Ferill 1089. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1810  —  1089. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Halldóru Mogensen um aðgengi einstaklinga á einhverfurófi að geðheilsuteymi taugaþroskaraskana.


     1.      Hver er markhópur geðheilsuteymis taugaþroskaraskana?
    Markhópur geðheilsuteymis taugaþroskaraskana eru einstaklingar, 18 ára og eldri, með alvarlegar taugaþroskaraskanir, fyrst og fremst einstaklingar með þroskahömlun. Hluti hópsins er með einhverfu auk samþætts vanda tengdan fötlun sinni, svo sem flogaveiki, CP og/eða hreyfihömlun. Einstaklingarnir þurfa síðan að vera með klínískan geðrænan vanda og/eða krefjandi hegðun. Einstaklingar með þroskahömlun hafa samkvæmt rannsóknum a.m.k. fjórum sinnum hærri tíðni geðraskana og/eða hegðunarraskana en almennt þýði. Þessi hópur þarf sérhæfða þverfaglega nálgun þar sem fyrir liggur þekking og reynsla á grunnfötlun og geðrænum vanda. Geðlyfjameðferð er algeng í þessum hópi. Geðheilsuteymi taugaþroskaraskana var sett á laggirnar til að sinna þessum hópi. Meðferðartími er lengri en almennt gerist vegna sérstöðu hópsins og vegna mikilvægis umtalsverðrar samvinnu við stuðningsaðila í lögbundinni velferðarþjónustu.

     2.      Hver er skilgreining á taugaþroskaröskun?
    Algeng skilgreining er að taugaþroskaraskanir séu heiti yfir ýmsar raskanir þar sem grunnvandi er oftast meðfætt ástand, kemur fram snemma í bernsku og hefur áhrif á þroska miðtaugakerfis viðkomandi einstaklings. Hugtakið er því einhvers konar regnhlífarhugtak yfir ýmsar raskanir. Þroski einstaklingsins víkur því frá almennum þroska. Slíkur vandi birtist m.a. í einkennum sem tengjast vitrænum þáttum, stýrifærni, aðlögunarfærni, samskiptafærni, félagsfærni, hreyfifærni og hegðun. Algeng dæmi um slíkar raskanir eru einhverfa, ADHD og þroskahömlun.

     3.      Hvaða skilyrði þurfa einstaklingar að uppfylla til að komast að hjá geðheilsuteymi taugaþroskaraskana?
    Einstaklingar þurfa að vera orðnir 18 ára, vera með staðfesta þroskahömlun samkvæmt ICD-10 greiningarkerfinu og með klínískan geðrænan vanda og/eða erfiða hegðun sem þarft er að skoða og meta hvort sé vegna klínísks geðræns vanda.

     4.      Hversu margar umsóknir hafa borist geðheilsuteymi taugaþroskaraskana vegna einstaklinga með röskun á einhverfurófi, hversu margar voru samþykktar og hversu mörgum var synjað?
    Teymið hefur starfað í þrjú ár. Frá upphafi hafa borist 497 tilvísanir til teymisins en í einhverjum tilfellum hefur sama einstaklingi verið vísað aftur til teymis ef um bakslag í bata hans er að ræða. Af heildarfjölda tilvísana hefur 276 verið vísað frá og 217 tilvísanir verið samþykktar. A.m.k. þriðjungur þeirra sem komið hafa til meðferðar í teyminu eru með greinda röskun á einhverfurófi auk þroskahömlunar og annars vanda.
     5.      Á hvaða forsendum var umsóknum einstaklinga með röskun á einhverfurófi synjað um þjónustu geðheilsuteymis taugaþroskaraskana?
    Þær tilvísanir sem teymið vísar frá eru vegna einstaklinga sem ekki uppfylla þau skilmerki að vera með klínískan geðrænan vanda auk staðfestrar þroskahömlunar. Þar er helst um að ræða eftirfarandi hópa:
     _      Einstaklingar með geðrænan vanda sem eru með frávik í vitsmunaþroska sem þó ná ekki greiningarviðmiðum fyrir þroskahömlun.
     _      Einstaklingar með geðrænan vanda og samþættan taugaþroskavanda án þroskahömlunar, svo sem einstaklingar með ADHD, Tourette-heilkenni eða röskun á einhverfurófi.
     _      Einstaklingar á einhverfurófi sem eru með geðrænan vanda en ekki vitsmunalega skerðingu.
    Auk þess er einstaklingi vísað frá ef ljóst þykir að hann þarf fyrst og fremst meiri stuðningsþjónustu út frá lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018. Er þá ljóst að tilvísunarvandi tengist skorti á stuðningsþjónustu fremur en að um sé að ræða klíniskan geðrænan vanda.

     6.      Hversu margir bíða eftir að komast að hjá geðheilsuteymi taugaþroskaraskana?
    Hinn 8. maí 2024 eru 36 einstaklingar sem bíða eftir að komast að í meðferð.

     7.      Í hvaða þjónustu er þeim sem fá synjun um þjónustu geðheilsuteymis taugaþroskaraskana vísað?
    Ef tilvísun uppfyllir ekki innvalsskilmerki geðheilsuteymis taugaþroskaraskana er henni hafnað og tilvísandi heilbrigðisstarfsmaður upplýstur um afgreiðslu málsins. Tilvísandi fagaðili ber ábyrgð á að koma máli einstaklings í viðeigandi farveg, hvort heldur með því að gera tilvísun í geðheilbrigðisþjónustu á fyrsta stigi (sálfræðiþjónustu í heilsugæslu), öðru stigi (geðheilsuteymi á viðeigandi heilbrigðisstofnun) eða þriðja stigi (Sjúkrahúsið á Akureyri eða Landspítali). Þá geta einstaklingar fengið geðheilbrigðisþjónustu hjá sjálfstætt starfandi geðlæknum eða sálfræðingum á grundvelli samnings þeirra við Sjúkratryggingar Íslands.

     8.      Hvernig er aðgengi einstaklinga með röskun á einhverfurófi að öðrum geðheilsuteymum háttað?
    Á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) eru annars vegar starfrækt sérhæfð geðheilsuteymi; geðheilsuteymi ADHD, geðheilsuteymi fangelsa, Heilaörvunarmiðstöð og Geðheilsumiðstöð barna, en þau taka á móti öllum tilvísinum, óháð greiningum. Hins vegar eru starfrækt á vegum HH almenn geðheilsuteymi (suður, austur og vestur) og taka þau ekki við tilvísunum fyrir einstaklinga sem greindir eru með einhverfu, heldur leggja til við tilvísanda að beina þeim tilvísunum í annan farveg, ýmist innan heilbrigðisþjónustu eða félagsþjónustu. Almennu teymin framkvæma ekki einhverfurófsgreiningar en að mati fagfólks í teymunum eru um 20% einstaklinga í meðferð hjá teymunum á hverjum tíma með ógreinda einhverfu eða önnur frávik í taugaþroska.
    Geðheilsuteymi starfa á öllum sex heilbrigðisstofnunum á landsvísu.