18.12.1978
Efri deild: 34. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1692 í B-deild Alþingistíðinda. (1211)

23. mál, tímabundið vörugjald

Frsm. minni hl. (Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. dró í efa að þetta væri nægilega vel unnið mál. Ég vil upplýsa það hér, að ég hafði samráð við ráðuneytisstjóra og fulltrúa í fjmrn. í morgun og bað þá að hjálpa mér til þess að ganga þannig frá þessu að öll hljóðfæri yrðu upp talin, eins og ég raunar upplýsti strax áðan. Þess vegna er ekki hægt að skjóta sér á bak við það, að málið sé ekki rétt fram borið.

Að við í stjórnarandstöðunni hyggjumst tefja þingstörf eða höfum sýnt að við höfum gert það undanfarna daga, það tel ég vera ódrengilega mælt. Það vita allir hér, að við höfum ekki verið að tefja þingstörf eða verið að gera stjórninni og stjórnarflokkunum erfitt fyrir að starfa í þessari hv. deild.

Um það atriði, að við hefðum getað borið þessa brtt. fram við 2. umr. málsins, má segja út af fyrir sig að það sé rétt. En við vissum ekki þá um þennan eindregna stuðning hæstv. menntmrh. Og við gerum okkur vonir um að hann sé ekki einn um þetta af stjórnarliðunum. Þess vegna var tilefnið augljóst. Við treystum því, að hann mundi beita áhrifum sínum til þess að það bættust við 4 eða 5 þm. til þess að samþykkja þetta mál. Og að við séum að valda einhverjum pólitískum vanda með því! Ef vandinn væri nú ekki meiri í stjórnarherbúðunum en að gera upp hug sinn í þessu efni, þá horfði nú betur fyrir ríkisstj.

Hæstv. menntmrh. hljóp héðan út þegar umr. byrjaði, að mér skildist til þess að leita að fjmrh. og fá hann til að koma hingað og gefa yfirlýsingar. Hann sagði að það væru til undanþáguheimildir, sem fjmrh. gæti notað, og hann mundi, að mér skildist, beita sér fyrir því að þær yrðu notaðar. Hæstv. fjmrh. gerði sér lítið fyrir og stakk sér í stólinn og sagði afdráttarlaust að hann gæfi engar yfirlýsingar í þessa átt. Á þessu stigi gef ég engar yfirlýsingar um einstök atriði, sagði hæstv. fjmrh. sem svar við beiðni hæstv. menntmrh. um að hann gæfi þá yfirlýsingu sem nægja mundi. Það er þess vegna alveg ljóst að þessi gjöld verða áfram á hljóðfærunum, ef þessi hv. d. samþykkir ekki þessa brtt., og hæstv. fjmrh. var ekkert að skera utan af því. Hann vildi láta alla vita það. Það var augljóst þegar hann stóð hér í stólnum, að hann ætlaði ekki að ansa beiðni hæstv. menntmrh. Menntmrh. á þess vegna engra kosta völ annarra en þeirra að greiða atkv. með tillögunni.