15.12.1978
Efri deild: 31. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1587 í B-deild Alþingistíðinda. (1111)

126. mál, Seðlabanki Íslands

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu formanns fjh.- og viðskn. mælir n. einróma með því, að frv. þetta verði samþ., en við Jón G. Sólnes gerum fyrirvara. Hann byggist á því, að ekki hafa fengist fullnægjandi upplýsingar um það, með hverjum hætti þetta mál verði framkvæmt, þ.e.a.s. hvort fjármuna verði aflað innanlands að einhverju leyti með gengistryggingu til þess að standa undir afurðalánum. Það er till. sjálfstæðismanna að slíkt verði gert, enda höfum við þegar flutt frv. til l. um breyt. á seðlabankalögunum annars vegar og hins vegar að nema úr gildi lög um bann við verðtryggingu fjárskuldbindinga frá 1966. Mun það væntanlega koma til umr nú næstu daga og við þá gera nánari grein fyrir heildarstefnu Sjálfstfl. í peningamálum og fjármagnsmálum.

Frv. sem slíkt fjallar ekki um annað en gengistryggingu afurðalánanna. Því erum við hlynntir, hins vegar ekki þeirri stefnu, sem hæstv. viðskrh. boðaði, eða þeim skýringum, sem við höfum fengið frá Seðlabanka og ráðh., teljum þær allsendis ófullnægjandi og munum leggja á það áherslu, að teknir verði upp gengistryggðir reikningar þannig að innlent fé verði notað, en ekki erlent, í þessum tilgangi. En frv. sem slíkt styðjum við, því að það er skref í rétta átt.