01.04.1981
Neðri deild: 70. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3317 í B-deild Alþingistíðinda. (3410)

261. mál, jafnrétti kvenna og karla

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég tel ástæðu til þess að fagna þessu stjfrv. um heilbrigðis- og vistunarþjónustu fyrir aldraða. Ég tel að þetta frv. sé vissulega mikilvægur þáttur til lausnar heilbrigðis- og vistunarþjónustu fyrir aldraða, en það er án efa mest aðkallandi vandamál sem við er að glíma í dag í heilbrigðisþjónustunni hér á landi, eins og ég held að flestum hv. alþm. sé ljóst. Ég tel sérstaklega mikilvægt í þessu frv. að gerð er tilraun til að skipuleggja og nýta þá aðstöðu sem er fyrir hendi eða er að verða til í sambandi við heilsugæslustöðvar víðs vegar um land samkv. lögum um heilbrigðisþjónustu. Skipulag og nýting þessarar aðstöðu hefur til þessa verið í lágmarki og verulega vannýtt. Eitt dæmi um þetta er sú staðreynd, að reglugerðir um starfssvið og skipulag heilsugæslustöðva hafa látið á sér standa frá því að lögin voru sett þrátt fyrir loforð og yfirlýsingar fyrrv. heilbrmrh. hér á hv. Alþingi.

Ég geri mér hins vegar fulla grein fyrir því, að þessi þjónusta eykur verulega útgjöld sveitarfélaga í rekstri heilsugæslustöðvanna. Einn veigamikill þáttur í lögum um heilbrigðisþjónustu frá 1978 er ákvæði 34. gr. laganna um að við H 2 heilsugæslustöðvar, þar sem ekki er sjúkrahús, skuli byggja hjúkrunarheimili með 85% framlagi ríkissjóðs og 15% framlagi sveitarfélaga. Þessi hjúkrunarheimili eiga m. a. að verulegu leyti að auðvelda heilbrigðis- og vistunarþjónustu fyrir aldraða á þeim svæðum. Til þessa hefur þessi þáttur í uppbyggingu heilsugæslustöðva verið algerlega út undan. Hjúkrunarheimilin bíða fullhönnuð við þessar H 2 stöðvar, en fjármagn hefur enn ekki fengist til byggingar þeirra. Ég nefni sem dæmi Höfn í Hornafirði, Dalvík, Bolungarvík, Ólafsvík og fleiri staði. En ég vænti þess, að með samþykkt þessa frv. breytist viðhorf til þessara mála.

Ég vil þá segja það, að ég tel að til greina hefði komið að þetta frv. yrði sérkafli í lögum um heilbrigðisþjónustu. En þá hefði um leið þurft að setja sérlög — og raunar þarf að setja sérlög um félagslega þáttinn í vistunarþjónustu fyrir aldraða. Sá þáttur er vissulega víðfeðmur. Þar er í dag óteljandi vandamál við að eiga. T. d. tel ég nauðsynlegt að efla heimilishjálp almennt. Þessi þjónustu er víða mjög ófullkomin eða alls ekki til þrátt fyrir lög nr. 10 frá 1952.

III. kafla frv. tel ég að skoða þurfi sérstaklega með tilliti til eflingar samræmdrar þjónustu fyrir aldraða í heimahúsum í samvinnu við sveitarfélögin. Og í sambandi við þessi mál almennt tel ég nauðsynlegt að athuga vel viðhorf og möguleika sveitarfélaga til að sinna þessu brýna verkefni svo að viðunandi sé, því að ég tel augljóst að mörg þeirra hafi litla möguleika til að leysa þessi mál nema með auknum tekjustofnum.

Í þessu frv. er ákveðið hvaða stofnanir ríkið byggir og hverjar sveitarfélögin, sbr. IV. kafla, 15. gr., en þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Sveitarstjórnir annast byggingar dvalarheimila samkv. II. gr. b. stl. á eigin kostnað, sbr. þó 7. gr. 2. tl.“

Í 11. gr. stendur í b-lið:

„Dvalarheimili aldraðra með íbúðarherbergjum og snyrtingu ásamt aðstöðu fyrir tómstunda- og félagsstarfsemi fyrir vistmenn.“

Til þessa verkefnis eiga þau að eiga kost á láni úr Framkvæmdasjóði samkv. II. kafla 7. gr. 2. lið, en þar stendur: „Að veita sveitarfélögum og öðrum, sem starfa eftir lögum þessum, framlag til kaupa eða bygginga á húsnæði fyrir aldraða.“ Það er skoðun mín, að þetta ákvæði í frv. þurfi að athuga vel í samráði við samtök sveitarfélaga. Vil ég vænta þess í þessu sambandi, að Samband ísl, sveitarfélaga fái tækifæri til að fjalla um frv. í heild.

Þá tel ég að athuga þurfi sérstaklega kaflann um Framkvæmdasjóð aldraðra. Við fyrstu sýn virðist mér hann vera of veikburða og tekjuöflun til hans vafasöm. Það er skoðun mín að skattur á skemmtanahald, hverju nafni sem nefnist, eigi tvímælalaust að renna óskiptur til byggingar félagsheimila, en ekki dreifa honum eins og nú er eða ráðstafa honum til nýrra verkefna. Í mínum huga hefði frekar komið til greina að ákveða grunngjald til þessa verkefnis í fjárlögum, þar sem ákveðið yrði í lögunum visst árabil, t. d. 5–10 ár, með verðlagshækkunum, eins og gert var t. d. um Framkvæmdasjóð þroskaheftra. Ég tel að það sé heppilegri aðferð til að takast á við verkefni sem allir virðast vera sammála um. Hví þá ekki að setja þetta áform þannig í lög, að ekki verði frá því vikist með lagasetningu?

Ég tel einnig rétt að láta þá skoðun mína koma hér fram við 1. umr., að ég er ekki sannfærður um að ellimálanefndirnar hafi möguleika til að ná yfir allt það verkefni sem þeim er ætlað í frv., eins og þær eru samsettar. Mér virðist að þetta verkefni sé það viðamikið og spanni yfir það mörg svið í þessari þjónustu, að ég tel að komi til greina að breyta þessu þannig að það verði með öðrum hætti.

Mér þykir til hlýða, vegna þeirra aths. sem hér komu fram fyrr við umr. í dag, að láta það koma fram, að fulltrúi Framsfl., sem fjallaði um samningu þessa frv., hafði samráð við þingflokkinn sem gerði ýmsar aths. við frv. sem ekki hafa verið teknar til greina. Þingflokkurinn hefur þess vegna vissa fyrirvara um nokkur atriði frv. við frekari umfjöllun þess í nefnd og hér í hv. deild. Ég vil í framhaldi af því fara hér yfir nokkur atriði sem þingflokkurinn fjallaði um eða taldi þurfa að skoða nánar í sambandi við þetta frv., og það fellur að nokkru leyti saman við þær persónulegu skoðanir sem ég hef fyrr látið í ljós.

Í fyrsta lagi kom það fram í umfjöllun þingflokksins, að meiri félagslega sýn vantaði í frv. þar sem það hlyti að vera markmiðið að tengja félagslega og heilbrigðislega þjónustu saman fyrir aldraða. Það kom einnig fram í viðhorfi þingflokksins, að hann taldi að of mikið vald væri í höndum ráðh. í sambandi við þessi mál, bæði skipun allra ellimálanefnda og úthlutun úr Framkvæmdasjóði. Þetta er — eins og allir, sem hafa lesið frv., sjá — mjög skilgreint, þar sem í flestum eða öllum tilfellum er reiknað með afskiptum ráðh. í sambandi við þessi lög. Nú er ég ekki að draga í efa nauðsyn þess, að yfirstjórn þessara mála sé í höndum ráðh. eða ráðuneytis, en þetta er það stórt mál, bæði heilsufarslegt og félagslegt mál, að það kæmi vissulega til greina að dreifa þessu valdi.

Þá taldi þingflokkurinn að hlutverk ellimálanefnda væri of víðtækt, og þar kom einnig fram gagnrýni á nafnið, ellimálanefndir, sem hér hefur raunar áður komið fram við umr. í dag.

Það var einnig gagnrýnt, að ekki er skylda, að félagslega menntaður maður sé í nefndinni, og ekki skylda að hafa félagsráðgjafa, sbr. 4. gr., sem margir telja brýna nauðsyn, miðað við þær kröfur sem gerðar eru til þessara mála í dag.

Þá var einnig talað um það, að heilsugæsluhjúkrunarfræðingur er nánasti samstarfsmaður og undirmaður heilsugæslulæknis og að e. t. v. kynni að ríkja of þröngt sjónarmið í nefndinni.

Þingflokkurinn var einnig sammála um það sem kom fram hér hjá mér áður, að það hefði e. t. v. verið heppilegra að fella heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða inn í heilbrigðislöggjöfina eða lög um heilsugæslustöðvar beint. Einnig kom fram í þingflokkunum, sem mér þykir ástæða til að segja hér frá, að skoða bæri hvort ekki væri rétt að hluti lífeyrisgjalda yrði tekjustofn í Framkvæmdasjóð. Um þetta má að sjálfsögðu deila, en aðalatriðið er að finna á þessu flöt sem er öruggt að gefi þær tekjur sem á þarf að halda.

Þetta eru aðeins nokkrar athugasemdir sem komu fram í þingflokki framsóknarmanna um þetta mál, og þó að þingflokkurinn hafi margt við drögin að athuga taldi hann rétt að frv. væri lagt fram með einhverjum lagfæringum og þess freistað að fá um það umsagnir og umfjöllun þannig að afgreiðsla náist á þessu þingi.

Það væri vissulega margt hægt að segja um þessi mál almennt og ekki síst með tilliti til þessa frv. E. t. v. finnst mörgum frv. bera of mikinn svip af sjúkrastofnanaviðhorfi, og segja má að það sé e. t. v. eðlilegt þar sem aðalefni þess er í beinum tengslum við sjúkrastofnanir. Ég vil endurtaka það, að ég tel nauðsynlegt að taka félagslegan þátt þessara mála til ítarlegrar endurskoðunar. Ég segi ekki að nauðsynlegt sé að það sé gert í sambandi við afgreiðslu þessa frv., en alla vega er ljóst að þessi mál í heild þurfa skoðunar á þessum vettvangi einnig, félagsleg hlið þessara mála.

Ég vil láta það koma fram hér, að ég vil a. m. k. halda því fram, að ég hafi misskilið hv. 1, landsk. þm., því að ég get ekki lesið það út úr þessu frv., að það eigi að fara að setja hömlur á hina frjálsu uppbyggingu stofnana fyrir aldraða í landinu eins og hann heldur fram. Ég get ekki fellt mig við þá skoðun, að hægt sé að lesa það út úr þessu frv., því að það er andstætt því sem ég og fleiri viljum halda í gildi. Við viljum efla slíka starfsemi.

En aðalatriði þessa máls er að mínu mati á hvern hátt er hægt að útvega meira fjármagn til framkvæmda. Þetta frv. leysir ekki það vandamál nægilega vel, nema því aðeins að hæstv. ríkisstj. og Alþingi, alþm. sjái og finni möguleika á að stórauka fjárveitingar til þessa verkefnis, sérstaklega við næstu fjárlagagerð. Og ég vil vona að svo verði, ef marka má þá skoðun þm. sem hér hefur þegar komið fram.