30.01.1979
Sameinað þing: 45. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2213 í B-deild Alþingistíðinda. (1804)

59. mál, þátttaka ungs fólks í atvinnulífinu

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Ég get samþykkt og stutt framlagða þáltill. sem hv. þm. Sverrir Hermannsson talaði fyrir, og ég vil taka undir margt af því, sem hann sagði, og jafnframt vekja athygli á því, að því miður eru málefni ungs fólks og framtíðarmöguleikar þess ekki ræddir sem skyldi á Alþingi. Hér er allt of löngum tíma og mörgum ræðum eytt í að ræða um ómerkilega hluti og jafnvel halda ræður þannig að ef almenningur hlustaði á sumt af því sem hér er sagt, þá mundi það ekki styrkja traust fólks á hv. Alþingi. En hvað sem því líður finnst mér að þm. gætu eytt meiri tíma í að ræða jákvætt um það, hvað blasir við ungu fólki í landinu, ekki aðeins í sambandi við menntun eða félagsmálastörf, heldur sérstaklega í sambandi við atvinnumöguleika, því að það er náttúrlega grundvallaratriði fyrir sérhvern mann að eygja góða möguleika hvað atvinnu snertir í framtíðinni.

Á síðasta þingi lagði ég fram þáltill. sem fjallaði um atvinnumöguleika ungs fólks. Þessi þáltill. var samþ. Hún var send ríkisstj., en síðan hefur ekkert gerst. Till. var á þá leið, að ályktað var að fela ríkisstj. að láta gera athugun á vinnuaflsþörf íslenskra atvinnuvega í nánustu framtíð með sérstöku tilliti til atvinnumöguleika ungs fólks. Það var einnig í till., að áhersla skyldi lögð á að ganga úr skugga um hvort æskilegt jafnvægi væri á milli menntunar ungs fólks annars vegar og eðlilegrar þarfar atvinnuveganna hins vegar í þeim efnum.

Það er staðreynd, sem allir þekkja til sem koma nálægt atvinnuvegunum og menntakerfi þjóðarinnar, að það er eitt mesta vandamál nútímaþjóðfélaga, eins og íslenskt þjóðfélag er orðið, að tryggja ungu fólki atvinnu í samræmi við menntun og hæfni. Í svonefndum velferðarríkjum, en við teljum okkur til þeirra, hafa á síðustu árum komið fram mjög alvarlegir gallar í skipulagningu og samræmingu á menntun og atvinnumálum, með þeim afleiðingum að milljónir ungra manna, 25 ára og yngri, fá enga atvinnu að námi loknu. Þetta fólk á í miklum erfiðleikum með að fá viðunandi atvinnu. Þessarar þróunar er þegar farið að gæta nokkuð hérlendis. Í framhaldsskólum landsins eru þúsundir ungmenna sem raunverulega vita ekki hvað er fram undan og hvaða störf það fær að námi loknu.

Alþjóðavinnumálastofnunin hefur látið gera athugun á því, hvernig staða ungs fólks er varðandi atvinnu í ríkjum Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu. Samkv. þeirri athugun voru um 7 millj. manna undir 25 ára aldri atvinnulausir s.l. sumar. Talið er í hinum stóru iðnvæddu ríkjum, að helstu annmarkar þessarar þróunar og raunverulega undirrót sé of hröð iðnvæðing og uppbygging atvinnufyrirtækja sem byggjast á vélvæðingu og háþróaðri tækni, þ.e.a.s. sjálfvirkni og tölvutækni. Sjálfvirkni og tölvutækni hafa víða leyst mannshöndina af hólmi án þess að samsvarandi atvinnumöguleikar hafi skapast á öðrum sviðum. Við heyrum þær raddir nú þessa dagana hérlendis, að það beri að taka tölvutækni í þjónustu íslenskra atvinnuvega. Um það er allt gott að segja að öðru leyti en því, að á sama tíma sem slík tækni er tekin til þjónustu í þágu atvinnuveganna ber að finna aðra og betri möguleika fyrir það fólk sem kemur út á vinnumarkaðinn á hverjum tíma, Það hlýtur að vera okkur eins og öðrum þjóðum keppikefli að búa vel að ungu fólki og búa vel að því þannig að það leiti út í atvinnulífið. Það er langt frá því að svo hafi verið gert, og því miður er það ekki sem skyldi á stefnuskrám stjórnmálaflokkanna að lögð sé nægilega mikil áhersla á atvinnumöguleika og atvinnumál almennt.

Hérlendis er það í tísku og þykir henta í pólitískri baráttu að vera með. alls konar dægurmál, auglýsingamál, eins og hér var til meðferðar í dag, hv. alþm. mörgum, sem tóku þátt í þeirri umr., til háborinnar skammar. En sem betur fer voru líka nokkrir ágætir þm. sem héldu uppi reisn Alþingis. (Gripið fram í.) Já, og ég þakka hv. þm. Sverri Hermannssyni fyrir það, hann stóð sig með prýði eins og hann á vanda til. En ég sé að hv. þm., sem hafa mestan áhuga á auglýsingastarfsemi, hirða ekki um að sitja undir umr. um atvinnumál ungs fólks. Þeir hafa talið ástæðu til að víkja úr þingsal, enda geri ég varta ráð fyrir að þeir hafi mikinn áhuga á þessu brýna og brennandi verkefni sem fram undan er fyrir hv. Alþingi Íslendinga og þm. almennt. En það er gott fyrir okkur, sem hér erum inni og fjöllum um þessi alvörumál, að vera vottar að slíku. Og ég vona að fulltrúar fjölmiðla, sem hér eru staddir, kunni að draga sína dóma af því, hvernig menn haga sér við meðferð mála á Alþingi og hvaða mat þeir leggja á það, hvað skipti máli fyrir fólkið í landinu.

En sleppum því. Ég vildi aðeins nota þetta tækifæri til þess að þakka hv. þm., Agli Jónssyni varaþm, og Sverri Hermannssyni, hv. 5. þm. Austurl., fyrir að hafa átt frumkvæði að þessari þáltill. og tala fyrir henni. Ég vil einnig rifja upp og minna á fyrri till. í þessum efnum og leggja áherslu á það, að þessi mál verði tekin fastari tökum, því að ég er sannfærður um að ef þm. vinna störf sín af skyldurækni og fjalla um þau mál sem skipta raunverulegu máli fyrir fólkið í landinu og þá ekki hvað síst fyrir unga fólkið og framtíð þess, þá mun reisn Alþ. verða mikil. Á næstu árum koma mjög fjölmennir árgangar ungs fólks inn á vinnumarkaðinn, og það mun örugglega koma í hlut Alþingis sem annarra, sem bera ábyrgð á íslensku atvinnu- og þjóðlífi, að tryggja að þetta fólk fái störf við hæfi.