12.03.1980
Neðri deild: 42. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 1073 í B-deild Alþingistíðinda. (1128)

111. mál, lántaka Framleiðsluráðs landbúnaðarins

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég hélt að það hefði verið öllum hv. þm. vel ljóst, að hér er um óvenjulega — svo ekki sé meira sagt — aðferð að ræða þegar mál er svo fram sett að tiltekin atvinnustétt eigi að fá að láni tiltekna upphæð og að ríkissjóður ábyrgist það lán, en í 2. gr. sama frv. sé tekið fram að afborganir, vextir og kostnaður af láninu öllu skiptist á milli Byggðasjóðs og ríkissjóðs. Það er hverju barni svo ljóst, að hér er um að ræða bein framlög úr ríkissjóði, þó að það sé klætt í annan búning, að um það hefði varla þurft að hafa fleiri orð. Og ég verð að segja það, að ég er þess vegna hissa á að hér skuli hæstv. landbrh. koma grafalvarlegur í ræðustól og halda því fram enn statt og stöðugt að hér sé um lán að ræða.

Hann útskýrir mál sitt þannig, að gert sé ráð fyrir að Byggðasjóður eigi að greiða féð að hluta. Málið er náttúrlega þannig, að það er í fyrsta lagi nýkomið inn í þá 3 milljarða hugmynd sem hér hefur verið að velta um hús á annað ár, hugmyndin um Byggðasjóð, og í annan stað, þá aðspurður um hver leggi fram fé í Byggðasjóð, segir ráðh.: Jú, það er ríkissjóður sem gerir það! — Og hér stendur hann staffírugur og alltaf jafngrafalvarlegur og heldur því engu að síður fram að hér sé um lán að ræða.

Ég hygg að framsetningin sé með þessum hætti vegna þess að þeir, sem að frv. standa, vita að við erum komin að mörkum þess mögulega hvað hægt er að bjóða og leggja á skattgreiðendur í þessu landi. Þeir vita líka að í flóknu samfélagi hefur fólk hvorki tíma né tækifæri til að setja sig náið inn í öll mál. Og það er vissulega eitt af þeim vandamálum sem við eigum við að etja. Í frásögnum fjölmiðla af þessu, t.d. ríkisfjölmiðla, sem því miður eru oft bæði óvandaðar og illa unnar, er þrástagast á því, að hér sé um lán til Framleiðsluráðs að ræða. Fjöldi fólks, þ. á. m. skattgreiðendur, stendur í þeirri trú að hér sé um lán að ræða. Vitaskuld er hér ekki um lán að ræða, og jafnvel samanlagður vísdómur hv. þm. Stefáns Valgeirssonar, þó mikill sé, dugar ekki til þess að sannfæra nokkurn mann um það. En hér stendur hæstv. landbrh. grafalvarlegur, að því er best verður séð: Jú, hér er um lán að ræða. —Ja, mikill er húmorinn í manninum þeim.

Það má vitaskuld hafa mörg orð um þetta, og hæstv. landbrh. hjó ótt og títt í langri ræðu sinni í dag. Mig langar til að gera aths. við einn þátt í máli hans. Það er tónninn sem hann talar í til bænda og um bændur í þessu landi. Hann notar lýsingarorð eins og að íslenskir bændur séu — ég held ég fari rétt með — dugmiklir og útsjónarsamir. Sannleikurinn er sá, að á annað ár hef ég hér setið og héðan úr ræðustól á hv. Alþ. er ekki talað í þessum fleðutón til nokkurrar annarrar atvinnustéttar en bænda. Hér heldur enginn því fram að íslenskir iðnrekendur séu dugmiklir og útsjónarsamir, svo ekki séu notuð fleiri af þessum lýsingarorðum. Það þarf ekki að segja þau. Við vitum um iðnrekendur, sjómenn eða hverja aðra atvinnustétt. Þessi fleðutónn, sem er notaður eins og sé verið að tala til barna og um börn, er ekki notaður um nokkra aðra atvinnustétt en bændur. Það hefur einnig viðgengist að því er landbúnaðarmál varðar, að ráðh. eftir ráðh. hefur komið beint úr þessari atvinnustétt, beinlínis til þess að gæta hagsmuna hennar þó sérstaklega viðskiptahagsmunanna þar um kring. Sá er væntanlega ekki barnanna bestur, — sá hæstv. maður, sem nú fyllir þennan stól. Sá undarlegi fleðutónn, sem notaður er um þessa tilteknu atvinnustétt, hins vegar segir sína sögu og er jafnframt viðurkenning á því, að menn eru að átta sig á því að boginn hefur verið spenntur fullhátt. Kjarni málsins er þó sá, sem væntanlega mun enn frekar koma fram við 2. umr. í hv. d., að hér er um styrk til einnar atvinnustéttar að ræða, sem bætist ofan á og leggst við aðra beina styrki sem viðkomandi atvinnustétt nýtur af almannfé. Og sá fáránlegi feluleikur, sem í þessum texta á frv. til l. er notaður, blekkir auðvitað hvorki einn né neinn.

En það ætti að vera regla hér á hv. Alþ. að hlutirnir séu kallaðir sínum réttu nöfnum. Það má segja að það væri orðin furðuleg útlánastarfsemi ef ég gæti gengið inn í banka og tekið lán í samvinnu við hæstv. ráðh. Pálma Jónsson, og samvinnan væri með þeim hætti, að ég fengi lánið og eyddi því, en hann borgaði það. Lánastarfsemi af því tagi er vitaskuld ekki til, hún er ekki heilbrigð, hún er ekki rétt, enda er ekki um slíkt að ræða í því máli sem hér er lagt fram til afgreiðslu. Hér er um beinan styrk að ræða til viðbótar við aðra þá styrki sem til þessarar atvinnugreinar hafa gengið. Jafnvel hinn háalvarlegi hæstv. ráðh. sannfærir menn ekki um annað.