18.12.1978
Efri deild: 34. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1692 í B-deild Alþingistíðinda. (1210)

23. mál, tímabundið vörugjald

Frsm. meiri hl. (Jón Helgason):

Herra forseti. Það kom fram sú ósk á fundinum á laugardaginn, að þessu máli yrði þá frestað til þess að hægt væri að athuga það aftur hjá fjh.- og viðskn. N. kom saman á fund í morgun og meiri hl. gat ekki fallist á að samþykkja þá brtt. sem hv. 5. þm. Norðurl. v. hefur nú kynnt og þm. Sjálfstfl. hafa flutt. Meiri hl. hélt við fyrra nál. sitt, að málið yrði afgreitt með þeirri breytingu sem hann lagði til og samþ. var hér við 2. umr. Það er af þeim ástæðum sem hér hafa komið fram hjá hæstv. ráðh., að þetta mál þurfi víðtækari skoðunar við og geti verið að þar þurfi ýmsu að breyta eða hægt sé að lagfæra ýmislegt sem menn kjósa, — þá fleira en þau atriði sem eru í þessari till. Af þeim sökum taldi meiri hl. sér ekki fært að styðja þá brtt. sem hér er komin fram.