19.12.1980
Sameinað þing: 38. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 1790 í B-deild Alþingistíðinda. (1956)

1. mál, fjárlög 1981

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Á þskj. 329, brtt. við frv. til fjárlaga undir VI. lið, er brtt. frá hv. þm. Friðrik Sophussyni, Karvel Pálmasyni, Guðmundi Karlssyni og Lárusi Jónssyni um að til gjalda á fjárlagafrv. verði 2 milljarðar vegna flugstöðvarbyggingar á Keflavíkurflugvelli og tekin lán að sömu upphæð. Í tilefni af þessari brtt. vil ég segja þetta:

Eins og raunar er kunnugt hefur utanrrh. borið fram tillögu í ríkisstj. um að sérstök lántaka vegna flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli verði tekin inn á fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Tillaga utanrrh. hefur ekki verið afgreidd í ríkisstj., en hann hefur áskilið sér rétt til að bera fram brtt. við lánsfjáráætlun. Nú er verið að endurskoða hönnun byggingarinnar með það fyrir augum að lækka byggingarkostnað, og væntanlega verður því verki lokið um miðjan febrúarmánuð n.k. Með tilliti til þessa og svo hins, að lánsfjáráætlun verður ekki afgreidd fyrr en að loknu jólaleyfi þm., sýnist eðlilegast að fresta ákvörðunum í þessu máli.