04.03.1981
Neðri deild: 60. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 2698 í B-deild Alþingistíðinda. (2837)

212. mál, reglugerð um sjómannafrádrátt

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Mál þetta á þskj. 419 er till. til þál. sem við hv. þm. Pétur Sigurðsson flytjum og er á þá lund, að „Alþingi ályktar að skora á fjmrh. að gera þá breytingu á reglugerð nr. 310 frá 27. júlí 1980, um sjómannafrádrátt, að dagafjöldi samkv. 2. gr., sem sjómannafrádráttur er heimilaður fyrir, verði ákveðinn með hliðsjón af ráðningartíma í stað lögskráningardaga.“

Í gildandi skattalögum eru ákvæði um þennan sjómannafrádrátt sem samkv. orðanna hljóðan í skattalögunum á að veita sjómönnum sem lögskráðir eru á íslensk fiskiskip. Í sumar gaf hæstv. fjmrh. út reglugerð samkv. þessum lögum um hvernig ætti að framkvæma frádrátt þennan. Samkv. reglugerðinni er sjómannafrádráttur aðeins heimill fyrir þá daga sem viðkomandi sjómaður hefur verið lögskráður.

Nú vitum við að það er mjög algengt, t. d. á togurum, að á hverjum togara sé hálf önnur áhöfn og sjómaður sé í landi í þriðja hverjum túr. Þá eru þessir menn afskráðir og missa þar með sjómannafrádráttinn sem þeir ella hefðu fengið. Þá gerist það einnig, þegar sjómenn verða fyrir stystum eða veikindum, að þeir eru afskráðir og fá ekki þennan sjómannafrádrátt þar af leiðandi fyrir þá daga sem þeir eru fjarverandi vegna veikinda eða slysa, nema eftir umsókn þar að lútandi til viðkomandi skattstjóra, þar sem það yrði lagt í vald skattstjóra og væntanlega ríkisskattstjóra og ríkisskattanefndar hvort tillit yrði tekið til slíkra óska.Í þriðja lagi hefur það gerst og er vitað um nokkur dæmi um það, m. a. norðan af Akureyri, að þegar fiskiskip kemur í höfn til þess að landa afla t. d. að morgni til, þá er öll áhöfnin afskráð frá og með þeirri stundu, þegar skipið tekur höfn, og sama áhöfn skráð aftur á skipið daginn eftir, þegar það heldur úr höfn, til þess einvörðungu að spara útgerðinni kostnað við greiðslu iðgjalda af tryggingum þessara manna. Þessar aðferðir gera það að verkum, að viðkomandi sjómenn, sem eru fastráðnir á skipið og dveljast aðeins í landi einn sólarhring eða tæplega það, missa sjómannafrádrátt vegna þessara athafna útgerðaraðilans.

Þessi mál hafa nokkuð verið rakin af hálfu forsvarsmanna sjómannasamtaka í landinu nú að undanförnu og óskað leiðréttingar þar sem þeir hafa talið að svona framkvæmd hafi ekki verið í huga Alþingis þegar lögin, sem heimiluðu lögskráðum sjómönnum sérstakan frádrátt, voru sett. Tveir af forsvarsmönnum sjómanna komu nýverið að máli við fjh.- og viðskn. Alþingis og lögðu þessa ósk þar fram og sögðust hafa rætt málið við hæstv. fjmrh. Í umr. nokkru síðar kannaðist hæstv. ráðh. hins vegar ekki við, að neitt slíkt erindi hefði borist sér, og lét í veðri vaka að hann vildi gjarnan fá slík tilmæli formlega. Þar sem þessi tilmæli hafa af einhverjum ástæðum ekki borist fjmrh. og hann lét í veðri vaka að hann mundi e. t. v. sinna þessum einföldu tilmælum um smávægilega breytingu á reglugerð um sjómannafrádrátt ef tilmæli um það kæmu fram til hans, þá brugðum við hv. þm. Pétur Sigurðsson á það ráð að flytja till. til þál. um þetta efni til þess að í ljós kæmi hver sé vilji löggjafans í þessum efnum og hvernig löggjafinn vilji túlka þær gerðir sínar sem fólust í ákvæði nýlega samþykktra skattalaga um frádrátt til lögskráðra sjómanna á íslenskum fiskiskipum.

Herra forseti. Þetta er ekki stórt mál né flókið og ég tel ástæðulaust að hafa öllu fleiri orð um það, en óska eftir að till. þessari verði að lokinni umr. nú vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.