10.11.1980
Efri deild: 10. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í B-deild Alþingistíðinda. (389)

33. mál, málefni Flugleiða hf.

Frsm. meiri hl. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Á nýliðnu flokksþingi Alþfl. var mikið deilt um stíl, gamlan stíl og nýjan stíl. Þær ræður, sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson hefur flutt hér í dag, eru jómfrúrræður hans sem hins nýja formanns Alþfl. Það hefur vakið athygli í þessum umr., að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, formaður þingflokks Alþfl., hefur séð sérstaka ástæðu til þess að fylgjast með þeim úr hliðarherbergjum. Það hefur enn fremur vakið athygli, að fyrrv. formaður Alþfl., Benedikt Gröndal, hefur einnig heiðrað hv. deild og fylgst með þessum umr. Og nú síðast gekk hér í salinn hv. þm. Vilmundur Gylfason, fulltrúi hins nýja stíls, til þess að fylgjast með þessum umr.

Þessar inngöngur forystuliðs Alþfl. í deildina gefa til kynna, hver er raunverulega ástæðan að baki þeim málflutningi sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson hefur haft uppi í þessu máli. Hann er að gangast undir próf sem þingflokkur Alþfl. lagði fyrir hann í þessu máli. Það er rétt að hafa það í huga fyrir þá sem hafa áhuga á Alþfl., að höfundur prófsins er ekki formaður þingflokks Alþfl., höfundur prófsins er ekki fyrrv. formaður Alþfl., höfundur prófsins er hv. þm. Vilmundur Gylfason, fulltrúi hins nýja stíls. Hann lagði grundvöllinn að þessari ræðu í umr. í Sþ. Þess vegna er þessi málflutningur, sem hv. deild hefur heyrt hér í dag, eingöngu innanflokksmál þeirra Alþfl.-manna. Við hinir bíðum spenntir eftir því að vita hvernig hinn nýi formaður hefur staðist prófraunina. Sá málflutningur, sem hann hafði uppi hér í deildinni, er allur annar en sá sem hann hafði þegar nefndin starfaði að þessu máli. Yfirlýsingar hans um fyrirtækið, stjórn þess og annað, sem hann hafði uppi hér í þessum ræðum, eru allar miklu meir í anda þess sem kennt hefur verið við hinn nýja stíl Alþfl. Ég skal ekki lasta það. En minn meginlærdómur af þessari göngu hins nýja formanns Alþfl. í þessari umr. er að þrátt fyrir úrslitin á flokksþingi Alþfl. er Vilmundur Gylfason enn þá sterki maðurinn í þingflokki Alþfl.