22.05.1981
Efri deild: 118. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4865 í B-deild Alþingistíðinda. (5154)

102. mál, Lífeyrissjóður Íslands

Frsm. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Það hefur komið fram á þessu þingi og fyrri þingum að lífeyrismálefni landsmanna eru mjög flókin. Á þeim vettvangi hefur sprottið upp á undanförnum áratugum mikill fjöldi nýrra stofnana. Forsvarsmenn þeirra sem og stjórnvöld hafa haft það að meginverkefni að reyna að samræma þær reglur og þau ákvæði sem gilda um lífeyrisréttindi landsmanna.

Það hefur einnig komið fram bæði á þessu þingi og fyrri þingum frá þm. úr öllum stjórnmálaflokkum, reyndar einnig aðilum utan þings, að nauðsynlegt sé að samræma þetta kerfi í eina heild. Ein hugmyndin um slíka samræmingu var lögð fram í sérstöku frv. til l. um Lífeyrissjóð Íslands sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson og fleiri fluttu hér fyrr í vetur, en það er samhljóða frv. sem Guðmundur H. Garðarsson hafði flutt áður.

Nefndin sendi þetta frv. til umsagnar fjölmargra aðila og bárust nokkrar umsagnir. Eru þær prentaðar sem fskj. með nál. Í þessum svörum kemur fram að unnið er að því að endurskoða lífeyriskerfið og sérstakar nefndir vinna að þeirri endurskoðun. Nefndin komst þess vegna að þeirri niðurstöðu, að það væri ekki tímabært að taka afstöðu til þess frv. sem við fjölluðum um. Við töldum hins vegar nauðsynlegt að gera tvennt: Í fyrsta lagi að lýsa störfum okkar að málinu og kynna þinginu þær umsagnir sem okkur hafa borist um það. Í öðru lagi að knýja á um það, að svo fljótt sem auðið er og nauðsynlega síðar á þessu ári verði lagt fyrir þingið frv. að l. um samræmt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn. Við leggjum þess vegna ekki til í nál. að sérstök afstaða sé tekin til frv., en kynnum hins vegar þetta tvennt sem ég hef hér lýst.

Þess vegna er ekki ástæða, herra forseti, til þess að bera frv. upp til atkv. að lokinni þessari umr., hvorki frv. sjálft né að vísa því til ríkisstj. Það er ætlun okkar, að þessari 2. umr. verði ekki lokið, heldur verði henni frestað, ef svo má að orði komast, og málið dagi síðan uppi með lokum þingsins, þó þannig að við höfum haft hér tækifæri til þess að gera grein fyrir þessum sjónarmiðum. Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson mun einnig taka til máls hér við þetta tækifæri. En ég hef lýst hér afstöðu og afgreiðslu nefndarinnar og vísa hv. þd. og öðrum þeim, sem þessi mál varða, til þeirra fskj. sem birt eru með nál. Þau eru frá eftirtöldum aðilum: félmrn., Öryrkjabandalagi Íslands, Verslunarráði Íslands, Sambandi almennra lífeyrissjóða, Stéttarsambandi bænda, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Sambandi ísl. samvinnufélaga.