22.11.1978
Neðri deild: 18. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í B-deild Alþingistíðinda. (672)

44. mál, þingfararkaup alþingismanna

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Með þessu máli, sem hér er á dagskrá, er togast á um það, hvort þm. sjálfir eigi að ákveða kjör sín eða fela það ákvörðun Kjaradóms. Þeir, sem eru andvígir þessu frv., eru það fyrst og fremst á þeim forsendum, að það sé verið að skerða sjálfstæði þingsins og taka þann sjálfsagða rétt af þinginu að kveða á um það, hvernig kjör þm. skuli vera. Ég hef verið þeirrar skoðunar, að það sé rétt að breyta þeirri tilhögun, sem nú er, og fela Kjaradómi að taka ákvörðun um kaup og kjör alþm.

Það var því fyrir nokkrum árum, þegar deilur risu enn einu sinni um fyrirkomulag á þessum málum, að við ákváðum það, ég og þáv. þm. Gylfi Þ. Gíslason, að flytja frv. í þá átt að Kjaradómur hefði þetta með böndum. Það frv. var flutt nokkuð seint á þinginu, var ekki nægilega vel útbúið, en að okkar mati táknrænt og átti að lýsa afstöðu okkar og láta á það reyna, hvernig þingheimi litist á þessa tilhögun. Þetta frv. náði ekki fram að ganga. En aftur á síðasta vetri, þegar deilur risu hátt um kaup og kjör alþm. og ýmsir sérfræðingar úti í bæ, sem töldu sig mest og best vita um Alþ. og hvernig kjörum alþm. ætti að vera háttað, kváðu upp ýmsa sleggjudóma um þessi kjör og þetta fyrirkomulag, þá settist ég niður og samdi frv. í 6 greinum og bauð Gylfa Þ. Gíslasyni að vera meðflm. að þessu frv. Hann tók því boði, en lagði á það áherslu að vera 1. flm., sem ég auðvitað samþykkti góðfúslega.

Nú hefur þetta frv. birst hér í þinginu á nýjan leik, en flm. eru þeir hv. þm. Vilmundur Gylfason og Eiður Guðnason, og mér er auðvitað sönn ánægja að því, að þingflokkur Alþfl. sér ástæðu til þess að taka upp óbreytt frv., sem ég hef samið, og gera að stefnu Alþfl. Hins vegar er það misskilningur, sem fram kemur hjá hv, þm. Vilmundi Gylfasyni í blaðagrein nýlega, að við Gylfi Þ. Gíslason séum höfundar þessa frv. að réttu, því að hann ruglar þar saman að sjálfsögðu höfundarrétti og flutningi á málum, og það er auðvitað tvennt óskylt. Eftir stendur að ég áskil mér allan höfundarrétt að þessu frv. Þetta er hins vegar aukaatriði, en ég neyðist þó til að geta þess, því að hversu smekkleg sem mönnum finnast þessi vinnubrögð vera hjá hinum nýja þm., þá er það að mínu mati fyrir utan öll velsæmismörk að taka frv. annarra manna og birta með þeim nýja grg. Sannleikurinn er sá, að þetta frv. er flutt hér á allt öðrum forsendum en það frv., sem lagt var hér fram í fyrra.

Í þeirri grg., sem er birt með þessu frv., er haldið fram margvíslegum staðleysum og reyndar ýmsu sem stangast algjörlega á við frv. sjálft. Ég afneita þess vegna öllum heiðri af því að hafa átt þátt í samningu þessarar grg.

Ég vek t.d. athygli á því, að í grg. er fullyrt að frambjóðendur Alþfl. hafi gagnrýnt fyrirkomulag á launakjörum þm. Ekki er að sjá hvort þetta er um launakjörin sjálf eða fyrirkomulagið á því, en gera má ráð fyrir að það eigi við um hvort tveggja. Hins vegar er í þessu frv. haldið algjörlega óóreyttu öllu efnisinnihaldi og einstökum atriðum í kjörum þm. frá núgildandi lögum. Sú eina breyting er gerð, að í staðinn fyrir að þfkn. taki þessa ákvörðun er gert ráð fyrir að Kjaradómur taki hana.

Þá segir í grg.: „Gagnrýnt hefur verið, að ýmis fríðindi þm. hafi ekki verið gefin upp til skatts, sem þó er skylt samkv. íslenskum skattalögum.“ Hins vegar er ekki getið um í frv. sjálfu að breyting eigi að verða varðandi skattframtöl þm. Í þessu sambandi hlýt ég að vekja athygli á því, sem hefur reyndar verið gert fyrr í þessum umr., að hv. 1. flm. frv. ásamt með ýmsum skjólstæðingum og stuðningsmönnum sínum, að mér skilst, hefur haldið blákalt fram að þm. hafi verið skattsvikarar. Ég held að framlagning þessa frv. gefi fullt tilefni til þess að skora á þennan hv. þm. að sanna þessar fullyrðingar sínar, því að það er auðvitað alvörumál þegar skattsvik eru borin á allan þingheim, og ég segi fyrir mig að ég er ekki tilbúinn að sitja undir slíkum fullyrðingum. Ég held þess vegna að það sé nauðsynlegt fyrir hv. flm. þessa frv. að lýsa því hér nákvæmlega fyrir þingheimi og fyrir þjóðinni allri, í hverju þessi skattsvik séu fólgin. Ef hann gerir það ekki í þessari umr., þá falla þessi ummæli hans öll dauð og ómerk.

Þá segir í grg.: „Það hlýtur að vera frumskylda að fríðindi bílakostnaður, dvalarkostnaður o.s.frv. sé skilyrðislaust gefið upp á skattskýrslu.“ Um þetta er ekkert í frv.

Síðan segir: „Ætti það að vera regla, að kjaradómur gerði almenningi grein fyrir því á hverjum tíma, ef ástæða þykir til að bæta kjör þm.“ Hins vegar er ekkert um það fjallað í þessu frv., að Kjaradómur birti niðurstöður sínar opinberlega, og engin skylda lögð á Kjaradóm í þeim efnum.

Enn segir í grg.: „Ráðherrar fá há laun, sem bætast við laun þingmanna. Er sú regla vafasöm.“ En í frv. er beinlínis sérstakt ákvæði þar sem segir: „Ráðherra sem er ekki alþm., á rétt á þingfararkaupi og nýtur að öllu leyti þeirra fríðinda, sem alþm. er ákveðin í lögum þessum.“ Síðan er gert ráð fyrir því í frv., eins og fram kemur í öðrum greinum þess, að ráðh. njóti áfram þingfararkaups.

Enn segir í grg: „Þá fá þm., sem búa í næsta nágrenni Reykjavíkur, greiddan dvalarkostnað.“ Gefið er í skyn að þetta sé vafasöm regla líka. Hins vegar er gert ráð fyrir því í frv. sjálfu, að þm. utan Reykjavíkur eða nágrennis, er býr í eigin húsnæði, fái greiddan húsnæðiskostnað eftir mati.

Grg. og frv. stangast því á í mjög mörgum atriðum. Spurningin er sú, hvort hér sé verið að flytja grg. til laga, en ekki frv. til laga. Það er mál út af fyrir sig og þá getum við rætt það.

Það var helst að skilja á blaðagrein sem hv. þm. Vilmundur Gylfason birti nýlega, að vegna þess að það kæmu svo mörg atriði fram í grg. væri þetta frv. alls ekki sama frv. og var flutt hér í fyrra, og hann gerði ráð fyrir að því yrði breytt í nefnd. Þetta er afskaplega frumleg röksemdafærsla og kannske einhver afsökun fólgin í því að þetta frv. er flutt, en þá er rétt að menn átti sig á þeim vinnubrögðum í framtíðinni.

Varðandi málið efnislega og það frv. sem hér er lagt fram, þá hefur þetta mál snúist nokkuð upp í það að gera að umtalsefni manndóm og hugrekki alþm. Þetta virðist vera spurning um það, að alþm. haldi reisn sinni með því að fá að ákveða launakjör sín sjálfir. Hv. þm. Lúðvík Jósepsson tók mjög skýrt og skilmerkilega til orða þegar hann sagðist vera algjörlega andvígur þessu frv. vegna þess að hann vildi að alþm. ákvæðu laun sín og launakjör sjálfir. En nú hefur verið bent á það við þessa umr., sem auðvitað er alveg ljóst, að Alþ. ákveður ekki laun, alþm. nema þá með því að setja lög um hvernig það skuli gert. Og það hefur Alþ. gert, sett lög um að alþm. fylgi ákveðnum launaflokki hjá BHM. M.ö.o.: Alþingi tekur ekki ákvörðun um launin frá einum tíma til annars. Það er alveg fastákveðið í lögum, að við fylgjum ákveðnum launaflokki, og þess vegna er þessi fullyrðing og þessi röksemd gegn þessu frv. ákaflega vafasöm og raunar stenst alls ekki.

Því er haldið fram, að menn séu hræddir við að taka þessa ákvörðun sjálfir, þm. vilji sem sagt með framlagningu þessa frv. víkja þessum kaleik frá sér, af því að þeir séu hræddir við að standa undir því að taka ákvarðanir um launakjör sín sjálfir.

Ef við sleppum laununum en tölum hins vegar um fríðindi og ýmsar greiðslur vegna útlagðs kostnaðar þm., þá hefur verið bent á það í þessum umr., að slík kjör liggja langt undir því sem viðgengst hjá opinberum starfsmönnum. Og hvers vegna skyldi það vera? Hvers vegna skyldi þfkn. ekki hafa tekið ákvörðun um að greiða þm. þennan útlagða kostnað í samræmi við þann kostnað sem þeir hafa af ýmsum störfum sínum? Af hverju er ferðakostnaður, húsaleigukostnaður, dagpeningar og annað ekki greitt í samræmi við útgjöldin? Vitaskuld er ástæðan sú, að þfkn. hefur — ja, ég vil ekki segja: hefur ekki haft hugrekki til þess, ég er ekki heldur að segja að hún hafi ekki haft manndóm til þess, en hún hefur ekki haft að sínu mati pólitískt svigrúm til þess, hefur ekki viljað ganga svona langt vegna þess að hún hefur óttast vissa gagnrýni annars staðar frá. Þess vegna hlýt ég að snúa þessum rökum upp á þá menn, sem eru andvígir því fyrirkomulagi sem frv. felur í sér, og halda því fram, að það sé ekki um að ræða neitt hugleysi hjá þeim sem flytja þetta frv., heldur hugleysi hjá þfkn. og málsvörum núverandi fyrirkomulags, að launakjörin séu ekki í samræmi við útgjöldin og séu eðlileg, eins og gildir um alla opinbera starfsmenn. Hvers vegna eiga húsaleigupeningar, ferðapeningar, dagpeningar ekki að vera í samræmi við útgjöldin og í samræmi við það sem viðgengst hjá opinberum starfsmönnum? (Gripið fram í: Við erum ekki opinberir starfsmenn.) Ég get ekki séð að það séu mikil rök í sjálfu sér að segja: Við erum ekki opinberir starfsmenn, vegna þess að hvort sem við erum opinberir starfsmenn eða alþm. verðum við að leggja út þennan kostnað. Við verðum fyrir þessum útgjöldum. Og þá held ég að það sé manndómur í því að horfast í augu við það og ákveða kjörin í samræmi við það.

Hv. þm. Sverrir Hermannsson hélt því fram, að ef þetta frv. yrði að lögum yrði um stórfelldar kjarabætur að ræða hjá alþm. Ég skal ekkert tjá mig um það. En það er þó athyglisvert að sjá það í grg. — þeirri margumræddu grg. — að flm. frv. halda því fram að launakjörin núna hjá alþm. séu nokkru lakari en þau voru fyrir svo sem fjórum árum. Það er út af fyrir sig athyglisvert að sjá þessi ummæli hjá þeim aðilum sem kannske hafa gengið hvað lengst í því á undanförnum árum að gagnrýna kjör alþm. og telja þau vera hin riflegustu, að sjá þessa viðurkenningu, að launakjör alþm. séu nokkru lakari en þau voru fyrir fjórum árum. Og þeir draga þá ályktun, að þingið hafi verið feimið við að ganga hart fram í eigin kjaramálum. Það mætti segja mér að nokkuð væri til í því og er þá af sömu ástæðu sem ég var að geta um áðan varðandi önnur kjör.

Ég hef ekki lagt neitt mat á það, hvort laun alþm. mundu lagast mikið við það, þó að Kjaradómur ákveði þessi laun. En það skiptir ekki máli, vegna þess að ég held að aðalatriðið sé að þessi ákvörðun sé tekin af hlutlausum aðila. Ef ástæða þykir til þess að bæta kjör alþm., þá er ekkert við það að athuga, vegna þess að ég held að alþm. séu allt of feimnir við að halda því fram, að þeir eigi að hafa góð laun, og koma fólki í skilning um að þetta starf krefst þess að það sé vel launað á meðan menn sinna því.

Ég held að það sé ekki spurning um manndóm eða hugrekki af hálfu alþm. að taka þá ákvörðun að Kjaradómur ákveði launakjör þeirra. Kjaradómur ákveður launakjör t.d. hæstaréttardómara, og þó að við séum vandir að virðingu okkar hér á þingi og viljum halda sjálfstæði Alþingis sem mestu og þrígreiningu í stjórnsýslunni og stjórnskipuninni, þá hefur engu að síður verið ákveðið t.d., að ákvörðun um kjör hæstaréttardómara, sem eru einn meiðurinn af þessari þrískiptingu, er tekin af Kjaradómi. Erum við alþm. eitthvað merkilegri menn en t.d. hæstaréttardómarar, að þetta megi ekki fela hlutlausum aðilum sem Kjaradómi?

Það, sem mestu máli skiptir, vegna þess að ég geri ekkert úr rökum um það, hvort við höfum þrek eða hugrekki til að taka þessa ákvörðun eða ekki, er að um þessi mál má ekki skapast nein tortryggni og það má ekki rýra álit þingsins vegna karps um það, hvaða kjör alþm. eigi að búa við. Ég held að það væri best að sá kaleikur væri frá okkur tekinn og það væri hlutlaus aðili, eins og Kjaradómur er, sem tæki þessar ákvarðanir.

Það er gert ráð fyrir því í þessu frv., að þfkn. hafi áfram tillögurétt. Ef þetta fyrirkomulag reynist illa hefur Alþ. auðvitað algjörlega í sinni hendi að breyta lögunum og breyta þessu fyrirkomulagi á nýjan leik. Þess vegna stendur það auðvitað eftir allar þessar umr., að það er Alþ. sem hefur alltaf í sinni hendi að taka endanlegar ákvarðanir með því að setja lög, og það er það sem við erum að gera í þessu máli.

Ég er sammála hv. síðasta ræðumanni um það, að þetta mál hefur verið margrætt, rök hafa komið fram með og móti og ekki sýnist ástæða til þess að eyða dýrmætum þingtíma í að ræða það miklu lengur. Nú eru að vísu komnir margir nýir þm. á þing, og það er sjálfsagt að láta á það reyna, hvort þetta frv. hefur stuðning eða ekki, en frekari umr. sýnast mér hafa takmarkaðan tilgang.