Ferill 1055. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1892  —  1055. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um ávinning sjálfvirknivæðingar og gervigreindar.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur farið fram vinna í ráðuneytinu til að tryggja að eðlilegur hluti þess ávinnings sem verður af fyrirséðu hagræði vegna gervigreindar annars vegar og sjálfvirknivæðingar hins vegar skili sér til almennings? Ef svo er ekki, stendur það til?

    Það er grundvallaratriði í störfum ráðuneytisins að nýta tækniframfarir til að efla starfsemina, auka afköst og bæta nýtingu skattfjár. Formleg greining hefur ekki verið framkvæmd í ráðuneytinu á ávinningi af hagræði vegna gervigreindar og sjálfvirknivæðingar. Aftur á móti er ljóst að í þróuninni felast umtalsverð tækifæri til að halda áfram að bæta opinberan rekstur og þjónustu við almenning og auka samkeppnishæfni íslensks samfélags. Áfram verður unnið að umbótum þess efnis í ráðuneytinu á kjörtímabilinu.
    Við stefnumótun innan Stjórnarráðsins um fjórðu iðnbyltinguna og gervigreind undanfarin misseri hefur verið litið til þessa samhliða öðrum samfélagslegum áhrifum þróunarinnar. Í því samhengi má nefna nánari greiningar í skýrslu nefndar um fjórðu iðnbyltinguna frá árinu 2019 og stefnu Íslands um gervigreind sem ráðuneytið gaf út árið 2021. Þar kemur fram að samhliða framleiðniaukningu og öðrum tækifærum sem vænta megi, þurfi að gæta þess að gervigreind sé notuð í allra þágu og að hugað sé að félagslegum afleiðingum breytinganna.