Ferill 1100. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1920  —  1100. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Sigmari Guðmundssyni um starfsemi afeitrunardeildar fyrir ólögráða ungmenni á Landspítala.


     1.      Hversu mikið fjármagn er eyrnamerkt fyrir afeitrunardeild fyrir ólögráða ungmenni, 33D, sem er sérhæfð fíknigeðdeild í húsi geðþjónustu Landspítala á Hringbraut?
    Á verðlagi 2024 eru 176 m.kr. á ársgrunni eyrnamerktar afeitrunardeild ólögráða ungmenna og miðast við fjárveitingu sem afgreidd var til sviða árið 2021 þegar verkefnið kom til Landspítala.

     2.      Hversu mörg stöðugildi eru í deildinni og hversu margar vinnustundir voru skráðar á hana síðastliðið ár?
    Árið 2023 voru greidd stöðugildi 4,43 á afeitrunardeild ólögráða ungmenna. Í dag eru heimiluð stöðugildi á deildinni 7,0 talsins en ráðið er í 4,32 stöðugildi. Á árinu 2023 voru unnar stundir 8.003 talsins, þar af 229 yfirvinnustundir.
    Starfsemistölur hafa gefið mjög skýra vísbendingu um að nýting deildarinnar yrði mun minni en gert var ráð fyrir í upphafi. Var því mönnunarlíkani hennar breytt, dregið var úr mönnun en ávallt tryggt að hægt væri að þjónusta ungmenni sem þyrftu innlögn á deildina. Með því hefur skapast svigrúm sem hefur verið nýtt til að styrkja þjónustuna við notendur meðferðareiningar fíknisjúkdóma. Mönnun legudeildar og göngudeildar fíknisjúkdóma hefur verið styrkt og Laufeyjarteymið eflt, en það er lítið samfélagsgeðteymi sem sinnir einstaklingum með tvígreindan vanda, þ.e. alvarlegan fíknivanda og alvarlegan geðsjúkdóm. Sá hópur er í mjög mikilli þjónustuþörf í öllu heilbrigðis-, félags- og dómskerfinu.

     3.      Hversu margar innlagnir hafa verið á deildina síðastliðið ár og hversu margar þeirra voru í þeim tilgangi að afeitra einstaklinga?
    Innlagnir á afeitrunardeild ólögráða ungmenna árið 2023 voru fjórar, allar til afeitrunar.

     4.      Hver er meðaltími innlagnar vegna afeitrunar á deildina?
    Meðaltími innlagnar vegna afeitrunar á deildina eru tveir dagar.

     5.      Í hvaða formi er stuðningur og ráðgjöf til ungmenna sem leggjast inn á deildina?
    Miðað er við innlagnartíma í einn til þrjá sólarhringa. Þverfaglegt teymi sinnir notendum. Fráhvarfseinkenni eru metin og fylgst með lífsmörkum. Geðrænt ástand er metið og boðið er upp á dagleg meðferðarviðtöl með áherslu á að mynda meðferðarsamband frá fyrstu samskiptum og veita stuðning og fræðslu. Einnig er í boði stuðningur fyrir aðstandendur.

     6.      Hvaða úrræði taka við eftir að afeitrun hefur farið fram á deildinni?
    Stuðningur og ráðgjöf til ungmenna sem leggjast inn á deildina felst fyrst og fremst í úrræðum á vegum barnaverndaryfirvalda eins og er á vegum Stuðla. Einnig eru slík úrræði í einhverjum tilvikum á vegum barna- og unglingageðdeildar Landspítala.