Ferill 106. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


155. löggjafarþing 2024–2025.
Þingskjal 106  —  106. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um minnisvarða og fræðslusjóð um Tyrkjaránið árið 1627.


Flm.: Birgir Þórarinsson, Ásmundur Friðriksson, Diljá Mist Einarsdóttir, Óli Björn Kárason, Vilhjálmur Árnason.


    Alþingi ályktar í tilefni þess að árið 2027 verða 400 ár liðin frá einum örlagaríkasta atburði í sögu þjóðarinnar, Tyrkjaráninu á Íslandi árið 1627, að fela forsætisráðherra að skipa nefnd sem undirbúi kaup á minnisvarða um atburðinn og stofni fræðslusjóð.

Greinargerð.

    Tillaga þessi var áður lögð fram á 154. löggjafarþingi (703. mál) og er nú lögð fram að nýju með lítils háttar breytingum.
    Tyrkjaránið átti sér stað sumarið 1627 þegar ræningjaskip komu að Íslandi frá Norður-Afríku. Ránsmenn voru annars vegar frá Marokkó og hins vegar frá Alsír og komu að í Grindavík, á Austfjörðum og loks í Vestmannaeyjum þaðan sem flestir voru numdir á brott. Hátt í 400 Íslendingar voru brottnumdir sem þrælar til Sale í Marokkó og Algeirsborgar í Alsír og hátt í 50 drepnir eða limlestir í Tyrkjaráninu.
    Á undanförnum árum hafa komið út fjölmargar bækur á íslensku, ensku og fleiri tungumálum sem setja Tyrkjaránið 1627 í alþjóðlegt samhengi. Má nefna að Reisubók séra Ólafs Egilssonar, prests í Vestmannaeyjum, sem nú hefur verið þýdd á nokkur erlend tungumál, er ein besta heimildin um Tyrkjaránið og þetta tímabil í sögu Evrópu og Norður-Afríku. Bókin hefur fengið viðurkenningu í heimsbókmenntum sem snerta sögu sjórána og þrælahalds.
    Í tillögu þessari er lagt til að í Vestmannaeyjum, þar sem blóðtaka ránsins var langmest, verði reistur minnisvarði um þennan heimssögulega atburð sem verði afhjúpaður 16. júlí 2027 að viðstöddum fulltrúum þjóðþinga þeirra landa sem helst komu við sögu, þ.e. Danmerkur, Hollands, Alsír og Marokkó auk fleiri landa. Forsætisráðherra er falið að skipa þriggja manna nefnd til að undirbúa kaup á minnisvarða um atburðinn. Einn fulltrúi nefndarinnar skal skipaður samkvæmt tilnefningu bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar, einn af Alþingi og einn án tilnefningar og skal sá vera formaður nefndarinnar. Mælst er til þess að nefndin efni til hönnunarsamkeppni um minnisvarðann og annist síðan um kaup á sigurverki slíkrar hönnunarkeppni. Nefndin annist jafnframt frekari undirbúning fyrir uppsetningu og afhjúpun minnisvarðans.
    Þá er lagt til að nefndin stofni fræðslusjóð og skipi stjórn hans. Sjóðurinn skal hljóta 20 millj. kr. úr ríkissjóði fyrir árið 2027. Sjóðurinn mun starfa tímabundið og styrkja fræðsluverkefni um Tyrkjaránið í hlutaðeigandi sveitarfélögum á Austfjörðum, í Vestmannaeyjum og í Grindavík á árinu 2027. Sjóðurinn styrki þau verkefni sem tilnefnd eru af sveitarfélögunum eigi síðar en í lok árs 2026.