10.05.1979
Neðri deild: 84. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4619 í B-deild Alþingistíðinda. (3764)

270. mál, aðstoð við þroskahefta

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka mikinn þátt í þessum umr. og mun tala örstutt mál.

Ég hef ekki haft aðstæður til að kynna mér að neinu verulegu marki sjálft frv. ríkisstj. um aðstoð við þroskahefta og ætla að leiða hjá mér umr. um það á þessu stigi. En nú hefur verið fellt inn í það annað frv. sem ég mælti nokkuð gegn á sínum tíma vegna þess hvernig fjáröflun var hugsuð eða henni átti að koma fyrir. Nú hefur hv. Ed. breytt þeirri fjáröflun í ríkisframlag. Ég tel að það sé eðlileg afgreiðsla þar sem um er að ræða verkefni sem Alþ. hefur þegar ákveðið að vinna skuli samkv. fyrri lögum og hefði átt að standa við fyrir lifandi löngu og mál til komið að gert sé.

Ég álít að aðalefni þessa frv. sé félagsmálalegs eðlis. Ég er þess vegna á sömu skoðun og hæstv. forseti að því leyti til. En auðvitað samþykki ég fúslega, eins og hér hefur jafnan verið gert þegar ágreiningur er um n., það sem hv. 1. þm. Austurl. sagði úr sæti sínu, að d. úrskurði þetta.

Ég vil til viðbótar aðeins segja að rökin fyrir því að flytja málið til fjh.- og viðskn. eiga að vera þau að hér sé fjallað um útgjöld ríkisins. En mér er spurn, hvort fjh.- og viðskn. hafi vald frekar en aðrar n. til þess að ákveða útgjöld ríkisins — þ. e. a. s. aðrar en fjvn. Ég hef ekki verið þeirrar skoðunar að fjh.- og viðskn. geti fremur en aðrar n. ákveðið slík útgjöld. Og auðvitað eru fjh.- og viðskn.-menn viðstaddir allar afgreiðslur og ef þeir sjá annmarka á þessu tiltekna atriði geta þeir vafalaust kynnt sér það án þess að málinu sé vísað til þeirra.

Ég átti ekki von á að hv. fjh.- og viðskn.-menn vildu fara að taka að sér að gerast skoðunarmenn og dómarar í því hvernig málum þroskaheftra á að koma fyrir þegar fjármögnun er fráskilin.