Ferill 1053. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1890  —  1053. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um sölu rafmagnsbíla.


     1.      Hvaða áhrif hefur hrun í sölu rafmagnsbíla á fyrsta ársfjórðungi 2024 á áætlanir ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum?
    Minnkun í sölu rafmagnsbíla á fyrsta ársfjórðungi 2024 er áhyggjuefni hvað það varðar að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og ná markmiðum í loftslagsmálum. Mikilvægt er að stjórnvöld ráðist í aðgerðir sem tryggi að hlutfall hreinorkubíla af heildarbifreiðaflota haldi áfram að aukast eins og það hefur gert síðustu ár.
    Einnig er mikilvægt að leggja áherslu á að þrátt fyrir ýmsar breytingar á gjöldum vegna rafmagnsbíla síðustu misseri er áfram mun hagstæðara að vera á rafmagnsbíl heldur en hefðbundnum jarðefnaeldsneytisbíl. Þetta sýna allar greiningar eins og t.d. þær sem hægt er að finna á vegirokkarallra.is og í rafbílareikni Orkuseturs. 1
    Vinna við uppfærða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er á lokametrunum og verður hún birt bráðlega. Þar eru nýjar aðgerðir sem eiga að tryggja að fjöldi rafbíla í heildarflotanum minnki ekki. Einnig er vert að minnast á að sömuleiðis hefur orðið hrun í sölu á bílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti, þó að sala rafbíla hafi minnkað meira, og mikilvægt er að líta til þess í samhengi við heildarflotann.

     2.      Hyggst ráðherra bregðast við þessari nýju stöðu með einhverjum hætti? Ef svo er, hvernig? Ef ekki, hvers vegna ekki?
    Í undirbúningi er að vinna að tillögum frá Orkusjóði til að bregðast við þessari nýju stöðu. Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um til hvaða úrræða verður gripið. Síðustu vikur hefur rafbílasala aftur verið að glæðast nokkuð og vonir standa til að það haldi áfram.
    Einnig voru nýverið auglýstir styrkir úr Orkusjóði fyrir vörubíla sem ganga fyrir hreinorku, sem er mjög mikilvægt skref til að ná samdrætti í losun þar sem þær bifreiðar losa hlutfallslega mjög mikið af gróðurhúsalofttegundum.

1     orkusetur.is/reiknivelar/samgongur/rafbilareiknir/