02.04.1981
Sameinað þing: 69. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3369 í B-deild Alþingistíðinda. (3449)

15. mál, landhelgisgæsla

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég skal gera tilraun til að lengja ekki þessa umr., hún er nú orðin nægilega löng. Ég vil bara að það komi skýrt fram, að sú ræða, sem ég flutti hér s. l. þriðjudag, var í beinu framhaldi af orðum hv. þm. Geirs Hallgrímssonar, formanns utanrmn., þegar hann gerði grein fyrir umfjöllun utanrmn. um till. sem hv. þm. Benedikt Gröndal og ég fluttum um eflingu landhelgisgæslunnar. Það var því hvorki óeðlilegt né að öðru leyti óskynsamlegt að mínu mati að ítreka þær umsagnir sem við höfum haft um nauðsyn þess að efla landhelgisgæsluna, og þær upplýsingar, sem ég flutti hér, eru, eins og ég hef áður sagt, beint frá starfsmönnum Landhelgisgæslunnar. Hafi hv. þm. Garðari Sigurðssyni þótt ég of fullyrðingasamur í ræðu minni vil ég lýsa því yfir, að margir hafa verið fullyrðingasamari en ég úr þessum ræðustól. Telji hv. þm. Garðar Sigurðsson að fullyrðingar mínar eigi ekki við rök að styðjast getur hann átt um það við starfsmenn Landhelgisgæslunnar, sem verða að nota þau tæki sem við höfum verið að ræða hér um.

Í annan stað skil ég ekki þá umræðu sem hér hefur hafist um fjölmiðla í sambandi við þá ræðu sem ég flutti hér s. l. þriðjudag. Ég fæ ekki botn í hana, enda er hún opin í báða enda, sú umræða sem menn hafa hafið hér, og sérstaklega á það hv. þm. Garðar Sigurðsson.

Ég er búinn að starfa við fjölmiðlun í 13 ár. Sjálfur reyndi ég það oft hvernig hv. þm. reyndu að hafa áhrif á fréttamenn með því að atyrða þá. Sjálfur var ég tekinn á beinið í ráðuneytum tveggja hæstv. ráðh. á þeim árum. Mér var sagt til syndanna og mér sagt hvernig ég ætti að segja fréttir. Þá reyndu líka margir hv. þm. að hafa áhrif á fréttaflutning fréttastofu útvarps með því að hafa beint samband við fréttamenn. Ræður af þessu tagi eru gersamlega óþolandi. Þegar þm. standa hér í ræðustól og segja fréttamönnum hvernig þeir eigi að haga sér í störfum sínum er það fyrir neðan allar hellur, einkum og sér í lagi vegna þess að fréttamennirnir hafa ekki tækifæri til að svara fyrir sig á sama vettvangi. Ég verð að segja það, herra forseti, að umræða af því tagi, sem hv. þm. Garðar Sigurðsson hóf hér, er fyrir neðan allar hellur. Hann ætti kannske að taka saman hversu mörg viðtöl fréttamenn útvarpsins hafa átt við hæstv. ráðh. Alþb. undanfarnar vikur og mánuði — honum finnst það kannske ekkert of mikið — eða hv. þm. Framsfl. eða þann hluta Sjálfstfl. sem tekur þátt í ríkisstjórnarsamstarfinu. Menn mega ekki gleyma því, að það er líka til stjórnarandstaða á Íslandi og það er málfrelsi á Íslandi. Það er réttur og skylda fréttamanna að flytja orð stjórnarandstöðunnar jafnt og ríkisstj. Það er óumdeilt að ríkisstj. á hverjum tíma er mun meira í fjölmiðlum en stjórnarandstaða á hverjum tíma. Um þetta verður ekki deilt.

Ég vil svo að endingu segja það, herra forseti, að ég vona að sú umr., sem hér hefur orðið um landhelgisgæsluna, geti orðið til þess, að hún skipi þann sess í hugum ráðamanna þjóðarinnar og hv. þm. hér á Alþingi, sem hún gerði á þeim dögum þegar hún var stolt þessarar þjóðar í baráttu við erlend herskip, og að við gleymum ekki þeim verkefnum, sem Gæslunni eru ætluð, og að við gleymum því ekki, að þar er á ferðinni sú stofnun sem á að gæta þess auðs sem við höfum aflað okkur með áratugabaráttu, eins mesta matarforðabúrs veraldar.