Ferill 1192. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 2221  —  1192. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Líneik Önnu Sævarsdóttur um hvort bílastæðagjöld falli undir ferðakostnað sjúkratryggðra.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Kemur kostnaður vegna fyrirhugaðrar gjaldtöku á bílastæðum við innanlandsflugvelli til með að falla undir reglugerð nr. 1140/2019, um ferðakostnað sjúkratryggðra og aðstandenda þeirra innan lands, og fást endurgreiddur af Sjúkratryggingum Íslands?

    Í reglugerðinni er Sjúkratryggingum Íslands veitt heimild til að taka þátt í kostnaði vegna ferða sjúkratryggðs til að sækja sér tiltekna heilbrigðisþjónustu utan heimabyggðar. Kostnaður er endurgreiddur vegna ferða með flugi, ferju, áætlunarbifreið eða öðrum almenningsfarartækjum, sem og kostnaður vegna leigu á bifreið og leigubifreiða og greiðslu vegtolla. Reglugerðin mælir ekki fyrir um að kostnaður vegna bílastæða fáist endurgreiddur og hafa Sjúkratryggingar hingað til ekki endurgreitt slíkan kostnað, svo sem vegna bílastæðagjalda sem innheimt eru á bílastæðum við heilbrigðisstofnanir. Unnið er í heilbrigðisráðuneytinu í samvinnu við Sjúkratryggingar að því að greina kostnaðarauka sem felst í því að fella bílastæðagjöld undir ferðakostnað sjúkratryggðra.