07.05.1981
Neðri deild: 89. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4071 í B-deild Alþingistíðinda. (4198)

263. mál, varnir gegn mengun sjávar frá landstöðvum

Jósef H. Þorgeirsson:

Herra forseti. Þessi sértrúarsöfnuður koladrápsmanna er vissulega orðinn iðinn við kolann og þeir halda því fram að þeir hafi öðlast einhvern einkarétt á skýrri og rökfastri hugsun. Það kom glöggt fram í máli þess manns sem talaði hér á undan mér, að hann gerði engan greinarmun á því, hvort frv. var flutt sem stjfrv. eða hvort einhver ráðh. flutti málið sem þm. Á þessu er meginmunur og það er í alla staði eðlilegt að mál, sem einstakir þm. flytja, sé ekki tekið til umr. þegar flm. málsins eru ekki viðstaddir í þinginu.

Jafnfráleit var röksemdafærsla hv. 4. þm. Suðurl., Garðars Sigurðssonar, þegar hann vildi halda því fram, að númer mála segði til um hvort þau hefðu verið tafin eða ekki hér í deild. Hann benti á það, að frv. til l. um fiskveiðilandhelgi Íslands væri 174. mál Nd. og það væri hér til umr. jafnhliða 263. máli Nd. sem væri um varnir gegn mengun sjávar frá landstöðvum. Ég vil aðeins benda hv. þm. á það, að í gær tók deildin til 3. umr. 7. mál Nd. sem heitir „Horfnir menn“. Og ég ætla að ekki þurfi að hafa um það öllu fleiri rök, að númer mála hér í hv. deild segja ekkert um það, í hvaða röð eigi að afgreiða þau. Það eru heillum horfnir menn sem halda slíku fram.