27.04.1981
Efri deild: 84. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 3757 í B-deild Alþingistíðinda. (3853)

4. mál, almenn hegningarlög

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er um að ræða, fjallar um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19 frá 1940, sbr. lög nr. 22 frá 1955. Það hefur verið sýnt tvisvar áður á Alþingi.

Frv. er samið af hegningarlaganefnd og er þáttur í endurskoðunarstarfi hennar á hegningarlöggjöfinni. Í því er fjallað um breytingar á tveimur köflum hegningarlaganna. Annars vegar eru breytingar á 9. kafla þar sem fjallað er um fyrningu sakar og brottfall viðurlaga og ákvæði tengd þeim. Er um það efni fjallað í 1.–8. gr. frv. Í 10.–12. gr. er fjallað um 23. kafla laganna og eru í frv. greinunum gerðar breytingar á lagaákvæðunum um líkamsmeiðingar. Breytingarnar eru aðallega fólgnar í ítarlegri aðgreiningu á efni núgildandi 217. og 218. gr. hegningarlaganna sem hafa valdið nokkrum erfiðleikum í meðferð fyrir dómstólum.

Ég tel ekki ástæðu til að fara út í nánari útlistun á efni frv. en vísa til hinnar ítarlegu grg. er fylgir frv. Það var, eins og ég tók fram áðan, lagt fram í upphafi Alþingis. Um það hefur verið fjallað í hv. allshn. Nd. og skilar hún svofelldu áliti:

Allshn. hefur rætt frv. á fundum sínum. Hún leggur til að það verði samþykkt óbreytt.“

Ég vænti þess, að frv. þessu verði tekið vel í hv. Ed. og það nái fram að ganga fyrir þinglok.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leggja til að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn.