17.12.1980
Neðri deild: 35. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1644 í B-deild Alþingistíðinda. (1757)

47. mál, niðurfelling á opinberum gjöldum barna 1980

Frsm. 3. minni hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. 3. minni hl., en í honum eru jafnmargir og voru í þeim 1. og þrisvar sinnum fleiri en í 2. minni hl. En það geta alltaf komið fyrir mistök. Forseti hlýtur að vera orðinn þreyttur eins og fleiri hér, því að haldið er áfram og ekki spurt hvað tímanum líði, og sennilega er vandvirkni í meðferð mála í samræmi við það, enda sjást þm. nú varla hér inni tímunum saman. Þeir eru farnir að halda til einhvers staðar annars staðar í húsinu en hér í þd., og það fer kannske vel á því að mörgu leyti, miðað við það sem er að gerast hér þessa daga undir hinni styrku forustu hæstv. ríkisstj.

Hv. frsm. 1. minni hl., formaður fjh.- og viðskn., belgdi sig töluvert út þegar hann mælti gegn þessu frv. og var að rembast við að reyna að vera hneykslaður á flutningi þessa frv. um að fella niður skatta á tekjum barna innan 16 ára aldurs. Ég vil benda honum á það, sem hann raunar veit mjög vel, að flm. þessa frv. og við, sem stöndum að því nál. sem ég er að mæla hér fyrir, erum ekki að gagnrýna álagningu tekjuskatts, útsvars eða sjúkratryggingagjalds og kirkjugarðsgjalds á börn innan 16 ára aldurs, heldur að leggja til að þetta verði fellt niður á álagðar tekjur skattársins 1979, fellt niður á árinu 1980. Ástæðan fyrir því, að við leggjum til að þetta falli niður á þessu ári, er sú, að álagningin fer ekki fram fyrr en undir lok ársins, og svo langt gengur stjórnarliðið í innheimtu, að það á að innheimta þessa skatta í tveimur greiðslum, 1. nóv. og 1. des. Þetta hlýtur að hafa í för með sér að það verður víða þröngt í búi hjá fjölskyldum, þar sem börn hafa unnið á árinu 1979, þegar þetta kemur svo á eftir.

Við þekkjum það, sem fullorðnir erum, að við leggjum ekki alltaf til hliðar, þegar skattar eru lagðir á okkur eftir á, og verðum stundum að leggja hart að okkur til þess að standa við greiðslu þeirra. Er þá að búast við því, að börn gæti þess vel? Þegar þau afla tekna á árinu 1979 og auðvitað aftur á árinu 1980 er þessum tekjum yfirleitt eytt jafnóðum. Og þegar kemur að því að á að greiða þetta eftir að skólar eru byrjaðir og flest börn eru búin að kaupa sér eitthvað eða sum að eyða, því miður, þá má segja að þessir skattar komi að verulegu leyti á foreldra barnanna ofan á skattabrjálæðið sem fyrir er á heimilin. Það er þetta sem um er að ræða, það er þetta sem við erum að gagnrýna, og það er þetta sem við erum að leggja til að verði fellt niður á þessu ári.

Þegar þessi skattalög voru sett á sínum tíma var reiknað með staðgreiðslukerfi skatta, og sú skoðun okkar, sem flytjum þetta frv., nm. í fjh.- og viðskn. sem mælum fyrir þessu nál., er óbreytt, að þessi skattlagning sé rétt. Við erum ekkert að hverfa frá því. En hitt er uppsuða, sem hv. talsmaður 2. minni hl. var að tala um, að hér hefði átt sér stað stórfellt óréttlæti þegar þessi breyting var gerð, og þetta ímyndaða tal hjá krötunum um hátekjufólk er orðið þreytandi að hlusta á. Þeir eru alltaf aftur í grárri forneskju, þegar nær enginn hafði til hnífs eða skeiðar og örfáir menn í landinu höfðu nokkrar tekjur. Þeir eru alltaf að tala fyrir þetta fólk sem varla er til. Hv. 3. þm. Vestf., sem var að mæta fyrir þessari uppsuðu sinni áðan, ætti að athuga sinn gang langtum betur áður en hann lætur slíkt út úr sér fara. Hvar eru þessir skattar lagðir á? Þeir eru fyrst og fremst lagðir á í sjávarplássum landsins. Það er tiltölulega lítill hluti sem kemur hér í Reykjavík,vegna þess að börnin hér í Reykjavík hafa það litla vinnu. En það er verið að leggja þetta á víða úti um land. Og áberandi er það, að hæstu upphæðirnar, sem lagðar eru á, eru í því kjördæmi sem hefur kosið þennan hv. þm. á þing og á Austfjörðum. Þar eru þessir skattar hæstir. Og ég spyr þennan hv. þm.: Ætlar hann að halda sér aftur í grárri forneskju lengi? Hann er búinn hér í dag ýmist að verja ríkisstj. eða hanga aftan í henni, halda í hana dauðahaldi. Svo hleypur hann hér í kvöld til að skamma Alþb. af því að það er enginn þeirra Alþb.-manna staddur í salnum nema forsetinn sem má ekkert segja.

Hvað er að gerast í sambandi við þessa tekjuöflun? Hvers vegna eiga ekki allir að greiða sömu skatta? Ef eitthvert barn vinnur í frystihúsi eða annars staðar og aflar hárra tekna, þá vill hann skattleggja það meira en önnur börn ef faðirinn eða móðirin hefur háar tekjur. Hvers á þessi drengur eða stúlka að gjalda? Hann á sama rétt og aðrir. Þetta dregur úr vinnu, þetta dregur úr framleiðslunni. Það verður þessi hv. þm. að skilja. Eða vill hann hafa þessi börn öll á Mallorka eða Kanaríeyjum eða Ítalíu eða hvert það nú er sem það sækir. Ég tel það virðingarverða viðleitni þegar þetta fólk vinnur og þessi börn. Það er höfuðatriði málsins.

Ég harma t.d. hvað tekjur barna eru lágar í Reykjavík, sem sýnir hvað erfitt er að útvega börnum hér vinnu. Í Reykjavík eru ekki lagðar nema rúmlega 90 millj. á 2679 einstaklinga. Á Vestfjörðum eru lagðar á 519 einstaklinga næstum því 43.4 millj. og Austfirðir fylgja fast á eftir, þar eru lagðar á 780 einstaklinga 38.4 millj., svo að þessi kjördæmi eru langhæst.

En svo spyr ég: Hvernig stendur á því, að fjölmörg sveitarfélög í landinu hafa fellt þessa skatta niður á þessu ári með sömu rökum og við leggjum til að gert verði? Af hverju eru sveitarstjórnarmenn að þessu? Þeir eru að því vegna þess að þeir telja sanngjarnt og eðlilegt að þetta sé gert eins og ástatt er. En í Reykjavík, þar sem munar minnst um þessa upphæð vegna þess hve lág hún er, þar er fellt í borgarstjórn með 8:7 atkv. að fella þessa skatta niður, af því að þar er kominn vinstri meiri hluti. Það er nú víðsýni þessa vinstra liðs. Þetta er ein ógæfan þegar það nær saman, þetta lið. Það er ekki glæsilegt, hvorki í borgarstjórn né á Alþingi, þegar þessi niðurrifsöfl ná saman. Hugsið ykkur nú hvað þessir menn eru forstokkaðir gegn því að gera sjálfsagðar og eðlilegar breytingar. Þetta eru álagðir skattar samtals upp á 424 millj. á öllu landinu. Og alltaf fellur eitthvað úr. Þetta er lagt á 6789 einstaklinga og þar af eru til sveitarfélaganna næstum því 97 millj. kr.

Ég er hissa á formanni fjh.- og viðskn., sem er með gleggstu þm., að taka þá afstöðu til þessa sjálfsagða máls sem hann gerði. með svona síðbúinni álagningu og innheimtu á tveimur síðustu skattagjalddögum ársins er þetta í reynd að verulegu leyti skattur á heimilin, ofan á alla þá skatta aðra, sem lagðir hafa verið á heimilin í landinu á þessu ári. — Og það er kominn tími til fyrir Alþfl.-menn, hvort sem það eru hægri kratar, vinstri kratar, toppkratar eða vanmetakratar, að hugsa betur sinn gang og flytja ekki slíka ræðu eins og hv. 3. þm. Vestf. flutti í sambandi við þetta mál.