13.04.1981
Neðri deild: 79. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3688 í B-deild Alþingistíðinda. (3770)

220. mál, tímabundið olíugjald til fiskiskipa

Frsm. 1. minni hl. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Það er engin ástæða til þess fyrir okkur stjórnarandstæðinga að neita því að ræða þetta mál allítarlega þegar hæstv, sjútvrh. og stjórnarliðar halda hér uppi gegndarlausu málþófi. Það er alveg ástæðulaust að skorast undan því að ræða við þessa menn hér ef þeir vilja eyða tímanum í það og telja ekki nógu langt um liðið frá því að þetta frv. átti að vera orðið að lögum miðað við allar forsendur. Það virðist vera að hæstv. sjútvrh. og formaður sjútvn., hv. þm. Garðar Sigurðsson, telji að enn þurfi að eyða tíma frekar svo að málið nái ekki fram að ganga.

Hv. þm. Garðar Sigurðsson sagði að þessi samþykkt, sem ég las hér upp, frá Sjómannasambandi Íslands væri frá þingi þess í haust. Það er rétt, hluti samþykktarinnar er frá því í haust. En ég vil biðja hv. þm. Garðar Sigurðsson að hlusta nú vel. Hann hefur örugglega lesið þetta, en menn virðast ekki alltaf vilja hafa það sem sannara reynist.

Í lokakafla bréfs Sjómannasambands Íslands, sem er undirskrifað af forseta þess, Óskari Vigfússyni, segir orðrétt, með leyfi forseta, og nú bið ég hv. þm. Garðar Sigurðsson að taka eftir:

„Þá viljum við taka fram, að þar sem nú liggur fyrir að löggjöf er væntanleg um endurnýjun á þessu gjaldi í tengslum við síðustu fiskverðsákvörðun, þá hefur það í engu breytt fyrri afstöðu okkar, og hefur henni verið komið á framfæri í Verðlagsráði.“

Hvað segir þetta? Þetta bréf er dagsett 23. mars, þegar verið er að fjalla um þetta frv. sem við nú ræðum hér í þinginu. Eiga þá þessi mótmæli ekki við um þetta frv. eins og hin fyrri, sem hv. þm. Garðar Sigurðsson og hæstv. ráðh. hafa talað hér gegn, en greiða atkvæði með? Jú, það er einmitt sérstaklega tekið fram í þessu bréfi Sjómannasambandsins að mótmæli þess hafi verið ítrekuð einmitt í ljósi þess, að þetta frv. er til meðferðar í þinginu og á að lögfesta það. En langt er nú seilst hjá sumum í því að reyna að verja slæman málstað.

Hæstv. sjútvrh. sagðist hafa lesið loforð sem hann hefði gefið fyrir sáttasemjara. Vel má vera að svo hafi verið. Ég spyr því að ég hef ekki fengið svar enn, en óska ítrekað eftir svari: Ber að skilja orð hæstv. sjútvrh. svo, að hann haldi því fram, að stjórn Sjómannafélags Ísfirðinga sé að fara með ósannindi í þessari yfirlýsingu? Enn verð ég að lesa fyrir hæstv. ráðh., eins og hv. þm. Garðar Sigurðsson. Það segir hér orðrétt, og nú bið ég hæstv. ráðh. að taka líka eftir:

„Vill stjórnin minna á að við seinustu kjarasamninga gaf núv. sjútvrh., Steingrímur Hermannsson, forsvarsmönnum sjómannasamtakanna á Vestfjörðum skýlausa yfirlýsingu þess efnis, að það væri skoðun hans og stefna, að olíugjaldið yrði alfarið fellt úr gildi, og mundi hann vinna að því með öllum tiltækum ráðum að svo yrði sem allra fyrst.“

Hvað er skýlaus yfirlýsing í þessum dúr annað en loforð um að beita sér fyrir því með öllum tiltækum ráðum að afnema þetta gjald? Ég spyr enn og aftur: Eru það ósannindi sem stjórn Sjómannafélags Ísfirðinga setur í yfirlýsingu sína og höfðar til orða hæstv. ráðh.? Er verið að ljúga? — á góðri íslensku spurt: Vill ekki hæstv. ráðh. koma hér upp og segja annaðhvort já eða nei. Um það er beðið.

Ég skal segja honum það strax að ég trúi því að þetta sé rétt. Og það skyldi ekki vera að það væri hægt að finna gögn þar að lútandi sem staðfesta það, væri betur skoðað og grandleitað í sambandi við þessa lausn á málinu.