðslumiðlun sem kynnu að hafa áhrif á viðnámsþrótt, öryggi og virkni greiðslumiðlunar hér á landi. Aukin samkeppni á þessu sviði er líkleg til að skila sér í minni kostnaði og betri þjónustu við neytendur. Með auknu hagræði í viðskiptum sem fara fram með greiðslukortum, skýrum greiðsluferlum og samskiptaleiðum, auknum viðnámsþrótti og frekari nýtingu á innlendum innviðum greiðslumiðlunar með reikning í reikning-greiðsluleið má skila ábata til neytenda.

Neytendavernd og þjóðaröryggi.
    Notkun greiðslukorta og greiðslumiðlunar hér á landi er margfalt dýrari en í nágrannaríkjunum. Það er einkum vegna þess að við erum háð erlendum aðilum. Heimildargjöf og uppgjör innlendra debetkorta fer fram erlendis.
    Íslenskir neytendur eru ekki bara að greiða til íslenskra banka heldur borga þeir einnig til Visa og Mastercard í útlöndum. Hagnaður bankanna af þessu fyrirkomulagi hleypur á milljörðum en fyrirkomulagið er okkur neytendum mjög kostnaðarsamt því að allir milliliðir vilja sitt á öllum stöðum. Við borgum meira en aðrir fyrir dýrar lausnir sem uppfylla ekki öll öryggisskilyrði.
    Ef ekkert er að gert mun það fyrirkomulag sem við búum við ógna þjóðaröryggi líkt og Már Guðmundsson, þá Seðlabankastjóri, benti á árið 2019 með bréfi til þjóðaröryggisráðs. Fjármálastöðugleikanefnd hefur síðan þá mörgum sinnum áréttað í yfirlýsingum sínum mikilvægi þess að auka öryggi í innlendri greiðslumiðlun til að tryggja rekstrarsamfellu og vísað m.a. til vaxandi netógnar.
    Þjóðaröryggisráð hefur ítrekað fjallað um málið og bent á að tryggja þurfi fullnægjandi innlenda óháða smágreiðslulausn þar sem greiðslur og uppgjör fari fram á innviðum undir innlendri stjórn og sé ekki háð fjarskiptum til og frá landinu.
    Við þurfum sjálfstæðar og óháðar greiðslulausnir. Lausnir sem eru bæði ódýrari en þær sem við búum við og öruggari. Krafan ætti að vera sú að ávallt séu til staðar virkar lausnir sem lúta í einu og öllu íslenskri löggjöf um eignarhald, umráða- og notkunarrétt og eru algjörlega óháðar inngripum erlendra aðila sem gætu ógnað innlendri greiðslumiðlun og fjármálastöðugleika. Bæði þarf að auka samfélagslegan ábata og tryggja þjóðaröryggi.
    Traust og örugg greiðslumiðlun er ein undirstaða virkni hagkerfisins og efnahagslegrar velsældar. Á undanförnum árum hefur áhætta vegna greiðslukerfa á Íslandi aukist. Aukin ógn á heimsvísu sem snýr að netöryggismálum, stríðsástand í Evrópu og aukinn sundrung á alþjóðavísu hefur aukið enn á þörf fyrir bættan viðnámsþrótt greiðslukerfa.
    Málið varðar ekki einungis þjóðaröryggi heldur einnig hag almennings og leiðir til að auka samfélagslegan ábata.
    Um samfélagslegan ábata af kerfislega mikilvægum innviðum er fjallað um í hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem kom út árið 2018. Þar segir m.a. þetta: „Meta þarf hvaða kerfislega mikilvægu innviðir eigi að standa utan samkeppnisumhverfis til að tryggja þjóðhagsvarúð og hagkvæmni í bankakerfinu. Skoða má hvort æskilegt sé að stjórnvöld gangi lengra í viðleitni til að auka samfélaglegan ábata af samstarfi í innviðum.“ Undir þetta sjónarmið tekur 1. minni hluti.

Nágrannaríki og stefnuyfirlýsing ESB.
    Í greinargerð með frumvarpinu er umfjöllun um hvað nágrannaríki okkar eru að gera í þessum efnum. Öll eru þau að styrkja lagaumhverfi og heimildir til að tryggja örugga greiðslumiðlun innan hvers ríkis fyrir sig.
    Einnig kemur fram í greinargerðinni að Evrópusambandið ræðir örugga greiðslumiðlun í stefnuyfirlýsingu sinni um smágreiðslumiðlun, greiðslumiðlun sem ætlað er að ýta undir evrópskar lausnir sem séu öruggar og skilvirkar og mæti auknum áskorunum um sjálfsstjórn Evrópu á þessum sviðum. Ekki sé tryggt að treysta eingöngu á alþjóðlega aðila sem muni ekki eða geti ekki tekið að fullu leyti þarfir evrópskra notenda greiðsluþjónustu til greina. Enn fremur sé ekki hægt að útiloka að spenna í alþjóðamálum geti haft neikvæð áhrif á snurðulausa virkni evrópskra greiðslukerfa. Til viðbótar getur það að vera háð örfáum stórum greiðsluþjónustuveitum leitt til skorts á samkeppni sem kemur niður á neytendum. Þess vegna sé mikilvægt að hanna evrópska lausn og stoppa í þær glufur sem nú eru til staðar.
    Við þetta má bæta að forsætisnefnd Norðurlandaráðs hefur samþykkt að beina þeim tilmælum til ríkisstjórna Norðurlanda að koma á sameiginlegu norrænu greiðslukerfi. Á Norðurlöndum búa í dag u.þ.b. 27 milljónir manna og sem heild eru löndin sterk á alþjóðavettvangi. Ef leitað væri norrænna lausna, svo sem á greiðslumiðlun, fylgdi því ávinningur því að ódýrara og öruggara væri að gera hlutina saman en hver í sínu horni.
    Mjög mikilvægt er að Ísland dragist ekki aftur úr og við verðum að taka með lagasetningu á undirliggjandi áhættu sem tengist greiðslumiðlun.

Breytingartillögur meiri hlutans.
    Fyrsti minni hluti tekur undir með Neytendasamtökunum, sem fram kom m.a. í umsögn samtakanna þegar frumvarpið var í samráðsgátt, um að það sé hagsmunamál fyrir neytendur að efla og auka samkeppni á markaði. Neytendasamtökin bentu einnig á að huga þyrfti sérstaklega að hagkvæmni innlendrar óháðrar smágreiðslulausnar og neytendavernd við útfærslu hennar.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að fella á brott ákvæði í 2. gr. frumvarpsins um „gjald fyrir afnot af innviðum og mörk á gjaldtöku af hálfu greiðsluþjónustuveitenda.“ Seðlabanki Íslands á og rekur alla greiðslumiðlun milli banka og sparisjóða á Íslandi. Þessi háttur er viðhafður í öllum löndum, þ.e. seðlabankar sem gefa út viðkomandi gjaldmiðil eru þeir einu sem annast að endingu greiðsluuppgjör fyrir viðkomandi gjaldmiðil. Aðgengi banka og sparisjóða að þessum kerfum er forsenda þess að þeir fái starfsleyfi. Bankar og sparisjóðir greiða undantekningarlaust fyrir aðgengi að kerfunum. Seðlabanka Íslands er eins og öðrum seðlabönkum óheimilt að selja þessa þjónustu með hagnaðarsjónarmið að leiðarljósi en gjaldtakan miðast aðeins og eingöngu við raunkostnað við rekstur kerfanna. Að taka út heimild til gjaldtöku sem byggist á raunkostnaði fyrir sameiginlegan innvið í þágu alls fjármálakerfisins, með öryggi og hagkvæmi að leiðarljósi, getur ekki talist eðlilegt.
    Tilgangur þessa ákvæðis er einnig að gæta að neytendum þannig að með reglum verði hægt að takmarka kostnað sem lagður verði á viðskiptavini banka vegna millifærslna.
    Fyrsti minni hluti leggst gegn þessari breytingu á frumvarpinu enda er rík ástæða til að gæta að neytendum í þessum efnum.

    Að teknu tilliti til framangreinds styður 1. minni hluti frumvarpið óbreytt.

Alþingi, 31. maí 2024.

Oddný G. Harðardóttir.