27.02.1979
Sameinað þing: 58. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2823 í B-deild Alþingistíðinda. (2231)

Umræður utan dagskrár

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætlaði mér alls ekki að fara að ræða efnislega þá sýndartill. sem hér hefur verið borin fram, það gefst tækifæri til þess síðar. En orð hv. þm. Sighvats Björgvinssonar gerðu að verkum að ég sá mig til neyddan að segja örfá orð.

Hv. þm. gerði að umtalsefni afgreiðslu Alþýðusambandsins á fundi þess í gær — og raunar fleiri fundum — og taldi að miðstjórn Alþýðusambandsins hefði þar algerlega talað tungum tveim og hún hefði beitt minni hluta miðstjórnar sambandsins bolabrögðum ekki alllitlum. Það þarf ekki að vitna til þess sem hv. þm. las úr samþykkt miðstjórnarinnar frá 12. febr., sama dag og hæstv. forsrh. lagði frv.-drög sín fram í ríkisstj., en þessi hv. þm. lætur hins vegar ógert að skýra frá því, hvað það var sem miðstjórn Alþýðusambandsins var að afgreiða á fundinum 12. febr. og hve mikill munur er á því: og því sem miðstjórnin afgreiddi daginn eftir, 13. febr.

Hinn 12. febr. stóðu mál þannig, að vísitölunefndin átti að skila af sér, og hafði verið ákveðinn lokafundur þeirrar nefndar 14. febr., þ. e. a. s. tveim dögum síðar. Miðstjórnin var á fundi sínum 12. febr. að fjalla um drög að niðurstöðum fulltrúa hennar í nefndinni, sem einnig var samstarf um við fulltrúa Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Farmanna- og fiskimannasambandsins. Hvað var verið að fjalla um í vísitölunefndinni? Var það frv. forsrh.? Svo var ekki. Það höfðum við ekki séð þá og höfðum ekki hugmynd um hver efnisatriði þess voru þegar við vorum á fundinum 12. febr. að undirbúa fund í vísitölunefndinni. Hverju var vísitölunefndin að vinna að? Það var ekki undirbúningur neinnar lagasetningar. Samkv. umboðsbréfi sinu frá forsrh. var vísitölunefndin að fjalla um það, hvort mögulegt væri í nefndinni eða hugsanlegt að verða sammála um meginatriði í rammasamningi milli aðila vinnumarkaðarins um þessi mál, ekki um neinn lagabókstaf. Þarna var verið að ræða um það, hvort hægt væri á þessum vettvangi, þ. e. a. s. í vísitölunefndinni, að undirbúa slíkan rammasamning. Það var ljóst, þegar við fjölluðum um þetta mál á fundi miðstjórnarinnar 12. febr., að slíkt samkomulag gat með engu móti orðið í þessari vísitölunefnd. Það strandaði fyrst og fremst á afstöðu fulltrúa atvinnurekenda í nefndinni. En það var einnig æðimikill skoðanamunur milli fulltrúa ríkisstj. í nefndinni og fulltrúa launþegasamtakanna.

Við vorum sem sagt mánudaginn 12. febr. að undirbúa lokafund í vísitölunefndinni, og þá gerðum við þær samþykktir, sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson las upp, efnislega þó, ekki áttu þær að gilda orðrétt, heldur voru þetta efnisleg atriði sem fulltrúar í nefndinni og baknefnd miðstjórnar Alþýðusambandsins áttu eftir að ræða við fulltrúa hinna launþegasamtakanna í vísitölunefndinni. Það tókst hins vegar vel að ná samkomulagi við þá. En daginn eftir var haldinn fundur í miðstjórninni og um morguninn þann dag voru fulltrúar Alþýðusambandsins kallaðir á fund forsrh. og þeim þá fengið í hendur það frv. eða drög að frv. sem hann hafði lagt fram í ríkisstj. daginn áður. Með því að þetta frv. var fram komið var orðin gerbreyting á allri aðstöðu vísitölunefndarinnar til þess að vinna starf sitt. Með því að forsrh. tók nær óbreyttan þann kafla úr till. formanns vísitölunefndarinnar, Jóns Sigurðssonar hagrannsóknastjóra, litum við svo á að málið væri ekki lengur til meðferðar í vísitölunefndinni, nú væri þetta mál ríkisstj. og stjórnarflokkanna að fjalla um og því aðeins að við fengjum það til umsagnar mundum við auðvitað segja okkar álit.

Við litum svo á að málið hefði verið tekið af borði vísitölunefndarinnar og fært inn á svið stjórnmálanna, ríkisstj. og þingflokka. Ályktun sú, sem miðstjórnin gerði daginn eftir, þ. e. a. s. sama dag og við fengum málið í hendur, daginn eftir fyrra fund okkar, var því að fjalla um málið í þessu nýja ljósi. Niðurstaða umsagnar okkar í vísitölunefndinni var hins vegar efnislega hin sama. Á lokafundi vísitölunefndarinnar segir fulltrúi miðstjórnar Alþýðusambandsins og hinna launþegasamtakanna, BSRB og Farmanna- og fiskimannasambandsins, nákvæmlega það sama efnislega, raunar í miklu styttra máli, og sagt var daginn áður. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa það sem við sögðum daginn eftir. Hitt hafa hv. þm. fengið að heyra áður í dag.

Þar er sagt að miðstjórnin ítreki ákveðna andstöðu sína við efni þessa kafla um kjaramál og verðbætur og vísi til þess sem sagt er í bókun fulltrúa þessara samtaka í vísitölunefndinni, en í þeirri umsögn Alþýðusambandsins segir m. a., og er tekið nákvæmlega upp úr bókun okkar í vísitölunefndinni á skilafundi hennar: „Við erum algerlega á móti því að skattar og niðurgreiðslur verði tekin út úr vísitölu og að verðbætur verði frystar til 9 mánaða, svo að nokkur atriði séu nefnd.“ Þetta er nákvæmlega hið sama og sagt er í samþykktunum daginn áður.

Varðandi skattana vil ég aðeins segja það, að þar höfðum við gert þá till. eina, að beinir skattar yrðu teknir inn í vísitöluna, en ekki óbeinu skattarnir út. Það, sem síðan er sagt um óbeinu skattana, er raun og veru ekkert annað en það, og menn hefðu átt að geta skilið það, held ég, einnig hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, að ef rætt væri um að taka óbeinu skattana út úr yrði verkalýðshreyfingin að fá sömu tryggingu fyrir verðbótum á laun sín og fæst með því að hafa óbeinu skattana inni í vísitölunni. — Það eru áreiðanlega óteljandi möguleikar að fikta með óbeinu skattana ef þeir eru fyrir utan vísitöluna. Þarf, held ég, ekki að lýsa því fyrir mönnum.

Í framhaldi af því, sem segir í umsögn Alþýðusambandsins um frv. hæstv. forsrh. og er hið sama og við sögðum á skilafundi vísitölunefndarinnar, segir m. a.:

„Við höfum hins vegar lýst okkur reiðubúna að ræða þætti eins og hvernig beinir skattar séu teknir inn í vísitölugrundvöll og að setja grunn verðbótavísitölu á 100 í tengslum við nýja samninga og hvort og hvernig taka mætti upp viðskiptakjaravísitölu í framtíðinni.“

Þetta segir Alþýðusambandið í umsögn sinni um frv. forsrh. núna, og þetta sagði Alþýðusambandið á skilafundi vísitölunefndarinnar 14. þ. m. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson vildi láta líta svo út, að þarna væru einhverjar mótsagnir, annað hefði verið sagt á fyrri fundinum en hinum síðari. Það er hreinn misskilningur og ekkert annað. Nákvæmlega það sama er sagt og afstaðan er hin sama. Ég vil fullyrða, að innan miðstjórnar Alþýðusambandsins, og ekki bara þar, heldur í verkalýðshreyfingunni yfir höfuð, er enginn vilji fyrir því að taka óbeinu skattana út úr vísitölunni. Það má vel vera að þessi hv. þm. sé á því máli að það eigi að gera.

Þá gerði hann ákaflega mikið veður út af þeim fundi sem var í miðstjórn Alþýðusambandsins í gær. Ég ætla ekki að fara að tíunda þann fund og held að það yrði ekki til neins framaauka fyrir þennan hv. þm. eða Alþfl. menn yfirleitt. Ég held að það sé best að sem minnst verði sagt af þeim fundi, — best fyrir þá a. m. k. En hann sagði m. a. að við hefðum neitað minni hlutanum að álit hans kæmi fram og neitað að láta bókun hans fylgja umsögn miðstjórnarinnar. Ég skal skýra málið og þá kannske skilja menn hvernig þetta bar að.

Frv. forsrh. hafði verið til meðferðar í miðstjórninni í hálfan mánuð eða um það bil. Annar fundur hafði áður verið haldinn Sá fundur var haldinn s. l. fimmtudag. Á þeim fundi var sett sérstök undirnefnd í það að setja saman umsögn um frv. Þessi nefnd vann yfir helgina. Þar sátu fulltrúar allra pólitískra aðila innan miðstjórnar Alþýðusambandsins og fulltrúar allra stærstu sambandanna þar.

Við byrjuðum kl. 8 á sunnudagsmorgun að reyna að ljúka við þessi störf okkar. Sá fundur stóð til hádegis. Þá var samkomulag um að leggja þá umsögn, sem nú hefur verið gefin og menn hafa getað séð í dagblöðum í dag, fyrir miðstjórnarfund sem haldinn var í gær. Þetta var samkomulag allra sem voru í undirnefndinni. Hins vegar verður að segja það, að ekki voru allir jafnánægðir — og kannske enginn ánægður — með þessa umsögn í sjálfu sér. Ýmis atriði vildu menn á báða bóga hafa með öðrum hætti, en allir lögðu sig fram um að reyna að ná samstöðu um umsögn, þannig að hún gæti orðið einróma frá miðstjórninni. Það fór líka þannig, að þegar þessi umsögn var tekin fyrir lið fyrir lið, grein fyrir grein á fundi miðstjórnarinnar í gær var hver einasta grein út af fyrir sig afgreidd með shlj. atkv. Það voru stundum hjásetur nokkurra manna, þá einvörðungu þeirra þriggja Alþfl.- manna sem á fundinum voru. Allir aðrir greiddu atkv. með umsögninni. Og að lokum var umsögnin samþ. í heild með shlj. atkv., en 3 sátu hjá.

Þegar komið var að þessu stigi málanna upphófst hins vegar sá mjög einkennilegi þáttur fundarins sem kannske verður ræddur eitthvað opinberlega, en ég ætla ekki að gera að umtalsefni, en aðeins skýra frá því, að þá kom Karl Steinar Guðnason með mjög langa bókun, sem var hvort tveggja mjög einkennilegur samsetningur, sem ekkert snerti efnisatriði málsins, og svo nokkur atriði sem snertu efnisatriðin. Nú stóðu mál þannig, að hæstv. forsrh. hafði beðið um að fá umsögn Alþýðusambandsins — vissi að þessi miðstjórnarfundur var yfirstandandi — um leið og málið væri þar afgreitt. Hann lét skrifstofustjóra sinn í forsrn. bíða á skrifstofu sinni til þess að veita umsögninni viðtöku. Strax þegar búið var að afgreiða málið shlj. var það sent forsrh. og það var einnig sent fjölmiðlum. Þessi lokaþáttur, sem ég ætla ekki frekar að gera að umtalsefni, gerðist eftir að búið var að afgreiða málið. Ég held að það sé yfirleitt venja í samtökum, þegar mál eru afgreidd shlj., að það sé niðurstaða hverrar stjórnar eða fundar sem gildi. Og umsögnin var send þannig, en þessi sérstaka bókun hinna fáu manna, sem var ósköp stutt í lokin, var ekki tilbúin þegar umsögnin var send. Út af fyrir sig hef ég og áreiðanlega enginn sem var á þessum miðstjórnarfundi engan áhuga á að hún sé neitt feluplagg — hreint ekki.

Ég ætla ekki, eins og ég sagði, að hafa mörg orð um þetta mál. En það er eitt sem vekur sérstaklega afhygli mína varðandi það sem felst í þessari till. til þál. sem hér hefur nú verið rædd utan dagskrár æðilengi, og það er 2. mgr. í sjálfri ályktunartill. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Jafnframt ályktar Alþ. að fela ríkisstj. að gera og undirbúa ráðstafanir til að fresta þeim breytingum á efnahagskerfinu, sem verða áttu í tengslum við 1. mars, uns niðurstöður úr þjóðaratkvgr. liggja fyrir.“

Menn velta því sjálfsagt fyrir sér, hvað hér sé átt við, og ég hef reynt að gera það. Ég man ekki eftir neinum efnisþáttum úr frv. hæstv. forsrh., eða drögum að frv., sem eru beinlínis miðaðir við 1. mars, öðrum en eru í VII. kafla frv., um kjaramál og verðbótagreiðslur. Ég sé ekki annað og get ekki skilið betur en að þessi ályktunargrein fjalli beinlínis um að ríkisstj. skuli sjá fyrir því að kaupgjald verði óbreytt eins og það er í dag þar til niðurstöður þjóðaratkvgr. liggi fyrir. Þetta er ákaflega vel í stíl við afstöðu sumra hv. Alþfl.-manna hér á þingi til kaupgreiðslumálanna og skerðingar á vísitölugreiðslunum. Þetta er ekkert í ósamræmi við þá mynd. En það vil ég segja, bæði hv. flm. þessarar till. og hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, sem hafði hér mörg stóryrði um miðstjórn Alþýðusambandsins í ræðu sinni áðan, að innan miðstjórnar Alþýðusambandsins er enginn ágreiningur, ekki heldur þeirra Alþfl.-manna, um meðferðina á þessum kafla frv. Ég veit ekki betur en Alþfl.-menn í verkalýðshreyfingunni séu algerlega sammála þeirri umsögn sem miðstjórn Alþýðusambandsins hefur sent varðandi þennan kafla þessa margrædda frv. Það má hins vegar vera að ýmsir Alþfl.-menn séu á allt öðru máli og noti m. a. þessa aðferð til þess að skerða kaup launþega allverulega.