22.05.1980
Neðri deild: 86. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3111 í B-deild Alþingistíðinda. (3075)

194. mál, aðstoð við þroskahefta

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Þetta var skrýtin ræða, að ekki verði meira sagt, sem hér var flutt. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson er formaður þingflokks Alþfl. Sá flokkur hefur haft það að einu sínu helsta og hávaðasamasta baráttumáli að lögbundin framlög úr ríkissjóði yrðu afnumin, framlög úr ríkissjóði yrðu ákveðin í fjárlögum ár hvert og markaðir tekjustofnar hyrfu úr sögunni. Þetta hefur verið eldheitt baráttumál Alþfl., og þá alveg sérstaklega hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, um mörg undanfarin ár. Í seinustu ríkisstj. fluttu þm. Alþfl. sérstakt lagafrv. hér á Alþ. þar sem ráð var fyrir þessu gert, og eftir nánari skoðun var það niðurstaðan í ríkisstj., sem hér var við völd fyrir einu ári, að fallast á að þessi krafa Alþfl. yrði tekin til athugunar. Sérstök nefnd var skipuð til að gera tillögur um afnám lögbundinna framlaga úr ríkissjóði. Till., sem hér er til umr., gengur hins vegar í þveröfuga átt, eins og allir hv. þm. vita. Hún gengur út á það eitt að við eigum nú í maímánuði 1979 löngu áður en fjárlagaundirbúningur er hafinn, að ákveða upp á krónu hvað varið skuli miklu fé úr ríkissjóði til tiltekins málefnis. Ég veit að ekki efast nokkur maður um það í þessari hv. d., að ef Sighvatur Björgvinsson, hv. þm. Vestf., væri nú fjmrh. mundi hann hafa tekið aðra stefnu í þessu máli en nú án þess að hvika. Allt annað hefði verið í hrópandi mótsögn við málflutning hans og kröfugerð á liðnum árum. En vegna þess að hv. þm. finnur að það er hægt að notfæra sér þau mistök, sem urðu hér í d. í nótt þegar fjórir þm., þ. á m. ég sjálfur, voru fjarstaddir þessa atkvgr., og þm. finnur, að hægt er að valda einhverjum vandræðum og koma af stað einhverjum illdeilum um þetta mál vegna þess að svona slysalega tókst til, þá er hann auðvitað reiðubúinn til að snúa blaðinu algerlega við og hafa allt aðra skoðun en hann hefur haft fram að þessu.

Hv. þm. óskapast yfir því að ég skuli hafa flutt till., sem er í fullu samræmi við sannfæringu þm. sjálfs um að ekki skuli ákveða með lögum framlög af þessu tagi til viðbótar því sem nú er þegar ákveðið í lögum. Hann er að óskapast yfir því, að ég skuli gera till. um að leiðrétting sé gerð í þessa áttina. En hvað er í raun og veru athugavert við að ég standi við skoðun mína og snúist ekki eins og skopparakringla, eins og hv. þm. hefur gert? Ég hef ekki beðið hv. d. eða hv. dm. um að breyta um skoðun. Ég fer ekki fram á að nokkur hv. dm. hafi aðra skoðun eða aðra afstöðu í þessu máli en hann hafði þegar atkvgr. fór fram. En það er öllum kunnugt að það vantaði níu dm. þegar atkvgr. fór fram og það eru verulegar líkur á því, að raunverulegur vilji þd. hafi ekki komið fram. Þess vegna þykir mer eðlilegt að d. fái nýtt tækifæri til að taka afstöðu til málsins.

Ég vil taka það fram, að ég tel að efni till. sé mjög góðra gjalda vert. Þetta er mjög eðlileg ábending af hálfu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Ef styrktarsjóðurinn á að taka við því hlutverki, sem sjóður vangefinna áður hafði, er vafalaust þörf á meira fjármagni. Ég býst við að allir hv. þm. geti verið á einu máli um að efnislega séð sé till. hv. þm. mjög eðlileg. En hún er einfaldlega í mótsögn við þá stefnu, sem hér hefur hægt og þétt verið að verða ofan á, að ekki ætti að lögbinda framlög til einstakra mála löngu áður en fjárlög eru tekin til afgreiðslu.

Vegna þess að ekki er neinn efnislegur ágreiningur um að auka þurfi framlög í þessu skyni tel ég að sjálfsögðu eðlilegast að við hugleiðum þetta mál yfir helgina og athugum hvort ekki væri hægt að finna einhverja samkomulagsleið, vegna þess að ég tel að hér sé ekki um að ræða þess háttar mál að við þurfum að eyða mörgum klukkutímum til að ræða það. Ég held að hitt væri miklu eðlilegra, að við ræddum saman um málið og athuguðum hvort við gætum ekki komist að einhverri sameiginlegri niðurstöðu sem fullnægði bæði því sjónarmiði að lögbinda ekki nákvæmlega framlag, sem á að vera til meðferðar við fjárlagagerð í haust, annars vegar og hins vegar, að menn geti fengið ákveðin vilyrði fyrir því, að framlög í þessu skyni verði aukin. Það er sem sagt hugmynd mín að við notum tímann sem gefst, úr því að þingi á ekki að slíta fyrr en um miðja næstu viku og úr því að þetta mál er nú til 3 umr. í síðari deild, til að ræða í bróðerni um málið og athuga hvort við getum ekki komist að sameiginlegri niðurstöðu sem allir geta við unað. Takist það ekki gengur málið til atkv. og þá fáum við að sjá hvort það er raunverulegur vilji d., sem fram kom á þingfundinum í gær, eða ekki. Vissulega mun ekki reyna á það fyrr en atkvgr. fer fram, ef hún þá fer fram, en fyrst finnst mér að við ættum að ræða saman um málið og leita samkomulags.