Ferill 509. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 2080  —  509. mál.

Síðari umræða.


Nefndarálit


um tillögu til þingsályktunar um húsnæðisstefnu fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028.

Frá 1. minni hluta velferðarnefndar.


    Öruggt húsnæði er ein af grunnþörfum fólks og forsenda öryggis og velferðar. Í niðurstöðum starfshóps um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði sem kom út í maí 2022 er að finna svohljóðandi skilgreiningu á húsnæðisöryggi: „Húsnæðisöryggi felur að meginstefnu í sér tryggt, heilnæmt og varanlegt húsnæði fyrir einstaklinga og fjölskyldur á viðráðanlegu verði þannig að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu. Við mat á húsnæðisöryggi er því m.a. horft til byrði húsnæðiskostnaðar, ástands húsnæðis, þröngbýlis og stöðugleika í búsetu.“
    Húsnæðismál hafa víðtæk áhrif á samfélagið til lengri og skemmri tíma. Félagslegum jöfnuði verður ekki náð fyrr en allir landsmenn búa við húsnæðisöryggi og húsnæði byggt með opinberum stuðningi er fjárfesting til framtíðar, samfélaginu öllu til heilla. Öllum má vera ljóst að ófremdarástand hefur skapast á húsnæðismarkaði undanfarin ár. Ekki aðeins hefur hækkandi verðbólga og vextir reynst heimilum landsins þungur baggi heldur stækkar sífellt gjáin milli þeirra sem eiga þess kost að kaupa sér eigið húsnæði og þeirra sem eru á leigumarkaði. Þetta ástand er ekki aðeins vegna stöðu efnahagsmála heldur einnig vegna aðgerða ríkisstjórna sl. áratugar sem hafa einkum verið til hagsbóta fyrir eignafólk. Það er afar brýnt að aðgerðir ríkisstjórnarinnar auki ekki á húsnæðisvandann heldur ráði á honum bót. Bjóða þarf upp á sanngjarnan húsnæðismarkað og úrræði í húsnæðismálum sem keyra ekki á séreignastefnu heldur fjölbreyttu húsnæði og búsetuformum til kaups og leigu um land allt. Nýútkomin mánaðarskýrsla Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar endurspeglar þennan raunveruleika. Kaupendahópurinn fer stækkandi sem þarf ekki að taka lán til að fjárfesta í annarri, þriðju eða fleiri fasteignum, á meðan stór hópur fólks á í erfiðleikum með að komast inn á húsnæðismarkaðinn.
    Stefnur og úrræði í húsnæðismálum heilt yfir snerta fleiri en eitt ráðuneyti, þ.e. innviðaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti. Því er miður að húsnæðisstefna þessi snerti aðeins á málefnasviði eins ráðuneytis, líkt og var áréttað í minnisblaði innviðaráðuneytis frá 1. mars sl., en það endurspeglar í sjálfu sér þá sundrungu sem einkennir núverandi ríkisstjórn. Af þeim sökum verður aðeins málefnasviði þess ráðuneytis gefinn gaumur í áliti 1. minni hluta en ekki tæmandi talin sjónarmið 1. minni hluta er varða húsnæðisöryggi á víðtækari grundvelli.

Nauðsynlegar úrbætur fyrir fatlað fólk og aldrað fólk.
    Hjá gestum þeim sem komu fyrir nefndina við meðferð málsins var athygli vakin á því að í Noregi er sérstakur sjóður sem veitir fötluðu fólki styrki til að aðlaga húsnæði að sínum þörfum. Það er vandamál á Íslandi að húsnæði er oft óaðgengilegt fötluðu fólki og öldruðu og kemur ekki nægilega til móts við þarfir þess. Ísland ætti að taka Noreg sér til fyrirmyndar með þá stefnu að fólk sem er til þess bært geti búið í sínu eigin húsnæði. Vegna aðstæðna hérlendis neyðist fólk oft til þess að þiggja pláss í þjónustuíbúð, sambýli eða á hjúkrunarheimili þó að þjónustuþörfin sé í reynd ekki svo mikil, eingöngu vegna þess að aðgengismál eru í ólagi og/eða kostnaður vegna sérstakra innréttinga eða hjálpartækja er of mikill. Landssamtökin Þroskahjálp bentu einnig á þessa stöðu, að biðlistar lengjast eftir plássum á sambýlum og hjúkrunarheimilum, m.a. til þess að mæta þörfum fólks sem gæti enn og vildi gjarnan búa heima hjá sér ef húsnæðið mætti þörfum þess.

Öryggis- og gæðamál.
    Mikið hefur farið fyrir gæðamálum í umræðu um húsnæðismál að undanförnu, einkum hvað varðar mygluvandamál. Hefur því m.a. verið haldið fram að gæði húsnæðis fari versnandi vegna þess að eftirlit sé lítið sem ekkert, og veikt þar sem það er þó til staðar, og að takmörkuð viðurlög séu við brotum. Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins hafa bent á það árum saman að byggingarstjórar hafi að mestu leyti eftirlit með sjálfum sér meðan á byggingartíma stendur. Því er miður að hvorki sé tekið á staðlavinnu né eftirliti í stefnunni sem nú liggur fyrir. Staðlavinna er vanfjármögnuð og ekki nógu faglega unnin. Þar er ekki aðeins átt við eftirlit með framkvæmdum heldur einnig með byggingarvörum og hráefni, en þar leynist oft orsök galla og mygluvandamála sem koma síðar upp. Umsagnaraðilar hafa áréttað mikilvægi rannsókna á þessu sviði, og benda á að hver króna sem fari í slíkar rannsóknir komi margfalt til baka samkvæmt reynslu annars staðar á Norðurlöndum.

Gæði stefnu til framtíðar.
    Þegar unnið er að langtímaáætlunum er mikilvægt að vandað sé til verka. Þar sem húsnæðismál snerta á málefnasviði fleiri en eins ráðuneytis væri óskandi að viðeigandi ráðuneyti ynnu saman að heilsteyptri stefnu þar sem úrræði milli ráðuneyta mynduðu eina heild, í stað þess að vinna hvert í sínu horni. Vandinn sem helst blasir við íslenskum almenningi í dag er framboðsskortur á húsnæði. Við mótun langtímastefnu verður líka að gæta sérstaklega að þeim sem höllustum fæti standa til að tryggja að allir íbúar landsins búi við húsnæðisöryggi.

Alþingi, 22. júní 2024.

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir.